Samræmd slysaskráning

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 13:43:40 (5025)

2000-03-08 13:43:40# 125. lþ. 75.3 fundur 333. mál: #A samræmd slysaskráning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[13:43]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vona að ég hafi tekið rangt eftir þegar hæstv. heilbrrh. svaraði spurningunni. Hún gat ekki um sjómannastéttina. Mér þykir það miður vegna þess að árið 1998 skilaði fimm manna þingnefnd skipuð af hæstv. þáv. samgrh., Halldóri Blöndal, viðamikilli skýrslu um slysamál sjómanna. Það er athyglisvert að af 5.000 manna starfsstétt þá slasast á milli 400 og 500 á hverju ári.

Enn þann dag í dag gengur það svo ef sjómenn slasast að þá er siglt í ofboði með þann slasaða í land, honum er hent upp á bryggju og skipið heldur til veiða á ný. Þetta er ekki rannsakað, ekkert athugað. Í gegnum árin hefur Tryggingastofnun ríkisins reynt að halda skrá yfir þessi skip bara út frá peningalegu sjónarmiði. Hafi hins vegar verið leitað upplýsinga um orsakir slysanna o.s.frv. þá hefur sú skráning ekki verið til. Eingöngu hin fjárhagslega hlið málsins er skráð.

Í mörg ár höfum við talað um þetta og Siglingastofnun var byrjuð á þessu. Þetta er auðvitað hið þarfasta mál. Það sem mér kemur hins vegar undarlega fyrir sjónar er: Er ekki ætlunin að hafa slysaskráningu sjómanna í þessu líka? Við í nefndinni lögðum einmitt til að fjármagn yrði veitt í þetta. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa ágætu spurningu. Ég vona að við séum á réttri leið og að sjómannastéttin sé innan borðs í þessu máli líka.