Samræmd slysaskráning

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 13:45:24 (5026)

2000-03-08 13:45:24# 125. lþ. 75.3 fundur 333. mál: #A samræmd slysaskráning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég vil líka þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli sem er mjög þarft. Eins og síðasti ræðumaður tók fyrir slysasmál sjómanna, þá vil ég í stuttu máli gera að umtalsefni umferðarslys í Reykjavík. Umferðaryfirvöld í Reykjavík hafa árum saman skráð þau slys sem upplýsingar hafa verið aðgengilegar um og myndað á þeim grundvelli svokallaða svartblettaskýrslu sem hefur síðan orðið til að gripið hefur verið til aðgerða, hámarkshraði lækkaður, hraðahindranir settar, götum lokað o.s.frv. Þannig hefur verið gripið til ýmissa slíkra ráða í umferðinni í Reykjavík með góðum árangri. Því er gleðiefni að sjá að með samræmdri slysaskrá yfir landið stefni menn að því á landsvísu. Ég fagna því.