Meðferðarheimili að Gunnarsholti

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:09:13 (5040)

2000-03-08 14:09:13# 125. lþ. 75.5 fundur 384. mál: #A meðferðarheimili að Gunnarsholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og að eyða þeirri óvissu sem er um þennan rekstur. Hins vegar er það rétt sem kom fram hjá henni og ég nefndi reyndar í framsögu minni að umræðan er ekkert ný og það gengur ekki að á hverju ári komi upp vangaveltur um hvort þetta vistheimili eigi að vera áfram í rekstri eða ekki. Tillögur þess efnis að loka voru m.a. ræddar við starfsfólkið fyrir ekki löngu en vissulega var tekið fram að það var eingöngu um hugmyndir og tillögur að ræða.

Ég tel mjög nauðsynlegt að byggja upp þá starfsemi sem þarna er og viðhalda henni. Aldur þeirra sjúklinga sem þarna dveljast hefur færst niður frá því sem áður var. Eðli starfseminnar hefur breyst. Það þarf að gera aðrar kröfur en voru gerðar fyrir nokkrum árum en jafnframt hefur þörfin fyrir það að endurskipuleggja reksturinn með tilliti til þeirra þarfa sem eru hjá sjúklingunum aukist. Eins og ég sagði tel ég mjög mikla nauðsyn að fara í þessa endurskipulagningu og að byggja hana upp í samstarfi við félagsmálayfirvöld, endurhæfingarmeðferð fyrir unga fíkniefnaneytendur sem hafa lokið þeirri meðferð sem þýðir afeitrun. Ég tel að hvergi sé að finna betri stað en einmitt þarna. Það þarf fleiri stöðugildi og það má líka hugsa sér af því að það þarf t.d. núna nýtt stöðugildi eða þyrfti annað stöðugildi geðlæknis á Sogni hvort ekki mætti hugsa sér samstarf þar á milli hvað varðar sérhæfða þjónustu því auðvitað verður fagfólk að koma að þessari uppbyggingu.

Ég fagna því líka að hæstv. ráðherra er reiðubúin að ræða hvort gera megi meðferðarheimilið að Gunnarsholti að sjálfstæðri stofnun sem sé rekin í samstarfi við heilsugæsluna á Hellu og Hvolsvelli eða heilbrigðisþjónustuna á Suðurlandi og ég tel að það megi gera einnig í samstarfi við félagsmálayfirvöld og skólayfirvöld því það þurfti að koma þar á einhverri kennslu fyrir þá sem þar dveljast.