Skattlagning slysabóta

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:26:10 (5048)

2000-03-08 14:26:10# 125. lþ. 75.1 fundur 332. mál: #A skattlagning slysabóta# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:26]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er hárrétt sem kom fram hjá fyrirspyrjanda. Í skattalögum er gerður greinarmunur á annars vegar tímabundinni örorku og hins vegar varanlegri örorku. Hér er um það að tefla að í mörgum tilfellum virðist sem tryggingafélög hafi ekki sent út launamiða þar sem fram kemur að viðkomandi slysbætur hafi verið skattskyldar. Það hefur leitt til þeirrar stöðu að hluti skattgreiðenda sem hefur fengið þessar bætur hefur talið þær fram og borgað þær í skatt en ákveðinn hluti ekki.

Það er grundvallaratriði í skattaréttinum að jafnræðis sé gætt og tveir aðilar í sömu stöðu sæti sömu skattmeðferð. Þegar skattstjórar fóru að kanna þetta mál kom á daginn að sumir höfðu talið fram og greitt sinn skatt en aðrir höfðu ekki gert það. Þá bar þeim að krefja viðkomandi um upplýsingar og úrskurða um breytingar á álögðum gjöldum.

Á árinu 1998 var úrskurðað í 360 málum af þessu tagi í Reykjavík og á árinu 1999 voru þau 340. Samtals eru þetta um 700 manns hér í Reykjavík á þessu tveggja ára tímabili en upplýsingar frá öðrum embættum liggja ekki fyrir.

Enginn fær þennan skatt felldan niður frekar en aðra skatta. Álagðir rétt ákvarðaðir skattar eru ekki felldir niður. Það er engin heimild til að fella þá niður. Hins vegar getur verið um að ræða sérstakar ívilnanir á grundvelli 66. gr. skattalaganna. Einhverjir munu hafa fengið úrskurð í samræmi við þá grein enda hafa þeir uppfyllt þau skilyrði sem þar er gert ráð fyrir. Einhverjir þeirra sem hér hafa verið nefndir til sögunnar hafa getað beitt þessu úrræði enda er ljóst að í mörgum tilfellum hefur svona eftirákrafa komið sér afar illa fyrir fólk í bágri stöðu. Það er ekki um það að ræða að menn fái skatt, hvorki þennan skatt né annan, felldan niður án þess að beitt sé slíkri ívilnun.

Einhverjir hafa síðan vísað málum sínum til yfirskattanefndar eins og eðlilegt er. Það er réttur hvers skattgreiðanda. Sumir af þeim hafa fengið þann úrskurð að úrskurður skattstjóra hafi verið ómerktur vegna formgalla. Þá má búast við því að skattstjórar krefji um skattinn að nýju þegar úr formgöllum hefur verið bætt. Í þeim tilvikum hefur einhverjum verið endurgreiddur skatturinn á meðan, eftir að úrskurður yfirskattanefndar hefur legið fyrir. Við höfum ekki upplýsingar um hversu margir aðilar þetta eru og heldur ekki svar við spurningu fyrirspyrjanda um hversu margir hafi greitt skattinn eftir þessa meðferð og hve háar upphæðir sé um að ræða. Það er ekki til nein samkeyrsla á því hverjir hafa fengið hækkun opinberra gjalda annars vegar og svo hins vegar hvernig innheimtan fer fram. Því sinnir annað embætti og aðrir innheimtuaðilar. Svo spilar þar auðvitað inn í að menn geta átt ónotaðan persónuafslátt eða millifæranlegan persónuafslátt frá maka. Þess vegna eru slíkar upplýsingar ekki handbærar. Hins vegar er hægt að skýra frá því að hækkun tekjuskatts hjá skattstjóranum í Reykjavík vegna skattskyldra slysadagpeninga var rúmlega 41 millj. kr. á árinu 1998 og 45,5 millj. á árinu 1999 eða samtals 86,6 millj. á þessum tveimur árum.

Fyrirspyrjandi spurði: Hvaða rök eru fyrir því að ekki sitja allir við sama borð gagnvart þessari skattlagningu? Að sjálfsögðu eru engin rök fyrir því og það er ástæðan fyrir aðgerðum skattstjóranna. Það eru aldrei nein rök fyrir því að fólk sitji ekki við sama borð og fyrirspurnin er villandi að þessu leyti vegna þess að í henni er fullyrðing sem stenst ekki.

[14:30]

Í ljós kom að það var ósamræmi hjá aðilum m.a. vegna þess eins og ég gat um áðan að tryggingarfélög höfðu greitt háar bótafjárhæðir, skattskyldar bótagreiðslur, án þess að gera grein fyrir þeim á launamiðum eða til tjónþolendanna sjálfra. Þetta leiddi til þess að einungis hluti tjónþolenda greiddi skatt af þeim bótum sem þeir þáðu þó svo að bæturnar væru skattskyldar. Þegar þetta var skoðað árið 1995 kom í ljós að um 40 af hundraði höfðu greitt skattinn, 60 af hundraði höfðu ekki gert það og þá var næsta verkefni skattstjóranna að grafast fyrir um ástæður hjá þessum aðilum og með þeim afleiðingum og þeirri málsmeðferð sem ég hef síðan rakið.

Aðgerðir skattyfirvalda hafa haft þau áhrif að frá árinu 1998 hafa tryggingafélögin talið þetta samviskusamlega fram á launamiðum. Við gerum okkur því vonir um að frá og með því ári hafi þetta vandamál verið leyst að því leyti til að allar greiðslur eru nú upp gefnar af hálfu tryggingafélaganna og bótaþegar eiga ekki að vera í vafa um hvar skattskylda þeirra liggur í málinu.