Skattlagning slysabóta

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:31:31 (5049)

2000-03-08 14:31:31# 125. lþ. 75.1 fundur 332. mál: #A skattlagning slysabóta# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér en það voru því miður ekki svör við öllum spurningum, en þeim sem hann svaraði. Ég verð að segja að auðvitað er verið að mismuna fólki og þetta er fólk sem á undir högg að sækja. Ég veit t.d. til þess að fólk sem hefur lent í svona slysum og er illa statt fjárhagslega varð að taka lán til að borga þennan skatt, síðan sér það aðra við hliðina á sér sem hafa lent í svipuðu, kærðu og hafa ekki þurft að borga skattinn. Auðvitað er verið að mismuna fólki á þennan hátt. Það er síðan spurning hvort skattstjórarnir muni krefja þá sem hafa ekki þurft að greiða um greiðslu en einhverjir hafa fengið undanþágu skv. 66. gr. laganna. Ég get ekki séð að fólk sé í sömu stöðu hvað þetta varðar. Vissulega ætti þetta mál að vera úr sögunni í framtíðinni því það er búið að taka á þessu. Það er alveg ljóst að fólk fékk ekki upplýsingar um að það ætti að telja þetta fram til skatts þannig að það var afvegaleitt, það er í raun verið að villa um fyrir fólki af því það fékk ekki upplýsingar. Þetta fólk á vissulega margt mjög erfitt fjárhagslega eftir að hafa lent í slysum og ég velti því fyrir mér hvort það er ekki einhvern veginn hægt að koma til móts við það þannig að þeir sem tóku á sig skuldir til að greiða þennan skatt geti þá a.m.k. fengið einhverjar undanþágur eða lækkun á þeim sköttum sambærilegt við þá sem fengu þetta niðurfellt.