Stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:36:23 (5051)

2000-03-08 14:36:23# 125. lþ. 75.10 fundur 373. mál: #A stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 629 ber ég fram þrjár spurningar til hæstv. umhvrh.

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 1994 og ef svo er, hvenær koma þær fyrirætlanir til framkvæmda?

2. Hve margir samningar hafa náðst við landeigendur á svæði fyrirhugaðs þjóðgarðs?

3. Hve marga samninga er gert ráð fyrir að gera við landeigendur um kaup á jörðum á svæðinu?

Þegar þær fyrirætlanir urðu ljósar frá ríkisstjórn Íslands árið 1994 að til stæði að stofna þjóðgarð á Snæfellsnesi urðu margir mjög áhugasamir um þetta verkefni um allt land og ekki hvað síst á Snæfellsnesi og þeir sem þar þekkja til. Þetta er afskaplega fallegt og mikilfenglegt svæði, þarna eru margar náttúruperlur og þarna er mikil ferðaþjónusta til staðar. Þess vegna blandast margvíslegir hagsmunir inn í málið sem verða til þess að margir vilja hafa áhrif á að það verði af framkvæmdum hvað þetta varðar. Ég veit að ferðaþjónustuaðilar hafa mikinn áhuga á því að hægt sé að tala um þetta svæði sem þjóðgarð. Þeir sem hafa áhuga á þeim náttúruperlum sem þarna eru telja líka að það sé fólgið í því öryggi gagnvart þeim að það verði af stofnun þessa þjóðgarðs. Ég er fyrst og fremst að spyrja þessara spurninga til að vekja athygli á málinu, fá fram afstöðu nýs umhvrh. í málinu, hvernig hann ætlar að beita sér í því og hvernig hann sér þetta mál ganga fram fyrir sér núna, hvenær við getum séð endanlega ákvörðun í þessu máli og hvað þurfi þá að gera til þess að hún geti orðið að veruleika ef einhver vandamál eru á ferðinni hvað stofnun þessa þjóðgarðs varðar.

Ég vonast til þess að ég fái svör við þessum spurningum sem eru skýr og í þeim verði fólgin skilaboð til þeirra sem spyrja eftir þessu máli.