Stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:39:20 (5052)

2000-03-08 14:39:20# 125. lþ. 75.10 fundur 373. mál: #A stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég svara fsp. frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni á þskj. 629 um stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi.

Í fyrsta lagi er spurt hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 1994 og ef svo er, hvenær þær fyrirætlanir komi til framkvæmda.

Því svara ég játandi en eins og kemur fram í verkefnaskrá umhvrn. er fyrirhugað að þjóðgarður á utanverðu Snæfellsnesi verði stofnaður á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar en ríkisstjórnin samþykkti í febrúar 1994 tillögu umhvrh. að hefja undirbúning að stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi. Undir lok árs 1997 skilaði nefnd tillögum um frekari útfærslu. Einn liður í undirbúningnum er að reyna að ná samningum við landeigendur um kaup á viðkomandi jörðum þannig að allt þjóðgarðslandið verði í eigu ríkisins í þeim tilgangi að einfalda og auðvelda stjórnun svæðisins og tryggja að markmiðin með stofnun þjóðgarðsins náist. Náist ekki samningar við landeigendur, sem ekkert bendir reyndar til nú, þá mundi það ekki hafa áhrif á áætlanir um stofnun þjóðgarðsins, því skv. 51. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, er heimilt að stofna þjóðgarða án þess að allt land viðkomandi þjóðgarðs sé í eigu ríkisins að því gefnu að samkomulag náist milli ráðherra og landeigenda. Á væntanlegu þjóðgarðssvæði eru ýmsir landeigendur; þrjár jarðir eru í eigu ríkissjóðs, ein jörð er í eigu sveitarfélags og sjö jarðir eru í eigu einkaaðila.

Í öðru lagi er spurt hve margir samningar hafi náðst við landeigendur á svæði fyrirhugaðs þjóðgarðs. Því er til að svara að þegar hefur verið gengið frá fjórum samningum en þar af eru þrjár jarðir ríkisjarðir. Þó ekki sé um eiginleg kaup að ræða á þeim þarf að gera samninga þar að lútandi.

Í þriðja lagi er spurt um hve marga samninga sé gert ráð fyrir að gera við landeigendur um kaup á jörðum á svæðinu. Því er til að svara að væntanlega munu verða gerðir alls sjö samningar um kaup á jörðum ef samningar nást við jarðeigendur.

Ég vil að endingu, virðulegur forseti, taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að það er mikill áhugi á þessu máli úti í samfélaginu og afstaða mín er mjög skýr. Ég styð þetta mál heils hugar og vona að við náum samningum við landeigendur, sem hafa vissulega tafið málið, og vona að samningar náist sem fyrst.