Stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:45:38 (5055)

2000-03-08 14:45:38# 125. lþ. 75.10 fundur 373. mál: #A stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:45]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og þann skilning sem hv. fyrirspyrjandi, Jóhann Ársælsson, sýnir á stöðu þessara mála og tek undir að það er mjög æskilegt að ríkið eigi jarðirnar sem falli undir væntanlegan þjóðgarð, það mundi að mínu mati einfalda mjög stjórnun á honum. Meiningin hjá okkur er því að reyna að ná samningum við jarðeigendur þannig að hægt sé að ganga frá því heildstætt í einum pakka. Það er nokkuð flókið mál og þess vegna hefur dráttur orðið á að stofna þjóðgarðinn. Sveitarfélagið Snæfellsbær mun leggja þarna til sitt land, það er ekki endanlega búið að skrifa undir þá samninga en það er ekkert því til fyrirstöðu. Það er mikill vilji meðal heimamanna að ganga í þetta og þeir hafa samband og spyrja um stöðu mála. En þetta er flóknara en svo að hægt sé að ganga frá þessu mjög hratt vegna þeirrar stöðu mála að einkajarðir eru þarna inni á svæðinu. En svæðið er, eins og hér hefur komið fram, mjög sérstakt, það er ótrúlega fallegt og þarna eru miklar menningarminjar og lifandi saga. Ég vil líka draga það fram að svæðið nýtur góðs af því að vera í tiltölulega mikilli nálægð við Breiðafjörðinn, þannig að í framtíðinni þegar við verðum komin með þjóðgarð á Snæfellsnesi verður mjög spennandi að tengja hann við Breiðafjörðinn og verndarsvæðið sem er á Breiðafirði og allt sem við ætlum að gera á því svæði, en nú hefur einmitt nýlega komið fram verndaráætlun fyrir Breiðafjörð. En ég vil þakka fyrir umræðurnar og skilninginn sem þessu máli er sýndur.