Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:56:38 (5059)

2000-03-08 14:56:38# 125. lþ. 75.6 fundur 353. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:56]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með að hafin skuli vera vinna af fullum krafti við endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaganna og árétta að hér er um mjög brýnt mál að ræða. Fasteignagjöldin eins og þau eru í dag eru hróplegur mismununarskattur á fólk sem býr á landsbyggðinni, ég tala nú ekki um í byggðarlögum þar sem eignir eru hér um bil verðlausar.

En ég vil koma því á framfæri að það er einn flokkur enn sem þarf að líta á og það eru ferðaþjónustuaðilar í sveitum. Ég vil að það verði skoðað ítarlega hvort ekki sé hægt að binda fasteignagjöld hjá ferðaþjónustuaðilum í sveitum við notkun að einhverju leyti því að í mörgum tilfellum er um mjög tímabundna notkun að ræða, í kannski þrjá, fjóra eða fimm mánuði og síðan standa eignirnar auðar það sem eftir er ársins eða yfir veturinn. Þetta þarf að skoða mjög alvarlega að mínu mati.