Vatnsveitur í dreifbýli

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:04:44 (5064)

2000-03-08 15:04:44# 125. lþ. 75.7 fundur 354. mál: #A vatnsveitur í dreifbýli# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Fram til ársins 1998 voru vatnsveitur í sveitum styrktar í gegnum búnaðarfélögin eða Bændasamtökin. Styrkurinn var 44% af kostnaði við framkvæmdina. Starfsmaður Bændasamtakanna mældi fyrir vatnsveitum og tók þær út án endurgjalds. Nú hefur orðið breyting á vegna þess að framlög þau sem áður voru veitt búnaðarsjóðunum hafa algjörlega verið felld niður. Nú þarf að leita til sveitarfélagsins eftir vatnsveitustyrk og styrkur til framkvæmdanna kemur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Styrkirnir eru þrepaskiptir eftir stærð sveitarfélaga. Hæstir eru þeir til vatnsveitna í minnstu sveitarfélögunum í dreifbýli, eða 50%. Það er þó skilyrði að sveitarfélögin leggi veiturnar og reki þær. Sveitarfélögin þurfa að gera samning við ábúanda, þ.e. að fá leyfi fyrir lagningu veitunnar og fá samþykki viðkomandi ráðuneytis fyrir gjaldskrá sem notandi greiðir síðan til sveitarsjóðs. Þetta kostar alls konar snúninga og fyrirhöfn og um leið peninga. Það sem er einnig erfitt fyrir flesta bændur í sveitum landsins er að þeir eiga sínar veitur sjálfir og reka þær. Ef leggja þarf nýja veitu yrði hún að vera kostuð og rekin af sveitarfélaginu með því fyrirkomulagi sem er í gildi í dag. Það skapar mismunun milli viðkomandi aðila. Til að réttlætinu yrði fullnægt þyrftu sveitarfélögin í raun og veru að kaupa allar vatnsveitur og reka þær. Því er fyrirspurn mín til hæstv. félmrh.:

Hver er afstaða ráðherra til reglna um styrki til byggingar vatnsveitna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir endurskoðun á þessu fyrir komulagi þannig að framkvæmdir á vegum einstakra býla geti notið styrkja eins og áður var?