Aðbúnaður þroskaheftra og fatlaðra á Landspítala

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:17:35 (5071)

2000-03-08 15:17:35# 125. lþ. 75.8 fundur 363. mál: #A aðbúnaður þroskaheftra og fatlaðra á Landspítala# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir fyrirspurn til hæstv. félmrh. Í framhaldi af fyrirspurn fyrr á fundinum til hæstv. heilbrrh. kom fram að í húsnæði Landspítala í Kópavogi á endurhæfingar- og hæfingardeild búa nú 35 fatlaðir einstaklingar við óviðunandi aðstæður. Ég lýsti húsnæðinu nokkuð í fyrri fyrirspurn minni. En mig langar, með leyfi forseta, að vitna aðeins í ályktun Landssamtakanna Þroskahjálpar um Kópavogshælið. Þetta er ályktun sem gerð var á fundi þeirra síðastliðinn október.

,,Árið 1992 samþykkti Alþingi að leggja Kópavogshæli niður. Enn búa um 70 manns`` --- svo stendur hér, en innskot mitt er 35 --- ,,á Kópavogshæli sem skilgreint er sem sjúkrahús. Íbúar þar fá því ekki örorkubætur né njóta félagsþjónustu sveitarfélaga á borð við liðveislu og ferðaþjónustu fatlaðra. Óeðlilegt er að hátæknisjúkrahús eins og Ríkisspítalar séu að reka félagsþjónustu fyrir fatlaða. Fólk um allan heim er sammála um að stórar sólarhringsstofnanir eigi ekki rétt á sér sem heimili fatlaðra og skuli leggja þær niður og bjóða íbúunum almenna búsetu úti í samfélaginu.

Skorað er á ríkisstjórn að standa við gefin loforð við íbúa Kópavogshælis um nýja búsetu. Gera þarf áætlun um að ljúka flutningi fólks af hælinu þannig að íbúarnir þurfi ekki að vera í endalausri óvissu um framtíð sína. Tryggja verður þeim sömu grundvallarmannréttindi og öðrum þjóðfélagsþegnum.

Kópavogshæli var byggt upp fyrir fólkið sem þar býr og framkvæmdir fjármagnaðar með fjárveitingum til málefna fatlaðra. Eðlilegt er því að eignir á Kópavogshæli verði seldar og fénu varið í nýtt húsnæði fyrir núverandi íbúa hælisins. Rekstrarfé til þjónustu við íbúana er þegar fyrir hendi og á að fylgja þeim.``

Eftir svar hæstv. heilbrrh. hefur ekkert komið fram um það hvernig áætlunin er sem hæstv. heilbrrh. vísaði til í Þjóðarsálinni fyrir ári síðan, þ.e. að hæstv. félmrh. væri búinn að láta gera áætlun um það hvernig þessir einstaklingar yrðu fluttir í annað húsnæði. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvenær flutningi þessa fólks verði lokið. Og í hverju er áætlunin fólgin? Við verðum að fá svar við því hér hvenær ráðherra hyggist ljúka þessum flutningi, því það er búið að lofa svo miklu og af þeim svörum sem hér hafa verið gefin er maður ekki nokkru nær um það hvenær verður búið að flytja þessa einstaklinga úr þessu óviðunandi húsnæði.