Undanþágur frá greiðslu fasteignaskatta og gatnagerðargjalda

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:39:19 (5079)

2000-03-08 15:39:19# 125. lþ. 75.9 fundur 412. mál: #A undanþágur frá greiðslu fasteignaskatta og gatnagerðargjalda# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir upplesturinn úr skýrslunni og hv. þm. sem hér tók til máls. Ég vil aðeins ítreka það og segja að mér finnst þetta mjög óeðlilegt. Ég lít ekki svo á að það eigi að vera einhvers konar dúsa fyrir sveitarfélögin að fá þessar opinberu stofnanir, að þau eigi bara að láta sér það duga og að ekki eigi að greiða lögboðin gjöld af fasteignum sínum. Það má t.d. spyrja: Hvað ef einkaaðilar rækju nú rafmagnseftirlit í húsinu við hliðina á Rafmagnseftirliti ríkisins? Væri þá ekki verið að mismuna fyrirtækjum og þetta orðið mál fyrir Samkeppnisstofnun? Ég er þeirrar skoðunar að ríkisvaldið, ríkissjóður, eigi að greiða sveitarfélögum þau gjöld, eins og fasteignaskatta og annað af öllum þeim húsum og fasteignum sem hér hafa verið talin upp, nema ég vil sérstaklega undanskilja kirkjurnar. Þetta er enn eitt dæmið um að ríkisvaldið setur lög þar sem sveitarfélögin fá ekki að halda tekjustofnum sínum og líka það sem verra er, hreinlega skerða stórlega þær litlu tekjur sem sveitarfélögunum eru ætluð. Ég get tekið sem dæmi skattafslátt vegna hlutabréfakaupa, en það er talið að sveitarfélögin í landinu hafi orðið af rúmum 230 millj. árið 1997 bara vegna þessa skattafsláttar.

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og hlakka mikið til að fá skýrslu hans, en segi það aðeins að ég held að það komi og verði að koma inn í tekjustofnaendurskoðunina að ríkissjóður skuli borga fasteignaskatta af þessum stofnunum og mannvirkjum sem hér hafa verið nefnd, fyrir utan kirkjurnar. Vegna þess að auðvitað er sama hvort um er að ræða skóla eða rafmagnsfyrirtæki, þau njóta þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin veita og fasteignaskattarnir eiga að dekka.