Undanþágur frá greiðslu fasteignaskatta og gatnagerðargjalda

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:41:32 (5080)

2000-03-08 15:41:32# 125. lþ. 75.9 fundur 412. mál: #A undanþágur frá greiðslu fasteignaskatta og gatnagerðargjalda# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu kemur tekjustofnanefndin til með að fara yfir allar þessar undanþágur í starfi sínu. Ég skal ekkert segja hvað út úr því kann að koma. En ég tel að yfirleitt séu þessar undanþágur þannig til komnar að sveitarfélögin hafi viljað vinna það til að þessi starfsemi væri undanþegin. Menn hafa minnst hér á kirkjurnar og mér finnst það mjög eðlilegt að þær séu undanþegnar og ég veit að hv. þm. Karl Matthíasson er mér mjög sammála um það, að eðlilegt sé að kirkjurnar séu undanþegnar fasteignasköttum. Kirkjan eða söfnuðirnir teldu sig vafalaust vanbúna til að greiða fasteignaskatta. Sama er t.d. um skipbrotsmannaskýli og sæluhús, íþróttahús og heimavistir, og svona mætti lengi telja. Þetta er allt saman einhvers konar félagsleg eða menningarleg starfsemi sem þarna er um að ræða og allt á þetta við einhver rök að styðjast. Ég er sannfærður um að ef sveitarfélagið Skagafjörður, eða Sauðárkrókur sem það hét nú til skamms tíma, ætti völ á því hvort það vildi fá fjölbrautaskólann til sín, jafnvel þó að ekki væru gatnagerðargjöld af honum, þá mundu þeir hiklaust játa því að taka að sér að fá skólann jafnvel þó að yrði að ganga frá því að undanþiggja þessi gjöld.