Kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:48:31 (5082)

2000-03-08 15:48:31# 125. lþ. 75.11 fundur 404. mál: #A kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:48]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstvirtur forseti. Í upphafi tel ég rétt að vekja athygli á að fsp. þessari er ranglega beint til viðskrh. Eins og kveðið er á um í lögum um stofnun FBA fóru sjútvrh. og iðnrh. saman með hlut ríkisins í FBA frá stofnun og þar til einkavæðingu hans lauk í nóvember sl. Viðskrn. hefur engu að síður óskað eftir svörum frá FBA við fsp. þessari. Byggi ég svar mitt frá upplýsingum frá FBA eftir því sem við getur átt. Þess skal þó getið að bankanum er óheimilt að skýra opinberlega frá atriðum sem varða rekstur bankans án þess að tilkynna um það jafnframt til Verðbréfaþings. Þau svör sem fara á eftir eru unnin upp úr gögnum um bankann sem áður hafa verið gerð opinber.

Fyrst er spurt um ákvarðanir um laun og önnur kjör stjórnenda FBA. Laun stjórnar bankans eru ákveðin á hluthafafundi í bankanum. Laun stjórnar bankans hafa verið sem hér segir frá stofnun hans:

Á aðalfundi í bankanum þann 24. mars 1998 voru laun stjórnarmanna ákveðin 48 þús. kr. á mánuði og laun stjórnarformanns tvöföld sú fjárhæð. Varamenn skyldu fá 24 þús. kr. fyrir hvern setinn fund. Á aðalfundi í bankanum þann 24. mars 1999 voru laun stjórnarmanna ákveðin 54 þús. kr. á mánuði og laun stjórnarformanns tvöföld sú fjárhæð. Varamenn skyldu fá 27 þús. kr. fyrir hvern setinn fund. Forstjóri er ráðinn af stjórn bankans og eru laun hans ákveðin af stjórn. Framkvæmdastjórar bankans eru ráðnir af forstjóra og eru laun þeirra ákveðin af forstjóra. Lífeyrisréttindi starfsmanna og stjórnenda FBA myndast alfarið við inngreiðslu starfsmanna og mótframlags FBA í lífeyrissjóði. Bankinn safnar ekki upp lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna sinna.

Það hefur frá upphafi verið einn af lykilþáttum í stefnumótun bankans að tekið yrði upp árangurstengt launakerfi og var m.a. getið um það í umsögn bankans um starfsleyfi sem sent var viðskrn. þann 3. des. 1997. Stjórn bankans samþykkti á fundi sínum þann 22. des. 1998 að taka upp árangurstengt launakerfi. Kerfið byggir á og mælir hagsauka og miðar að því að tengja betur hagsmuni starfsmanna og hluthafa og með setningu langtímamarkmiða sem örvar starfsmenn til dáða með hagsmuni hluthafa að leiðarljósi. Snemma árs 1999 var samið við starfsfólk og stjórnendur Fjárfestingarbankans á grundvelli kerfisins. Þegar kerfið var tekið í notkun sömdu flestir starfsmannanna um nokkra lækkun grunnlauna um leið og þeir sömdu um að laun sín yrðu tengd bótum á rekstrarárangri bankans. Árið 1999 er fyrsta árið sem unnið var eftir kerfinu. Útreiknaður bónus ársins 1999 nam alls 191,3 millj. kr. og voru 22,6 millj. kr. greiddar út 1. september sl., 76,6 millj. voru greiddar út þann 1. mars sl. og nemur heildarútgreiddur bónus fyrir árið því 99,2 millj. kr., eða 52% af heildaráunnum bónus. 92,1 millj. kr., eða 48% af áunnum bónus geymist og verður greiddur út síðar, allt eftir því hvort árangur þessa árs batnar frá síðasta ári eða ekki. Þannig er kerfið hannað til að ýta undir varanlega árangursmyndun en ekki skammtímabata.

Í öðru lagi er spurt um launagreiðslur til stjórnar og stjórnenda. Á árinu 1998 námu laun stjórnar 4 millj. kr. og laun fjögurra manna framkvæmdastjórnar 37 millj. kr. Á árinu 1999 námu laun stjórnar 4,5 millj. kr. og laun framkvæmdastjórnar 50,5 millj. kr. Áunnin árangurstengd laun vegna ágóðahlutar til framkvæmdastjórnar námu 35 millj. kr. en þar af verður um helmingur greiddur á árinu 2000.

Í þriðja lagi er spurt nánar út í þátt ráðherra eða fulltrúa hans í stjórn bankans í ákvörðunum um afkomutengdan kaupauka. Ráðherra hefur ekki átt beinan þátt í ákvörðun um afkomutengdan kaupauka starfsmanna FBA. Það var stjórn bankans sem tók endanlega ákvörðun um að taka upp afkastahvetjandi launakerfi. Eins og að framan greindi samþykkti stjórn bankans árangurstengt launakerfi FBA á fundi sínum þann 22. des. 1998. Á þeim tíma var stjórn bankans skipuð fulltrúum kjörnum á aðalfundi þann 24. mars 1998 er iðnrh. og sjútvrh. fóru í sameiningu með hlut ríkissjóðs í bankanum.

Í fjórða lagi er spurt um ákvörðun um arðgreiðslur. Á aðalfundi sem haldinn var þann 24. mars 1998 var upplýst að ekki væri skilyrði til greiðslu arðs þar sem bankinn hefði ekki haft neina starfsemi með höndum á árinu 1997. Á aðalfundi sem haldinn var þann 24. mars 1999 var samþykkt sú tillaga stjórnar að greiða 8% arð vegna rekstrarársins 1998 til hluthafa. Þannig greiddi FBA 544 millj. kr. í arð til hluthafa sinna, þar af voru 277 millj. kr. greiddar til ríkissjóðs sem var þá stærsti hluthafinn með 51% eignarhlut.

Hæstv. forseti. Svar við fimmtu spurningunni verður að koma í síðari ræðu.