Kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:57:10 (5086)

2000-03-08 15:57:10# 125. lþ. 75.11 fundur 404. mál: #A kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., KVM
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Karl V. Matthíasson:

Hæstv. forseti. Það kom fram áðan hjá einum þingmanni, hv. þm. Pétri Blöndal, að það gagnaðist ekki láglaunafólki að Fjárfestingarbankinn væri illa rekinn. Það er svo sem rétt en það gagnast heldur ekki láglaunafólki í dag sem er að slást fyrir því að fá 80--90 þús. kr. á mánuði hvað það er með léleg laun. Það þarf að vekja upp öflugri umræðu einmitt um þetta meðan verið er að reyna að gera samninga og viðsemjendur horfa ábyrgðarfullum augum í sjónvarpsmyndavélar og segja að 70, 80, 90 þús. kr. grunnlaun verkafólks muni sigla þjóðarskútunni í strand. Það er stórkostlegt að heyra slíkar samlíkingar. Ég held því fram að ef verkafólk á Íslandi, sem vinnur erfiða og harða vinnu, fengi metin öll þau góðu störf sem það hefur verið að vinna mundu laun þess hækka um 100%.