Lyfjalög og almannatryggingar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 10:41:36 (5097)

2000-03-09 10:41:36# 125. lþ. 76.1 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[10:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við fyrstu sýn virðist þetta frv. jákvætt skref og það sé skynsamlegt að sameina þær stofnanir sem frv. gerir ráð fyrir. Hér er verið að laga lög okkar að alþjóðasamningum sem við höfum undirgengist og gera ákveðnar breytingar í samræmi við það eins og kemur fram í greinargerð og eins og kom vel fram í ræðu ráðherrans.

Hins vegar eru nokkur atriði sem mér finnst full ástæða til að við þingmenn veltum upp í umræðunni. Ég geri mér grein fyrir því að það verður að sjálfsögðu farið mjög ítarlega yfir málið í nefnd en samt er ástæða til að fá aðeins skýrari mynd af því sem er að gerast.

Það sem mér finnst áhugavert og kemur fram í upphafi greinargerðar er að verið er að breyta skilgreiningu lyfjahugtaksins og flokkun lyfja. Verið er að fella brott heimild til að skrá lyf tímabundið og breyta ákvæðum um lyfjaauglýsingar og lyfjaheildsölu og málsmeðferð yfirleitt vegna umsókna. Það kemur hérna fram að ekki verði lengur talað um skráningu lyfs sem skráð eða óskráð heldur veitingu markaðsleyfis lyfs og þá verða lyf með eða án markaðsleyfis. Ég spyr ráðherrann: Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta í einhverjum grundvallaratriðum breytingu frá því að lyf voru skráð eða er þetta fyrst og fremst orðalagsbreyting? Er þetta einhver grunnbreyting eða orðalagsbreyting?

Hv. þm. Samfylkingarinnar, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, spurði um nefndina og mikilvægt er að skoða þann þátt. Í frv. er kveðið á um eignarhlut starfandi lækna, tannlækna, dýralækna, maka þeirra og barna þeirra undir 18 ára aldri í lyfsölu, lyfjaframleiðslu eða lyfjaheildsölu, að eignarhlutur megi ekki vera svo stór að það hafi teljandi áhrif á fjárhagslega afkomu þeirra. Þetta finnst mér vera mjög gott ákvæði. Mér finnst að verið sé að taka á því sem allt of oft gerist í þjóðfélagi okkar að það séu hagsmunaárekstrar um eignarhlut, rekstur eða meðferð opinberra mála og finnst um leið og ég sé þetta ákvæði að það sé mjög jákvætt. Ég verð að viðurkenna að ég hef lesið yfir frv. fljótheitum á þessum morgni en ég skil það þannig að samræming þessara stofnana sé fyrst og fremst til hagræðis og að þarna sé kannski ekki verið að stofna til meiri útgjalda en verið hefur með rekstri þessara tveggja stofnana og þá vakna ákveðnar spurningar.

Ráðherrann kom inn á það að verið er að breyta heimildum til gjaldtöku, annars vegar verður um þjónustugjöld að ræða og hins vegar skattlagningu. Hann vísaði í dóm Hæstaréttar um að Hæstiréttur hafi talið gjaldtöku ekki fullnægja kröfum stjórnarskrárinnar með tilvísun í 40. og 77. gr. Allt hljómar þetta mjög jákvætt og eins og verið sé að bregðast við þörfum tímans. Svo þegar kemur að því að lesa umsögn fjmrn. þar sem fjallað er um hvað í frv. felist og hvaða kostnaðarauki og þá segir hér, með leyfi forseta:

[10:45]

,,Þá er gert ráð fyrir að lyfjanefnd Lyfjamálastofnunar verði stofnuninni til ráðgjafar um lyfjamál. Enn fremur kveður frumvarpið á um að skipuð skuli fimm manna nefnd til fjögurra ára í senn til að ákveða m.a. greiðsluþátttöku sjúkratrygginga skv. 36. gr. laga um almannatryggingar í nýjum lyfjum með markaðsleyfi sem innihalda þó virk efni sem ekki eru á markaði hér á landi. Gert er ráð fyrir að helstu kostnaðaráhrif frumvarpsins felist í ráðningu forstjóra fyrir stofnunina og auknum kostnaði af umsjón með útgáfu markaðsleyfa ...``

Þarna velti ég fyrir mér hvað sé að gerast. Ég hafði skilið það svo að í þessum tveimur stofnunum væru starfsmenn, sem ríkið ber auðvitað ákveðinn kostnað af, og hvað það er umfangsmikil stofnun sem verið er að setja á laggir þar sem gert er ráð fyrir nýju starfi forstjóra. Ég get vel skilið að það verði ákveðinn kostnaður af því að ný skráning með aukaverkunum lyfja verði til sem er líka nýtt og áhugavert mál í sambandi við lyfjamálið.

Síðan er gert ráð fyrir auknum kostnaði við sérfræðilega ráðgjöf m.a. vegna þessa og að beinan kostnað við frv. vegna framangreindra atriða megi áætla um 10 millj. kr. á ári. Það er kannski ekki mikið en þó er verið að ákveða að það komi nýr forstjóri og ný nefnd. Hvað er þá mikið af starfsliði fyrir í hinum tveimur fyrri stofnunum þar sem í hagræðingunni sem frv. ber í sér er samt verið að gera ráð fyrir auknum útgjöldum? Segir hér að kostnaður við Lyfjaeftirlit ríkisins og lyfjanefnd sé 68 millj. kr. á árinu 1999 og svo kemur fram í umsögn fjmrn. að leggja eigi á eftirlitsgjald. Ég lít svo á að það sé skatturinn sem kveðið er á um, 0,3% af heildarlyfjaveltu eftirlitsskyldra aðila sem standa á undir kostnaði stofnunarinnar við lyfjaeftirlit. Gert er ráð fyrir að þjónustu- og eftirlitsgjöld standi undir öllum kostnaði Lyfjamálastofnunar, þar með töldum lífeyrisskuldbindingum og húsnæðis- og fjárbindingarkostnaði. Undanskilinn er þó kostnaður nefndar og starfsmanns í hlutastarfi til að ákveða greiðsluþátttöku sjúkratrygginga sem má ætla að verði um 700 þús. á ári. Þá spyr ég ráðherrann: Hvað er þá reiknað með að Lyfjamálastofnunin kosti? Hvað er gert ráð fyrir að komi inn í skattinum, þessum 0,3% af heildarlyfjaveltu? Þarna kemur fram að kostnaður við lyfjaeftirlit var 68 millj. og gera megi ráð fyrir beinum kostnaði upp á 10 millj. og þá erum við komin í 78 millj. Er verið að gera ráð fyrir auknum útgjöldum og meiri tekjum af skatti en þarna kemur fram?

Þetta eru spurningarnar sem vakna þegar ég fer yfir frv. Auðvitað mun þetta verða skoðað í nefndinni en það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur alþingismenn þegar við erum að fara yfir frv. ríkisstjórnarinnar, ekki síst frv. sem eiga að hafa hagræðingu í för með sér, að við áttum okkur á hvort um sé að ræða sparnað, endurskipulagningu eða ný útgjöld. Þegar verið er að breyta úr þjónustugjöldum yfir í skatta er nauðsynlegt að vita hvað er gert ráð fyrir að sá skattur gefi mikið í ríkissjóð. Ég geng náttúrlega út frá því sem vísu --- og undirstrika það við ráðherrann og vona að hann heyri mál mitt --- að skatturinn verði ekki hærri fjárhæð en til að standa undir kostnaði, að hér sé skattlagning sem á einhverjum tíma verði þannig að við fáum inn ,,þrátt-fyrir``-ákvæði sem segja að þrátt fyrir að viðkomandi skattur eigi að renna til reksturs þessarar stofnunar þá renni svo og svo mikið fjármagn í ríkissjóð.

Það eru fyrst og fremst þær spurningar sem vakna hjá mér, virðulegi forseti.