Lyfjalög og almannatryggingar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:02:01 (5101)

2000-03-09 11:02:01# 125. lþ. 76.1 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:02]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að fara þennan gullvæga meðalveg, hvenær við göngum of langt og hvenær of skammt t.d. varðandi hómópatalyf og annað og almennt bara hvenær við tökum ný lyf inn til landsins. Við höfum oftast verið á undan Norðurlandaþjóðum með mörg lyf og nefni ég t.d. MS-lyfið, við vorum langt á undan þeim, ýmis krabbameinslyf, lyf varðandi HIV-veiruna sem við höfum verið á undan með. En mér finnst mjög mikilvægt að við fylgjum Norðurandaþjóðunum eftir og séum samstiga þeim. Það var þess vegna sem ég kom með tillögu á síðasta fundi norrænna ráðherra heilbrigðismála um að skipa nefnd, sem þegar hefur verið skipuð og hefur nokkrum sinnum komið saman um að það væri samræmt hvenær við gæfum markaðsleyfi á ný lyf og að Norðurlandaþjóðirnar yrðu þá samstiga.

Hérna er t.d. minnst á eitt lyf sem við höfum opnað glufu fyrir en ekki kannski jafnmikið og önnur Norðurlandaþjóð, en um er að ræða gigtarlyf. Þetta lyf hefur afskaplega margar aukaverkanir og þess vegna höfum við farið okkur hægt því að við höfum fengið vissar aðvaranir. En þetta lyf er í þróun og ég býst við því að glufan opnist eftir því sem lyfið þróast.

Við höfum líka oft verið dálítið íhaldssöm varðandi náttúrulyf svokölluð, en af því að hér var sérstaklega rætt um seyði af lúpínu, ég held að hún hafi meint það, þá er það einn af jákvæðu þáttunum. Það er afskaplega jákvætt að einn aðili skuli hafa þróað þetta á þann hátt sem hann hefur gert og gert mörgum afskaplega mikinn greiða með.