Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:26:44 (5107)

2000-03-09 11:26:44# 125. lþ. 76.2 fundur 398. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Í þessu frv. sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir flytur hér ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, er verið að leggja til að útvíkka réttindi til umönnunargreiðslna til framfærenda barna sem eiga við sjúkdóma að stríða, þannig að foreldrar barna sem eiga við alvarlegan fíkniefnavanda að stríða eigi einnig rétt á slíkum greiðslum úr almannatryggingunum. Þetta er auðvitað útfærsluatriði sem ætti fyrir löngu að vera komið til framkvæmda því að við vitum að börn sem eru alvarlegir fíkniefnaneytendur eru sjúk börn, sérstaklega haldin alvarlegri fíkn. Við vitum hvernig slíkt ástand getur haft áhrif á fjölskyldur, á foreldra, fjölskyldan verður einnig veik og það er geysilegt álag sem fylgir þessum börnum.

Það er líka rétt eins og kom fram í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur að langvarandi fíkniefnaneysla leiðir oft til alvarlegra geðsjúkdóma hjá neytendum og hjá börnunum. Sömuleiðis er það staðreynd að börn með geðræn vandamál leiðast t.d. frekar út í fíkniefnaneyslu þannig að oft er mjög erfitt að greina á milli hvenær barnið er geðsjúkt og hvenær það er fíkniefnaneytandi. Þetta fer mjög oft saman.

Það að leggja til að fjölga meðferðarúrræðum á kostnað umönnunargreiðslna finnst mér ekki koma til greina. Það verður að líta á þetta í sitt hvoru lagi. Foreldrar sem búa við þá ógæfu að eiga barn sem er í alvarlegum fíkniefnavanda eru ekki síður illa staddir en foreldrar sem eiga alvarlega sjúkt barn að öðru leyti, foreldrar sem eiga alvarlega krabbameinssjúkt barn eða hjartasjúkt barn. Kannski ríkja frekar fordómar í garð þeirra fjölskyldna þar sem barn á við fíkniefnavanda að stríða en hinna alvarlega sjúku. Þar ríkja viðbótarerfiðleikar.

Mig langar líka til að minna á það að eftir að umönnunargreiðslur komu inn í almannatryggingarnar hafa reglurnar um þær verið að breytast. Upprunalega voru þetta aðallega greiðslur sem voru til foreldra fatlaðra barna. Síðan koma alvarlega veiku börnin inn og foreldrar þeirra og sömuleiðis að foreldrar eigi rétt á þessum greiðslum meðan börnin eru inni á sjúkrahúsum því að auðvitað eru foreldrar frá vinnu og þurfa jafnvel að hætta vinnu til þess að geta sinnt þessum börnum. Þetta hefur einnig áhrif á fjölskyldulíf. Við þekkjum að í mörgum tilfellum brýtur það upp fjölskyldur að eiga við vanda sem þennan, leiðir af sér hjónaskilnaði og annað böl. Það er alveg ljóst að þessar fjölskyldur þurfa fjárhagslegan stuðning. Og það eru auðvitað umönnunargreiðslur almannatrygginganna sem ættu að koma inn til þessara foreldra ekki síður en annarra foreldra sem eiga veik börn. Ég get ekki tekið undir það að börn í alvarlegum fíkniefnavanda séu ekki veik, þau eru alvarlega veik, alvarlega sjúk.

Herra forseti. Ég tel fyrir löngu tímabært að þessi breyting verði gerð og það fólk sem stendur frammi fyrir þessum alvarlega vanda fái þennan rétt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún telji ekki að það sé orðið tímabært að útvíkka heimildirnar til umönnunargreiðslnanna hjá almannatryggingunum í þá veru sem lagt er til í þessu frv., hvort þessir foreldrar þurfi ekki eins á þessum stuðningi að halda og foreldrar barna með hina ýmsu sjúkdóma og fötlun?