Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:32:07 (5108)

2000-03-09 11:32:07# 125. lþ. 76.2 fundur 398. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:32]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem er allrar athygli vert og nauðsynlegt að gaumgæfa. Það varpar ljósi á þá miklu erfiðleika sem foreldrar áfengissjúkra barna og þeirra sem eiga við fíkniefnavandamál að stríða geta búið við. Það er ljóst að foreldrar sem horfa upp á börn sín ánetjast áfengi og eiturlyfjum búa við mjög erfiðan kost. Þeir þurfa jafnvel að víkja frá vinnu um stund til að vera yfir börnum sínum, koma þeim í meðferð eða til annarrar umönnunar.

Þegar slík mál koma upp vaknar spurningin: Hvers vegna kemur svona tillaga fram? Hún virðist eiga rætur í því að meðferðarúrræði og aðstæður til að koma þessum börnum til lækninga og hjálpar eru ekki nægjanlega góð. Þá vaknar einnig spurningin: Hvers vegna ánetjast svo mörg börn í þessu landi áfengi og eiturlyfjum? Eru mörg þessara barna á þessum vegi vegna þess að þau hafa ekki, af einhverjum sökum, fengið þjónustu sem þau þurftu að fá fyrr í æsku? Hver hefur verið þjónusta við geðveik börn á Íslandi undanfarin ár og áratugi og hvaða sjónarmið hafa ríkt í garð geðveikra barna almennt? Við vitum að þau hafa ekki verið hin sömu og barna sem þjást af öðrum sjúkdómum sem eru sýnilegri og hafa líkamlegri einkenni en geðveiki barna.

Ég held að inn í þessa umræðu hljóti að fléttast spurningin, þegar við veltum fyrir okkur hversu mörg börn hafa ánetjast vímuefnum: Af hverju leita þau í vímu? Er það vegna þess að þeim líður svo illa inn í sér? Er það vegna þess að þau eiga við geðræn vandamál að stríða og finna fróun í lyfinu sem þau taka, í eiturlyfjum eða víni? Þurfum við ekki að rannsaka þetta? Þurfum við ekki að athuga betur á meðferðarstofnunum hve margir unglingar og ungmenni sem koma til meðferðar eiga við geðræn vandamál að stríða? Hver er staðan í dag hjá geðveikum börnum og hvað má áætla að mörg þeirra leiðist út í eiturlyf og áfengissýki bara vegna veikinda sinna, ekki vegna þess að foreldarnir búi sjálf við þetta böl og börnin búi við slæmar fjölskylduaðstæður, heldur vegna þess að sjúkdómurinn er fyrir hendi? Ég held að við þurfum að beina sjónum okkar að þessu og velta fyrir okkur hvort ekki þurfi, um leið og við erum að reisa meðferðarhæli fyrir börn sem eru orðin áfengissjúklingar og eiturlyfjasjúklingar, að beina meira fjármagni í rannsóknir til barna sem eiga við geðræn vandamál að stríða.

Það er viðurkennt af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að alkóhólismi er sjúkdómur. Út frá þeirri einföldu skilgreiningu er mjög rökrétt að slík tillaga komi fram, að foreldrar barna sem búa við þennan sjúkdóm --- því þeir einstaklingar sem eru undir 18 ára aldri eru skilgreindir sem börn --- geti með einhverju móti leitað sér stuðnings og hjálpar í kerfinu. Það er eru mikil fjárútlát og ýmis kostnaður sem fylgir því að vera foreldri barns sem býr við þessa þjáningu. Þetta langar mig til að komi fram í umræðunni. Það er í raun og veru dapurlegt að svona tillaga þurfi að koma fram. Hún felur í sér viðurkenningu á mjög slæmu ástandi og alvarlegu sem menn ræða talsvert um. Framsfl. hefur talað um að setja nokkrar milljónir í þessi mál eða milljarða, ég man ekki hvort, það var mill-eitthvað.

Þess vegna eiga menn að gefa gaum að þessu. Ég hvet stjórnarherrana til þess að athuga hvort eitthvað af þeim fjármunum sem renna í þetta málefni geti ekki beinst að þessum hópi. En ég vil undirstrika að það er nauðsynlegt að við veltum því fyrir okkur, þegar við sjáum unglinga og jafnvel börn sem eru greinilega orðin mjög háð áfengi og öðrum eiturlyfjum því að áfengi eða alkóhól er ekkert hættuminna en ýmis önnur efni sem eru á markaðnum. Ég vil beina þeim orðum mínum sérstaklega til þeirra sem aðhyllast þá skoðun að þessar veigar eigi að selja í formi bjórs og léttra vína í verslunum. Það er annað mál en þó af sama meiði. Það er nauðsynlegt er fyrir okkur að huga að því hve mikil áhættan er fyrir einstakling sem á við geðræn vandamál að stríða hvað þetta varðar.

Nú er lag fyrir Framsfl. sem hefur lagt áherslu á þetta mál í kosningabaráttu sinni að setja fjármagn í það sem mundi vera samstarf á milli meðferðarstofnana, t.d. SÁÁ sem vinnur mjög gott starf hérna, og geðdeildanna í heilbrigðiskerfinu. Þannig mætti athuga hvort við getum ekki farið að vinna að því að styðja betur við börn sem eiga við geðræn vandamál að stríða svo þau fái betri lækningu en þá sem þau reyna að veita sér sjálf í eiturlyfjum og áfengi.