Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:40:36 (5109)

2000-03-09 11:40:36# 125. lþ. 76.2 fundur 398. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:40]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir skelegga og góða ræðu. Hann vék örlítið að kosningaloforðum okkar framsóknarmanna og minntist á mill-eitthvað. Ég ætla að vekja athygli hv. þm. á því að það er hárrétt að við lögðum fram mjög einarða stefnu í forvörnum. Ef það hefur farið fram hjá hv. þm., sem er svo sem ekkert óeðlilegt þar sem hann situr sem varamaður á þingi, þá höfum við það sem af er þessu kjörtímabili, á um það bil einu ári, varið um 430--450 millj. kr. til forvarnastarfs. Í kosningabaráttu okkur töluðum við um að við ætluðum að verja í forvarnir um 1 milljarði á þessu kjörtímabili. Nú þegar höfum við varið um 430 millj. Þannig að þetta mill-eitthvað eru miklir peningar og skipta auðvitað miklu máli.

Ég er sammála hv. þm. í þeim efnum að SÁÁ hafi staðið sig með miklum ágætum og bjargað mörgum manninum og mörgum unglingnum úr neti vímuefnaneyslu. En bara til þess að upplýsa hv. þm. um þetta, þannig að við tölum ekki í einhverjum hálfkæringi um mill-eitthvað, þá er hér um að ræða 430 millj. á þessu eina ári sem liðið er frá síðustu kosningum. Við stöndum við þetta kosningaloforð eins og mörg, mörg önnur sem við höfum lagt fram. (ÁRJ: Hver er afstaða þingmannsins til frv.?)