Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:42:37 (5110)

2000-03-09 11:42:37# 125. lþ. 76.2 fundur 398. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:42]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Það er gleðilegt að heyra þessi tíðindi en það væri ágætt ef þetta yrði gert opinbert og nánar skilgreint. Það er ákaflega auðvelt að slá því fram að maður hafi bara sett 430 millj. í þetta og hitt. En er þetta þá viðbót við það sem fyrir var? Er þetta aukning og í hverju felst það að setja 430 millj. í forvarnir eða er þetta kannski það sem kalla má eðlilega þróun og ekki neitt sem maður getur hreykt sér af? Það er hægt að leika sér á allan máta með tölur. Segjum t.d. að það verði fólksfjölgun í landinu, þá hljótum við að fjölga skólastofum. Þá getur enginn staðið upp, barið sér á brjóst og sagt: Hér erum við búin að auka framlög til menntamála um gífurlegar fjárhæðir vegna þess að við lofuðum því. Það væri eitt af því sem er nauðsynlegt, sjálfsagt og eðlilegt. Við þurfum að heyra betur skilgreiningar á því þegar menn standa hér upp og guma af því að hafa staðið við einhver loforð, að þeir leggi þá skýrt og greinilega fram um hvað er að ræða. Eru framlögin eitthvað umfram það sem má telja mjög heilbrigða og eðlilega þróun?