Almannatryggingar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 12:03:14 (5116)

2000-03-09 12:03:14# 125. lþ. 76.3 fundur 408. mál: #A almannatryggingar# (sálfræðiþjónusta) frv., Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[12:03]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, með síðari breytingum. Ásamt mér standa að frv. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Sigríður Jóhannesdóttir, þingmenn Samfylkingarinnar. Við leggjum til í 1. gr. frv. eftirfarandi breytingu á 1. mgr. 36. gr. laganna:

,,Á eftir g-lið 1. mgr. 36. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi: Sérfræðiþjónustu við börn og unglinga á sviði sálfræði og félagsráðgjafar skv. 37. gr. a.``

Í 2. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Á eftir 37. gr. laganna kemur ný grein, 37. gr. a, svohljóðandi:

Fyrir sérfræðiþjónustu við börn og unglinga, 18 ára og yngri, á sviði sálfræði og félagsráðgjafar sem veitt er utan sjúkrastofnana og skólakerfis greiða sjúkratryggingar samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs. Gjaldskráin gildir bæði um sérfræðiþjónustu sem veitt er af hinu opinbera og öðrum. Í stað gjaldskrár ráðherra er Tryggingastofnun þó heimilt að semja um gjaldskrá er gildi fyrir þjónustuna.

Sérfræðiþjónusta barna og unglinga utan sjúkrastofnana og skólakerfis á sviði sálfræði og félagsráðgjafar er því aðeins greidd að fyrir liggi sérstök umsókn frá heilsugæslulækni eða sérfræðingi á sviði sálfræði eða félagsráðgjafar sem starfar innan skólakerfisins.

Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd sérfræðiþjónustunnar, meðal annars mæla fyrir um hverjir eigi rétt á henni og hverjir veiti hana.

Reikningi fyrir sérfræðiþjónustu skal framvísað á reikningsformi sem Tryggingastofnun ákveður.``

Í 3. gr. segir: ,,Lög þessi taka þegar gildi.``

Frv. sama efnis var lagt fram á 121. löggjafarþingi en fékkst ekki afgreitt frá heilbrigðis- og trygginganefnd. Nefndinni barst fjöldi umsagna og var frv. lagt fram á 122. löggjafarþingi með nokkrum breytingum sem gerðar voru með hliðsjón af ábendingum sem þar komu fram. Það er nú lagt fram á ný, nær óbreytt.

Með frv. er lögð til sú breyting á löggjöf um almannatryggingar að sérfræðiþjónusta fyrir börn og ungmenni utan sjúkrastofnana og skólakerfisins á sviði sálfræði og félagsráðgjafar verði að hluta greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Gert skal ráð fyrir því að þiggjendur þjónustunnar greiði fyrir ákveðinn hluta hennar, t.d. fasta upphæð fyrir hvert viðtal. Hér er einungis átt við viðurkennda sérfræðiþjónustu. Gert er ráð fyrir að einungis verði greitt fyrir þjónustu réttindafólks á sviði félagsráðgjafar og sálfræði, sbr. lög nr. 40/1976 og lög nr. 95/1990. Einnig verður að gera þá kröfu að einungis verði greitt fyrir þjónustu þeirra sem hafa ákveðna lágmarksreynslu á þessu sviði og má þá m.a. horfa til reglna um veitingu sérfræðileyfa í sálfræði og setja skilyrði um framhaldsmenntun.

Vaxandi þörf er fyrir slíka sérfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni. Hún er og á að vera fastur liður í starfsemi skólanna. Börn og ungmenni, sem dvelja á sjúkrastofnunum, geta átt kost á sérfræðiþjónustu án þess að þurfa að greiða fyrir hana. Hins vegar skortir mikið á að nægjanlegur fjöldi sérfræðinga á sviði sálfræði- og félagsráðgjafar starfi á heilbrigðisstofnunum svo hægt sé að sinna þessari þjónustu eins og þyrfti. Við breytingu á grunnskólalögum varð breyting á þessari sérfræðiþjónustu innan skólanna. Hlutverk sérfræðinga á sviði sálfræði og félagsráðgjafar við skóla er nú að mestu leyti greiningarstarf en börnum er síðan í mörgum tilvikum vísað annað til meðferðar. Því er staðreynd að fjöldi barna og ungmenna þarf á þessari sérfræðiþjónustu að halda utan skóla og sjúkrastofnana. Komið hafa fram ábendingar frá skólaskrifstofum víða um land um að við breytingu sem gerð var á grunnskólalögunum sé ekki lengur gert ráð fyrir að veita meðferðarþjónustu innan skólakerfisins á sama hátt og áður var. Með þessu er verið að færa hana í auknum mæli út fyrir skólakerfið og kostnaðinn yfir á foreldra. Þá er einnig ljóst að á landsbyggðinni er þjónusta sálfræðinga og félagsráðgjafa ekki til staðar utan skólakerfisins eða sjúkrastofnana nema í undantekningartilvikum. Kostnaðurinn sem leggst á fjölskyldu getur því verið mjög mikill þegar við bætist ferðakostnaður. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að börnum sem lengi hafa átt við erfiða líkamlega sjúkdóma að stríða standi til boða sérfræðiþjónusta sem greidd verði að fullu eða að hluta úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Félagið hefur einnig bent á að ekki aðeins barnið eða unglingurinn sem hefur átt við alvarleg veikindi að stríða þurfi á sérfræðiþjónustu að halda heldur einnig og ekki síður fjölskylda barnsins. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna réð sálfræðing til þess að sinna þessari þjónustu og margar fjölskyldur krabbameinsveikra barna nýta sér hana. Félagið reyndi þannig að bregðast við vanda þessara fjölskyldna. Til lengri tíma litið getur félagið þó ekki staðið alfarið undir þjónustunni, enda verður ekki séð að þjóðfélagið geti velt þessu verkefni yfir á félagasamtök.

Börn og ungmenni, sem hafa mátt þola hvers konar ofbeldi, þurfa oft um langan tíma á þjónustu sérfræðinga að halda, sem og þau börn og ungmenni sem hafa leiðst út í neyslu fíkniefna. Fleiri ástæður mætti að sjálfsögðu nefna, þörfin fyrir sérfræðiþjónustu við börn og ungmenni eykst stöðugt.

Í reglugerð skv. 3. mgr. 2. gr. frv. skal eins og unnt er skilgreina þá sem rétt eiga á þessari þjónustu. Einnig skal í reglugerðinni kveða á um hvernig staðið verði að umsóknum um hana. Þjónusta sálfræðinga og/eða félagsráðgjafa utan skóla eða heilbrigðisstofnana skal aðeins greidd af Tryggingastofnun ríkisins ef sjúklingur framvísar sérstakri umsókn heilsugæslulæknis eða sérfræðings á sviði sálfræði eða félagsráðgjafar sem starfar innan skólakerfisins.

Sveitarfélög hafa í ákveðnum tilvikum tekið þátt í kostnaði við sérfræðiþjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa fyrir börn og ungmenni en fá sveitarfélög veita fullkomna þjónustu að þessu leyti. Mjög margar fjölskyldur búa við svo bágan efnahag að þær geta ekki mætt kostnaðinum sem fylgir því að fjölskyldumeðlimur þurfi í lengri eða skemmri tíma að ganga til sálfræðings eða félagsráðgjafa. Við slíkt verður ekki unað, sérstaklega ekki þegar um er að ræða börn eða ungmenni, og því er þetta frv. flutt, virðulegi forseti, í þriðja eða fjórða sinn.

Virðulegi forseti. Þegar þetta frv. var sent út til umsagnar frá heilbr.- og trn., sem sá ekki ástæðu til þess að ljúka afgreiðslu þess á sínum tíma, kom fjöldi umsagna. Umsagnirnar voru allar jákvæðar. Það var nánast sama hvaðan þær komu. Allir mæltu með því að frv. yrði samþykkt ýmist óbreytt eða með smávægilegum breytingum og þá var fyrst og fremst um það að ræða sem lagt er til hér að menn væru ekki alfarið háðir mati heilsugæslulæknis eða starfandi sálfræðings eða félagsráðgjafa innan skólakerfis heldur mættu sérmenntaðir kennarar einnig, ef þeir meta það svo, senda inn umsókn um aðstoð fyrir börn sem þurfa á sálfræði eða félagsráðgjöf að halda.

Umsagnir bárust m.a. frá skólaskrifstofu Húnvetninga og Þroskahjálp, sem veitt hefur jákvæða umsögn um þetta frv. í hvert sinn sem það hefur verið lagt fram. Umsagnir bárust og frá skólaþjónustu Eyþings, Landspítalanum og landlæknisembættinu. Ég tek það fram að í umsögn Landspítalans er minnt á að setja þurfi mjög strangar faglegar reglur um hverjir megi senda inn þessar umsóknir fyrir einstaklingana. Ég tel sjálfsagt að verða við því.

Umsögn landlæknisembættisins er einföld. Þar segir:

,,Umsögn landlæknis um frv. til laga um almannatryggingar 128. mál, --- það var þegar þetta var lagt fram síðast --- ,,sálfræðiþjónusta. Landlæknir styður þetta frv.``

Síðan er álit foreldrasamtakanna Vímulaus æska jákvætt. Selfosskaupstaður. Félagsmálastofnun Selfosskaupstaðar einnig. Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar leggur m.a. til að þeir sérfræðingar sem sent geti umsókn séu viðurkenndir skólasérfræðingar og sérmenntaðir kennarar. Einnig sendu inn umsagnir Öryrkjabandalagið, Akureyrarbær, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Sálfræðifélag Íslands, Sólveig Ásgrímsdóttir, Kópavogsbær og Umhyggja. Bréfið frá Umhyggju er undirritað af a.m.k. fyrrv. starfsmanni heilbrrn., Dögg Pálsdóttur. Hún vísar til bréfs nefndarinnar, dags. 10. mars 1998, þar sem óskað er umsagnar Umhyggju um frv. til laga um almannatryggingar, 228. mál og þess óskað að umsögnin berist nefndasviði Alþingis. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Umhyggja getur í stuttu máli sagt að félagið styður heils hugar það frv. sem hér er lagt fram og telur að í því felist mikilvæg réttarbót fyrir langveik börn og foreldra þeirra. Umhyggja mælir því eindegið með að frv. verði samþykkt.``

Í flestum tilvikum er um að ræða umsagnir frá skólaskrifstofum og félagasamtökum en einnig frá nokkrum sveitarfélögum þar sem allir mæla með því að frv. verði samþykkt.

Ég hef því miður ekki möguleika á að meta nákvæmlega, þó ég hafi leitað eftir því, hvað þetta mundi kosta. Sé hins vegar skoðað hvaða kostnað þetta hefur haft í för með sér í Noregi, Danmörku eða Svíþjóð, þar sem tekið er þátt í kostnaðinum að hluta þá væri hægt að nefna þær tölur sem ég hef heyrt. Þær eru á bilinu 40--50 millj. á meðan slíkt tilraunaverkefni væri rekið. Ætla mætti að kostnaðurinn gæti verið á bilinu 40--50 millj. en þó væri auðvitað hægt að setja þarna ákveðin mörk. Raunar væri hæstv. ráðherra í sjálfsvald sett hvaða skref yrði stigið í að taka þátt í þessum kostnaði.

Æ fleiri börn þurfa því miður á þessari þjónustu að halda vegna aukinnar eiturlyfjaneyslu, langvinnra líkamlegra veikinda. Hið sama á við um börn sem orðið hafa fyrir einelti og ofbeldi hvers konar, ekki hvað síst kynferðislegu ofbeldi. Öllum er kunnugt um að barn sem þjáist af alvarlegum sjúkdómi, hvort sem er vegna eiturlyfjaneyslu, líkamlegra eða andlegra sjúkdóma, fötlunar, þarf á þessari þjónustu að halda. Áður fyrr var hægt að treysta nokkuð á að hún væri veitt innan grunnskólanna vegna þess að reglugerðin og lögin um grunnskólann fólu það í sér. En eins og fram kemur í greinargerðinni var lögum um grunnskólann breytt á þann hátt að þar er fyrst og fremst um greiningarstarf að ræða hjá sálfræðingum og félagsráðgjöfum sem eru starfandi innan skólakerfisins. Börnum er vísað annað í meðferð.

[12:15]

Örfá sveitarfélög hafa tekið það upp hjá sér að veita þessa þjónustu. Bæjarfélagið á Sauðárkróki hafði starfandi á sínum vegum bæði sálfræðing og félagsráðgjafa sem veittu þjónustu án þess að börn eða foreldrar þyrftu að greiða fyrir. Mér finnst það til fyrirmyndar. Nokkur sveitarfélög hafa tekið þá stefnu að greiða fyrir u.þ.b. tíu tíma þjónustu, en það er hins vegar kunnugt og kunnara en frá þurfi að segja, að þau börn sem ýmist þurfa á þessari aðstoð að halda vegna mikilla veikinda eða hafa orðið fyrir ofbeldi eða einelti þurfa miklu meira en tíu tíma. Sálfræðingur hefur sagt mér frá því að barn sem verður t.d. fyrir kynferðislegu ofbeldi geti þurft allt upp í tveggja ára meðferð hjá sálfræðingi eða sérfræðingi á því sviði, og eins börn sem hafa orðið fyrir alvarlegu einelti eða annars konar ofbeldi í skólum eða á heimilum. Síðan er náttúrlega eins og við þekkjum að börn sem koma frá brotnum heimilum þar sem foreldrar eða aðstandendur eru ekki færir um að sýna þá umhyggju og hlýju sem til þarf eða skilyrði til þess uppeldis sem við vildum gjarnan sjá, þurfa á þessari þjónustu sérfræðinga að halda. Það er löngu tímabært að viðurkenna sérhæfða þjónustu á sviði félagsráðgjafar og sálfræði, að meðtaka hana og viðurkenna sem hluta af heilbrigðiskerfi okkar. Ég tel að það sé framtíðarmarkmið að Tryggingastofnun taki að hluta til þátt í greiðslu til allra þeirra sem þurfa á slíkri þjónustu að halda, en þarna sé stigið fyrsta skrefið, þ.e. að miðað sé við börn undir 18 ára aldri og aldursmarkið sett í samræmi við sjálfræðislögin.

Ég tel, virðulegi forseti, að það sé ekki ástæða til að fara yfir þetta í löngu máli. Ég hef áður mælt fyrir frv. sama efnis. Farið var ítarlega yfir það á sínum tíma í heilbr.- og trn. en styr stóð um það hvort nefndin treysti sér til að afgreiða málið eftir að umsagnirnar komu, sem allar voru jákvæðar, og flm. þá, sem var ég, var tilbúin til þess að breyta frv. í þá veru sem gert var ráð fyrir í tillögum sem bárust t.d. frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og reyndar frá Landspítalanum en ekki var vilji fyrir því innan hv. heilbr.- og trn. eða meiri hlutans að afgreiða málið. En ég vona að vilji verði fyrir því nú, ekki þarf að senda málið út. Það ætti því ekki að taka langan tíma að kalla inn umsagnir þar sem allir þeir aðilar sem ég hef hér talið upp þekkja málið. Það hefur komið óbreytt a.m.k. tvisvar, þrisvar til umsagnar og alltaf fengið sömu umsagnir frá sömu aðilum og þess vegna tel ég ekkert því til fyrirstöðu að hv. heilbr.- og trn. sem fær þetta mál til umfjöllunar afgreiði málið og vilji þingsins verði ljós.