Almannatryggingar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 12:18:47 (5117)

2000-03-09 12:18:47# 125. lþ. 76.3 fundur 408. mál: #A almannatryggingar# (sálfræðiþjónusta) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[12:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur hefur þetta frv. komið nokkrum sinnum inn í þingið og verið afgreitt til heilbr.- og trn. en ekki komist út úr nefndinni aftur. Þetta mál er mjög brýnt og nú síðast fyrir tíu dögum eða svo var lögð mikil áhersla á það á ráðstefnu sem Umhyggja, félag til stuðnings langveikum börnum, hélt. Var þar mikið rætt um hve mikilvægt það væri að almannatryggingarnar tækju þátt í sálfræðiþjónustu við börn og unglinga. Bent var á, eins og margoft hefur verið bent á þegar þessi mál hafa verið til umræðu, hvað þessi þjónusta er brýn og hvað þetta er tilfinnanlegur kostnaður fyrir foreldra að þurfa að senda börn sín í sálfræðiþjónustu. Sérstaklega var rætt á ráðstefnunni um börn sem hafa átt lengi við veikindi að stríða, jafnvel dvalið langdvölum á sjúkrahúsum, að þau þyrftu sálfræðiþjónustu og jafnvel einnig systkini þessara barna. Ég vil líka geta þess að í þau skipti sem þetta mál hefur verið til umræðu í heilbr.- og trn. á síðasta kjörtímabili hef ég lagt mjög ríka áherslu á að þessi lagabreyting verði gerð og frv. samþykkt.

Eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði í ræðu sinni hafa komið umsagnir og þær hafa allar verið jákvæðar. Á síðasta kjörtímabili var allnokkur vilji í nefndinni til þess að afgreiða þetta mál. Nefndin fékk marga gesti á sinn fund til að fjalla um það og lögðu þeir sérstaka áherslu á að þátttaka í greiðslu fyrir slíka sérfræðiþjónustu kæmist inn í almannatryggingarnar. Það kom einnig fram að á síðasta kjörtímabili minnkaði sálfræðiþjónusta við börn vegna þess að skólasálfræðingarnir sinna nú aðeins greiningu en ekki meðferð eins og áður var. Börn hafa því í rauninni fengið minni þjónustu, þ.e. frá hinu opinbera að þessu leyti. Mjög margir foreldrar hafa ekki efni á að senda börn sín til sálfræðings þó að mikil þörf sé á því. Ef börn fá ekki þessa sálfræðiþjónustu og ef foreldrarnir geta ekki af fjárhagsástæðum veitt þeim hana verða mörg þessara barna mjög þungur baggi á samfélaginu síðar, því miður. Þau lenda inn á sjúkrahúsum, stofnunum, koma inn í kerfið annars staðar sem miklu dýrari sjúklingar jafnvel. Þetta er því mjög mikilvægt forvarnastarf sem þarna er verið að leggja til að verði unnið að og almannatryggingarnar styðji.

Ég vil bara leggja áherslu á að farið verði út í að sinna þessum þætti, að almannatryggingarnar styðji þetta og vonast til þess að stjórnvöld og heilbrrh. sýni þessu máli skilning. Það er ljóst, eins og fjárveitingarnar til heilbrigðiskerfisins sýna, að aukningin er mikil frá ári til árs og þarna getum við, með því að sinna þessu forvarnastarfi, komið í veg fyrir að þessi börn komi inn í kerfið sem mun dýrari viðfangsefni eða sjúklingar.