Almannatryggingar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 12:24:49 (5118)

2000-03-09 12:24:49# 125. lþ. 76.3 fundur 408. mál: #A almannatryggingar# (sálfræðiþjónusta) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[12:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er afskaplega gott og brýnt mál sem talsmaður Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir er 1. flm. að og hefur haft framsögu fyrir hér í dag. Það er umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn að mál af þessum toga skuli ekki ná fram að ganga því að þetta er ekki í fyrsta sinn sem málið er flutt. Það er mjög mikilvægt að heilbr.- og trn. taki frv. til skoðunar og afgreiðslu. Það er fullkomlega óviðunandi að það sé miklu fremur lögmál og annað sé undantekning ef gott þingmannamál fær náð fyrir augum meiri hluta viðkomandi nefndar eða meiri hlutans á Alþingi og nær fram að ganga. En það eru nákvæmlega þessi mál, þessi litlu en í raun stóru, þýðingarmiklu mál fjölskyldunnar sem sitja eftir í úrbótum. Auðvitað kostar þetta eitthvað, en stóra hættan er sú að einmitt af því að dýrt er að fara til sérfræðinga á stofur, þá fari fólk ekki og leiti sér ekki þeirrar aðstoðar sem börn og unglingar sárlega þurfa á að halda. Það er hættan sem felst í því að vera með dýra sérfræðiþjónustu á stofu úti í bæ, að öryggisnet okkar nái ekki til þeirra þátta. Á hátíðarstundum halda forustumenn í stjórnmálum hugnæmar ræður um hvernig þurfi að byggja á börnunum og unglingunum sem eiga að erfa landið og ekkert skuli til sparað að hlúa að þeim og gefa þeim þau tækifæri sem gera þau að dugmiklum þegnum og öflugum einstaklingum sem í fyllingu tímans munu verða nýtir þjóðfélagsþegnar og ganga til verka fyrir þjóð sína. Hætta er á að barn sem byrjar að lenda í erfiðleikum innan 18 ára aldurs og þarf á þjónustu að halda, eins og hér er mælt fyrir um, en fær hana ekki verði ekki sá öflugi þjóðfélagsþegn sem við viljum að við sköpum möguleika fyrir með þjónustu við börn og unglinga í okkar landi.

Í nokkrum tilfellum lendir fólk í meðferð með börn sín inn á sjúkrastofnunum og e.t.v. er byrjað á því að sinna þessum þætti þar. Síðan er sagt að barnið þurfi að fara út af sjúkrastofnun og halda eigi meðferð áfram á stofu úti í bæ. Fyrir nokkrum mánuðum var komið að máli við mig út af nákvæmlega þessu dæmi. Barn átti í miklum erfiðleikum og lenti inni á spítala og það var byrjað á einhverju sem foreldrarnir töldu nauðsynlega meðferð. Síðan var sagt að foreldrarnir ættu að fara heim með barnið og koma með það til sérfræðingsins á stofu úti í bæ. Í barnaskap sínum héldu þau að þetta væri bara hluti af þeirri þjónustu sem þau væru að fá við það að barnið lenti inni á sjúkrahúsi og rak í rogastans þegar þau áttuðu sig á því að hver tími sérfræðiþjónustunnar átti að kosta einhverja þúsundkalla. Fólk á ekki von á þessu, sérstaklega ekki ef um er að ræða að meðferð hafi hafist á heilbrigðisstofnun eða að sérfræðingur hafi komið að máli barns á stofnuninni, en síðan er sagt að meðferðin haldi áfram annars staðar. Eðlilega heldur fólk að þá sé það komið í umsjá heilbrigðiskerfisins, sem fólk treystir að sé að koma til hjálpar, en ekki að lenda í miklum útgjaldaþætti eins og þessi þjónusta er. Ef hjálpa á barni sem þarf sérfræðiþjónustu á þessu sviði, þá býst ég við að ekki dugi minna en fimm til tíu tímar og það er fljótt að koma þegar sérfræðitíminn kostar kannski 4 þús. kr. Þegar erfiðleikar eru hjá foreldrum barna þar sem ekki er allt í lagi hjá verður svo mikið að hjá fjölskyldunni þegar ofan á bætast miklir útgjaldaliðir eins og hér er rætt um. Þetta verður fjölskyldunni mjög erfitt. Þess vegna hvet ég til þess að heilbr.- og trn. skoði þetta mál mjög vel þegar það kemur til kasta hennar og með jákvæðum formerkjum og að það verði afgreitt að þessu sinni úr nefnd á þessu vori. Til þess að svo megi verða geri ég mér grein fyrir að heilbrrh. þarf að vera jákvæður í málinu. Þess vegna tek ég undir ábendingar þeirra þingmanna sem hér hafa talað, hv. þm. Samfylkingarinnar, og hvet hæstv. heilbrrh. til að taka á í þessu máli.