Almannatryggingar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 12:30:52 (5119)

2000-03-09 12:30:52# 125. lþ. 76.3 fundur 408. mál: #A almannatryggingar# (sálfræðiþjónusta) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á í þessu sambandi að það eru tvö ár síðan sálfræðingar urðu heilbrigðisstétt. Það er nú ekki lengra síðan. Síðan hefur þetta mál verið í deiglunni hjá okkur. Það kom mjög vel fram í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur þegar hún mælti fyrir frv. að þetta er ekki alveg einfalt eins og stundum er sagt. Sálfræðingar hafa m.a. mismunandi klíníska menntun og þess vegna getum við ekki gefið út bara eitt stykki leyfi. Það er þetta sem við höfum verið að vinna með að undanförnu og m.a. verið að gera tilraunaverkefni. Við höfum verið í samvinnu við heilsugæsluna varðandi þessi tilraunaverkefni með sálfræðiþjónustu. Okkur er ljóst að þetta er mjög mikilvæg þjónusta sem heilbrigðisgeirinn verður að veita. En þetta svið er eins og ég sagði ekki alveg eins einfalt og ýmislegt annað sem við höfum í heilbrigðisþjónustunni, m.a. vegna þess að þessi klíníska menntun er mjög mismunandi. Af þeim sökum höfum við leitað til hinna Norðurlandaþjóðanna sem hafa líka verið að breyta sínum kerfum. Við erum að fikra okkur í áttina að því að gera samninga. Þessi verkefni okkar í heilsugæslunni hafa reynst mjög vel og ég býst við að við byggjum mjög á því til framtíðar.