Almannatryggingar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 12:32:34 (5120)

2000-03-09 12:32:34# 125. lþ. 76.3 fundur 408. mál: #A almannatryggingar# (sálfræðiþjónusta) frv., Flm. MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[12:32]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það er stutt síðan að sálfræðingar urðu hluti af heilbrigðisstéttinni. Það tók dálítinn tíma að undirbúa það og koma því í gegn. En í frv. sjálfu og grg. með því er gert ráð fyrir að þar verði settar mjög stífar reglur, a.m.k. til þess að byrja með. Reglurnar eiga að vera stífari frekar en hitt svo hægt verði að liðka til síðar meir. Samstarfið við heilsugæsluna er að mörgu leyti mjög gott en þegar fólki er vísað til sálfræðinga eða félagsráðgjafa eins og hv. þm., formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Rannveig Guðmundsdóttir, kom inn á áðan, hvort sem það er frá heilbrigðisstofnunum eða úr menntakerfinu, þá er þessi þjónusta mjög dýr. Til eru dæmi um að að hver tími kosti 3--4 þús. kr. Ofan á þetta leggst síðan ferðakostnaður þeirra sem koma utan af landi þar sem þessi þjónusta er af mjög skornum skammti. Ég held að það væri alveg þess virði að skoða hvernig hægt væri að tryggja að þjónustan yrði til staðar úti á landi. Þannig mætti draga úr ferðakostnaðinum hjá þeim sem í hlut eiga.

Ég ítreka þá ósk mína að umfjöllun um þetta gangi vel fyrir sig í nefndinni og sem allra fyrst verði hægt að móta þær reglur sem þarf svo að Tryggingastofnun taki þátt í þessum kostnaði þegar um börn og unglinga er að ræða.