Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 13:32:16 (5123)

2000-03-09 13:32:16# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Málið sem hér er til umfjöllunar á sér talsverðan aðdraganda. Verkefnið sem hér um ræðir hefur verið í gangi í fimm ár, átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur örlítið skipt sér af þessu máli. Við lögðum fram fyrirspurn til hæstv. landbrh. fyrir skemmstu um þetta verkefni sem hefur nýverið verið svarað. Það var raunar framhald af svari við fsp. frá fyrrv. hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur á Alþingi árið 1997 þar sem spurt var um fyrstu þrjú árin í starfrækslu þessa átaks. En á þskj. 679, þessa þings, er síðara svarið við fyrirspurn um þetta átak.

Nú hef ég kynnt mér umræðurnar um átakið, þ.e. þegar frv. var fylgt úr hlaði á sínum tíma árið 1995. Ég verð að segja, herra forseti, að þar virðist mér gæta ákveðins hugtakaruglings. Vera kann að fólk hafi ekki gætt að því að skilgreina nægilega vel þau hugtök sem liggja að baki þessu frv. og verkefninu öllu saman. Þá á ég fyrst og fremst við hugtökin ,,lífræn framleiðsla`` annars vegar og hins vegar ,,vistvæn framleiðsla``. Í grófum dráttum má skipta landbúnaðarframleiðslu upp í fernt: í lífræna framleiðslu eða lífrænan landbúnað, vistvæna framleiðslu eða vistvænan landbúnað, almennan landbúnað og síðan í fjórða og síðasta lagi verksmiðjuframleiðslu. Allar þessar ólíku tegundir eiga sér ákveðna skilgreiningu. Það verður að segjast að lífræna framleiðslan nýtur ótvíræðrar sérstöðu hvað þetta varðar því hún fer að alþjóðlegum eða fjölþjóðlegum stöðlum sem viðurkenndir eru í öllum okkar nágrannalöndum. Vistvæna framleiðslan lýtur hins vegar ekki alþjóðlegum eða fjölþjóðlegum stöðlum. Hún styðst einungis við heimatilbúnar reglur. Þegar við tölum um vistvæna og lífræna framleiðslu í sama orðinu eins og gert er í öllu þessu átaksverkefni, skilgreinum ekki þessi tvö hugtök og ruglum þeim saman. Gagnrýni mín á þetta átak felst að miklu leyti í því að við höfum ekki stigið þetta skref til fulls. Við höfum ekki skilið á milli þessara tveggja framleiðsluhátta sem eiga að mínu mati mjög ólíka möguleika í markaðsöflun erlendis.

Ég skil frv. sem flutt var árið 1995 út frá því að þar hafi menn fyrst og fremst rætt um þessi mál undir merkjum manneldisstefnu. Það er mjög skýrt þegar maður les greinargerðina með frv. hvert markmið flytjenda þess var á sínum tíma. Markmiðið var að skjóta styrkum stoðum undir útflutning íslenskra landbúnaðarafurða hvort sem þær væru vistvænar eða lífrænar, átakið mundi skila niðurstöðum í þeim efnum. Þetta les ég út úr grg. með frv. sem var lagt fyrir þingið 1995 og ræðum þeirra sem fylgdu því frv. eftir.

Til að forðast misskilning vil ég taka fram að ég ber afskaplega mikla virðingu fyrir íslenskum landbúnaði og íslenskri landbúnaðarframleiðslu. Ég er sannfærð um yfirburði hennar og það má alls ekki misskilja orð mín svo að ég telji vistvæna landbúnaðarframleiðslu okkar eða hina hreinu framleiðslu ekki vera af hinu góða. Framleiðslan er sannarlega frábær, hefur yfirburði gagnvart annarri framleiðslu. Á það ber ekki að kasta neinni rýrð. Ég vil að orð mín séu skoðuð í því samhengi. Ég tel hins vegar að það sem hæstv. landbrh. kallar frumkvöðlastarf Áforms -- átaksverkefnis sé ekki að skila okkur því sem til stóð. Það sem ég hefði viljað sjá í niðurstöðu þessa átaks, eftir að það var búið að standa í fimm ár, var meðvituð skilgreining og kannski tillaga, þ.e. einhvers konar stefna eða stefnumótun sem við hefðum getað farið að starfa eftir í dag. Að mínu mati hefði hún átt að beinast að lífrænni framleiðslu. Mér finnst verkefnið hafa verið ómarkvisst og alls ekki hafa staðið undir væntingum. Ég tel viðleitnina til að viðhalda sjálfu sér hafa orðið yfirsterkari upprunalegu markmiði þess.

Ég tel okkur bera skyldu til að nýta opinbera fjármuni mun markvissar en hér virðist hafa verið gert. Þegar maður skoðar verkefnalista átaksins þá virðast verkefnin satt að segja mjög handahófskennd. Verkefni og störf nefndarinnar, þ.e. stjórnarinnar sem starfað hefur að þessum málum, virðast fyrst og fremst hafa falist í úthlutun styrkja. Ég tel að stofnanir landbrn. og landbrn. sjálft ásamt fjárln. séu hæfar stofnanir til að úthluta styrkjum til markviss átaks í landbúnaðarframleiðslu, hafi jafnvel ýmislegt umfram þá stjórn sem hér hefur úthlutað styrkjum undanfarin fimm ár. Herra forseti. Ég hefði viljað sjá í niðurstöðu átaksverkefnisins á síðasta ári markvissa stefnumótun, útgáfu markvissrar stefnumótunar sem hægt hefði verið að setja í hendurnar á hæstv. landbrh. og starfsmönnum hans í ráðuneytinu. Það ágæta starfsfólk hefði þá haft í höndunum mótaða stefnu um það hvernig við komum landbúnaðarafurðum okkar best á markað í útlöndum.

Ég þekki til í útlöndum, herra forseti, og þeir markaðir sem lífræn framleiðsla okkar á kost á að komast inn á eru sælkeramarkaðir, dýrustu markaðir sem hægt er að hugsa sér fyrir okkar framleiðslu. Lífrænar vörur frá okkur eiga möguleika á góðri fótfestu á þeim mörkuðum. En það sama verður því miður ekki sagt um vistvænu framleiðsluna okkar. Hún á ekki sömu möguleika. Miðað við hlutfallið í skiptingu fjármuna í þessu verkefni síðustu fimm ár þá sýnist mér að áhersla Átaksmanna hafi verið talsvert meiri á vistvænu hliðina en þá lífrænu. Sú niðurstaða veldur mér vonbrigðum. Ég hefði haldið að þeir ágætu menn sem farið hafa ofan í saumana á þessu hefðu átt að hafa meira vægi á lífrænu framleiðslunni í ljósi þess að hún á sterkari möguleika á erlendum mörkuðum.

Herra forseti. Ég sagði áðan að mér sýndust þeir styrkir sem úthlutað hefur verið að mörgu leyti handahófskenndir. Ég ætla þar að nefna örfá atriði.

Ég vek athygli á því hvernig lögin eru orðuð og til hvers átaksverkefnið er fyrst og fremst ætlað. Í 1. gr. laganna segir, með leyfi herra forseta:

,,Efnt skal til átaksverkefnis um vöruþróun og sölu íslenskra afurða undir merkjum hollustu, hreinleika og sjálfbærrar þróunar á innlendum og erlendum mörkuðum.``

Í ljósi þessarar greinar finnst mér undarlegt að verkefnið skuli styrkja matreiðsluþætti í sjónvarpi. Ég hefði gjarnan viljað sjá nánari útlistun á þessum verkefnum sem hér er talið upp að átakið hafi styrkt. Ég nefni sömuleiðis styrk til umhverfisverkefnis Græna hersins sem mér skilst að hafi verið sveitaballaherferð Stuðmanna í kringum landið. Stærsti styrkurinn sem veittur er á síðasta ári er veittur til Stuðmanna í umhverfisverkefni Græna hersins. Ég verð að segja þetta flokkast að mínu mati undir handahófskenndar styrkveitingar sem tengjast ekki markmiði laganna.

Ég gæti gagnrýnt fleiri liði hér, herra forseti, til þess að styðja orð mín um að hér sé um handahófskennd vinnubrögð að ræða. Það er undarlegt hve miklu hefur verið eytt í að gefa út bæklinga um íslenskt dilkakjöt sem er að fara á markað í Danmörku. Tvö ár í röð eru gefnir út bæklingar fyrir danskan markað sem kostuðu tæplega eina og hálfa milljón hvort árið um sig, 1997 og 1998 ef ég man rétt. Í þeim skýrslum sem ég hef lesið þá sé ég ekki að nægar útskýringar fylgi hverju verkefni fyrir sig. Þar skortir á að mínu mati.

Herra forseti. Svo ég víki aftur að plaggi því sem ég nefndi í upphafi máls míns, þ.e. svari hæstv. landbrh. við fyrirspurnum mínum á þskj. 679, þá spurði ég þar um vinnu nefndar sem endurmeta ætti átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Í svari hæstv. ráðherra kemur fram að honum sé ekki kunnugt um að skipuð hafi verið nefnd er hafi þetta hlutverk. Nú vil ég að það komi fram hvaðan ég hef upplýsingar um viðkomandi nefnd. Það er á bls. 290 í fjárlagafrv. til fjárlaga ársins 2000. Þar segir neðst, með leyfi forseta, á þeirri síðu:

,,891 Sérstakar greiðslur í landbúnaði. Samkvæmt lögum nr. 27/1995, um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða, skal 25 millj. kr. framlag falla niður í árslok 1999. Fyrirhugað er að endurmeta verkefnið og er sérstök nefnd er að störfum sem mun leggja fram tillögu um framhald þess.``

Herra forseti. Þarna voru upplýsingar mínar um nefndina sem fjárlagafrv. segir mér að sé að störfum. Síðan kemur í ljós í svari hæstv. landbrh. að hún er ekki að störfum. Þetta er annað dæmi til marks um að átaksverkefnið hafi verið ómarkvisst og ekki nægilega vel á forræði landbrn. Ég gagnrýni að nú skuli eiga að framlengja átaksverkefnið um tvö ár. Það var reyndar framlengt um þetta ár sem nú er að líða af fjárln. í síðustu fjárlögum. Ég gagnrýni þessa framlengingu fyrst og fremst vegna þess að niðurstaða þessa átaksverkefnis er enn ekki komin í ljós. Hún er ekki komin í okkar hendur. Hún hefði átt að vera hér í höndum okkar í dag, reyndar við lok ársins 1999.

Enn erum við að tala um að framlengja handahófskenndar styrkveitingar verkefnisstjórnar Áforms -- átaksverkefnis um tvö ár. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvaða ávinning hann hafi séð af þessu verkefni og hvers vegna ekki hafi verið fylgt betur eftir þeim markmiðssetningum sem voru alveg skýrar við setningu laganna 1995. Mér finnst, hæstv. forseti, að hæstv. landbrh. hafi ekki gert fylgt því nógu vel eftir.

[13:45]

Ég vil sérstaklega tína til máli mínu til stuðnings athugasemdir frá lífrænu hreyfingunni sem kallaði sig svo sem sendi landbn. Alþingis athugasemdir árið 1995 þegar frv. var upphaflega til umfjöllunar og mig langar til að lesa úr plaggi frá lífrænu hreyfingunni sem dagsett er 17. febrúar 1995, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Lífræn framleiðsla er álitlegur kostur í nýsköpun íslensks atvinnulífs. Í ljósi vaxandi samkeppni við erlendan landbúnað mun árangur Íslendinga á erlendum mörkuðum verða því meiri sem þeir tileinka sér í ríkari mæli lífrænar framleiðsluaðferðir. Miklir hagsmunir eru í húfi að vel takist til um þróun þessa kosts. En hann er að sama skapi vandmeðfarinn, þar sem hann varðar beint ímynd Íslands sem matvælaframleiðsluríkis og ferðamannalands.

Fagna ber auknum áhuga þingmanna og stjórnvalda á hinum lífræna kosti. Stuðningur og stefnumótun hins opinbera á þessu sviði verður hins vegar að eiga sér stað í nánu og skipulegu samráði við lífræna geirann, þar sem reynslan, þekkingin og hagsmunirnir eru ótvírætt fyrir hendi.

Eðlilegt er að afgreiðslu frumvarpsins verði frestað uns niðurstöður þeirrar vinnu liggja fyrir, en hún hefur enn ekki farið fram og ekkert samráð var haft við lífrænu hreyfinguna um fyrirliggjandi frumvarp.

Ljóst er að frumvarpið er ekki hannað með hliðsjón af sérstöðu, sérkennum og hagsmunum lífrænnar framleiðslu. Við endurvinnslu frumvarpsins er nauðsynlegt að þessar meginforsendur séu lagðar til grundvallar:

full aðgreining vistvæns og lífræns á öllum stigum málsins;

fullt samráð við lífrænu hreyfinguna um það sem að henni snýr í málinu;

frumvarpið marki skýrari stefnu um áherslu á grunnstærð í lífrænni framleiðslu;

úthlutun til hins lífræna geira verði að formi og inntaki á faglegum forsendum;

frumvarpið og útfærsla þess skapi grundvöll að því að mörkuð sé skynsamleg stefna í markaðsmálum íslenskrar matvælaframleiðslu.``

Forsendurnar eru reyndar nánar raktar í þessu plaggi sem ég hef lesið úr frá lífrænu hreyfingunni til landbn. Alþingis árið 1995. Hér kemur alveg glögglega fram að viðvörunarorð framleiðenda í lífræna geiranum voru mjög sterk og þau voru mjög skýr árið 1995. Ég vil því spyrja hæstv. landbrh.: Hvers vegna hefur ekki verið farið betur ofan í það að skoða forsendur þeirra sem eru í lífrænni ræktun og hvers vegna hefur ekki meira verið gert í stuðningi við þá bændur sem hafa tekið það skref að fara út í lífræna ræktun? Því að það skref hefur verið stórt og erfitt að stíga fyrir mjög marga en í sannleika sagt er það að mínu mati það skref sem við þurfum að taka. Við þurfum að gera fleiri bændum kleift að stíga skrefið inn í lífrænu framleiðsluna og þess vegna er fram komin á Alþingi till. til þál. frá hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Þuríði Backman, Jóni Bjarnasyni og sjálfri mér þar sem við leggjum til aðlögunarstuðning við bændur sem eru í lífrænum landbúnaði eða ætla sér út í lífrænan landbúnað. Við erum að leggja það til að bændur fái stuðning sem er sambærilegur við það sem bændur á Norðurlöndunum og okkar nánustu nágrannar fá sem stíga þetta stóra og örlagaríka skref út í lífræna ræktun. Á Norðurlöndunum hefur verið tekin afgerandi afstaða í þessum efnum þar sem bændur fá virkilega öflugan stuðning vegna þess eins að talið er að þeir séu að framleiða verðmætari vöru en öðrum bændum er kleift að gera. Það er viðurkennt að markaðirnir sem um ræðir eru opnir fyrir t.d. okkar dilkakjöti og það er líka viðurkennt að íslenskir framleiðendur lífræns vottaðs dilkakjöts gátu ekki sinnt eftirspurn á síðasta ári. Þeir sendu nánast allt sitt kjöt á markað í útlöndum, nánast ekkert var eftir fyrir innanlandsmarkað þar sem þó var talsverð eftirspurn.

Enn ítreka ég spurningar mínar til hæstv. landbrh.: Hvers vegna hefur ekki verið meira gert í því að greina á milli þess sem gert er fyrir vistvæna framleiðslu og lífræna framleiðslu?

Undir lok máls míns, herra forseti, vil ég einungis ítreka það sem ég hef sagt um nauðsyn þess að tekið sé á málum af festu og stefna sköpuð, og enn ítreka ég vonbrigði mín að við skulum ekki eftir fimm ára starf verkefnisstjórnarinnar hafa í höndunum metnaðarfullt plagg sem lýsir þeirri stefnu sem átakið telur að við eigum að keyra eftir á næstu komandi árum. Því gagnrýni ég að hæstv. landbrh. skuli leggja fram frv. til framlengingar á átakinu án þess að um sé að ræða nokkuð nýtt í þeim efnum, að nokkur ný stefna skuli liggja fyrir eftir störf átaksmanna í fimm ár.