Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:11:18 (5129)

2000-03-09 14:11:18# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Mín ræða verður harla stutt. Ég hafði hugsað mér að fylgjast með þessari umræðu og taka þátt í henni en það er því miður óþolandi þegar nefndarfundir eru settir á í hádegishléi þegar fyrir fram er ljóst að slíkum fundi getur ekki lokið á 30 mínútum. Í þeim tilvikum skarast óhjákvæmilega nefndarfundur og þingfundur. Þannig var það að þessu sinni og því hef ég misst af þeirri umræðu sem farið hefur fram síðan þingfundur hófst aftur kl. 13.30.

Þegar þetta átaksverkefni fór af stað árið 1995 taldi ég það sannarlega tilraunarinnar virði. Ég taldi þess virði að gera tilraun til að ná utan um verkefni eins og það sem hér hefur verið til umfjöllunar. Þá þegar var ljóst að gífurleg eftirspurn var að verða í mörgum löndum eftir heilbrigðum matvælum, eftir lífrænt ræktaðri matvöru. Í hverju landi fyrir sig voru æ stærri hópar farnir að sækjast eftir því að fá aðgang að slíkum matvælum, jafnvel þó að þau væru dýrari. Þetta er frekar spurning um gæði en magn og bæði í Danmörku og Þýskalandi lá fyrir á þessum tíma að eftirspurn eftir lífrænt ræktuðu kjöti hafði aukist. Verð á því var í engu samhengi við annað kjöt á markaði.

Því var ekki óeðlilegt að horfa til þeirrar framtíðar að heilsusamlegt íslenskt t.d. lambakjöt gæti átt möguleika á að komast á markað í öðrum löndum. Við værum að fá a.m.k. mjög sanngjarnt verð fyrir þá vöru því að flestir sem kynnast líta á íslenska lambakjötið sem hágæðavöru sem fátt annað kjöt stenst samanburð við.

Þetta held ég að hafi verið hugsunin hjá okkur. Þó að ég nefni sérstaklega lambakjötið þá átti þetta auðvitað við margt fleira. Áherslan var lögð á að gera landið í hugum fólks og annarra þjóða land heilbrigðrar starfsemi, hreinleika, heilbrigðrar framleiðslu, þ.e. land sem gæfi af sér eftirsóknarverð matvæli. Hugmyndin var að byggja upp ímynd sem auka mundi eftirspurn eftir því sem héðan kæmi og í þeirri vinnu átti að stuðla að því að það sem fólkið fengi í hendurnar væri fyrsta flokks og í gæðaflokki. Þannig held ég að hugsunin hafi verið hjá öllum þeim sem tilbúnir voru að leggja verkefninu til ákveðinn fjölda milljóna, árlega á fimm ára tímabili.

Hér er komin fram tillaga um að þessu verkefni verði áfram veittar 25 millj. á ári næstu tvö árin. Ég sakna þess að hafa ekki náð því að hlusta á umfjöllunina um þá framlengingu.

[14:15]

Ég held að það sé ómaksins vert að gefa þessu verkefni tvö ár til en það er dálítið erfitt að átta sig á hvað hefur verið að koma út úr því. Ég hef verið svo mikill stuðningsmaður þess að ég var að vona það á sínum tíma að fimm árum síðar stæðum við samt dálítið betur en raunin er í dag og yrðum komin lengra en við erum komin í dag. Það breytir því ekki að ábyggilega er ástæða til að gefa þessu verkefni tvö ár til viðbótar þannig að e.t.v. vanti einmitt þau tvö ár sem geri gæfumuninn á því að við komumst áleiðis þangað sem ég sá fyrir mér að við værum á leiðinni til í upphafi verksins. Eins og væntanlega fleiri alþingismenn hef ég skoðað svar landbrh. við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um átaksverkefni og verkefnin sem hafa verið unnin 1997, 1998 og 1999 og þá átta ég mig á því að ég hef greinilega hugsað þetta verkefni öðruvísi en þeir sem um véluðu. Vel má vera að búið sé að ræða þennan þátt til enda og ég sé að koma aftan að umræðunni með athugasemdir mínar með því að koma inn í hana af nefndarfundi. En ég hélt að þessir peningar ættu fyrst og fremst að fara í átak í framleiðslu og markaðssetningu á vistvænum lífrænum afurðum. Mig hefði ekki órað fyrir því að það fjármagn sem ætti að fara í átak til framleiðslu og markaðssetningar vistvænna og lífrænna afurða færi í ýmsa þá aðra þætti sem ég sé koma fram í svari við þeirri fyrirspurn sem ég gat um áðan.

Það vill svo til að í morgun vorum við í umræðu um allt annað mál, lyfjamál. Við vorum að ræða nýja stofnun, Lyfjamálastofnun, og þá bar á góma íslensk lyf og náttúrulækningalyf. Þá vorum við þingmenn að fagna því að Háskóli Íslands væri búinn að fara út í rannsóknir á lúpínu til lækninga. Það er dálítið sérkennilegt að sjá að þær rannsóknir, sem mér finnast gífurlega þýðingarmiklar og styð að fái framlag, og ættu að fá miklu meira en 400 þús. í eitthvað eitt skipti og 1.250 í eitthvað annað og 400 í enn annað eða 400 og 400, hitt var víst til beitarjurtar, mér finnst ekki að þeir peningar hefðu átt að koma úr þessu verkefni. Mér kemur aldeilis á óvart að peningar til að gera rannsóknir á lúpínu sem lækningajurt, sem ég styð heils hugar, skuli koma úr þessu verkefni. Mér finnst að þeir peningar hefðu átt að koma úr allt öðrum sjóðum og að þeir peningar sem veittir voru til þess og komu úr þessu verkefni hefðu átt að fara í allt annað innan þessa átaks. Ég get alls ekki séð að rannsóknir á lúpínunni sem lækningajurt á vegum háskólans séu aðfinnsluverðar. Það vill svo til að fyrir viku átti ég þess kost að hlusta á forustumann verkefnisins, Sigmund Guðbjarnason, fyrrverandi rektor, lýsa því hvernig þessar rannsóknir hafa farið fram og ég fagna þeim og er mjög hrifin af þeim og vil að það framtak fái meiri peninga. Ég get ekki skilið af hverju þeir peningar komu héðan. Mér finnst þetta vera langt frá þeirri hugsun sem var á ferðinni þegar við settum þetta verkefni af stað fyrir fimm árum að vera með átak í framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Ég gagnrýni það að verið sé að fara í þessu verkefni út í svo fjarlægan hlut sem rannsókn á lúpínunni til lækninga. Enginn má taka orð mín svo að ég vilji ekki þær rannsóknir og mér fyndist að það væri hið hörmulegasta mál ef svarið væri það að verkefnið fengi enga peninga ef það fengi ekki úr þessum átakssjóði.

Þetta segir mér það að ég hef væntanlega gert mér vonir um að miklu stærri hlutur af peningum átaksins færi til beins átaks í framleiðslu og markaðssetningum fæðutegunda en þeir sem hafa haldið utan um átakið hafa ákveðið. Þetta eru þær athugasemdir sem ég er með, forseti, miðað við að hafa því miður ekki getað fylgst með umræðunni og fróðlegt að heyra hvers vegna þetta góða verkefni eins og lúpínujurtirnar þurftu að sækja í þetta átak. Mér finnst að þeir peningar ættu að koma annars staðar frá. Mér finnst líka sérkennilegt að sjá að ein milljón hefur farið í stuðning við vottunarstofur. Af hverju þarf átakið að borga einhverjar vottunarstofur sem eru til og eru settar á laggirnar af hinu opinbera í tengslum við önnur verkefni sem heyra undir aðrar vottunarstofur? Af hverju þarf það að fara inn í þetta átak? Af hverju kemur ekki ríkið og ráðherra upp vottunarstofu vegna vottunarkerfa? Af því að ég heyrði umræðu um hreinsunarátak Græna hersins þegar ég gekk í salinn þá ætla ég líka að taka undir þá gagnrýni. Það er alveg fráleitt að átakið sem þarf á öllum peningum sínum að halda sé að setja pening í það hreinsunarátak. Sveitarfélögin voru í því, fyrirtæki voru í því. Það átak fékk athygli, stuðning og fjárframlög út á öflugan áróður þeirra einstaklinga sem stóðu fyrir átakinu, þeirra einstaklinga sem kölluðu sig Græna herinn. Þetta eru burðugir einstaklingar sem náðu heilmiklum stuðningi við það verkefni sem þeir voru með. Mér finnst verkefni þeirra gott. Það var bara á öðru plani. Þeir sem fengu stuðning við það úr hverri einustu sveitarstjórn þar sem þeir komu að verkum og það var bara hið besta mál. En mér finnst alveg fráleitt að verið sé að taka 1,245 millj. af því fé sem var verið að veita til átaks því sem hér um ræðir og setja það í slíkt hreinsunarverkefni.

Fleira gæti ég nefnt til sögu en ég vil gjarnan heyra hver hugsunin er í raun og veru ef það er þá ekki útrætt hjá þeim sem halda utan um átakið. Ég fullyrði það vegna þess að þingflokksformenn á þeim tíma komu mjög mikið að þessari samþykkt um að veita pening til fimm ára í þetta átak og ég fullyrði að það hafi verið fleiri en ég sem ekki hafi séð það fyrir að átakinu yrði dreift svo gífurlega mikið sem raun ber vitni eins og fram kemur í svarinu sem liggur á borðum þingmanna.

Ég ætla að láta þetta nægja, virðulegi forseti, þar sem ég hef ekki efnislega nein tækifæri til þess að koma að öðru leyti inn í umræðuna sem þegar hefur farið fram.