Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:37:33 (5134)

2000-03-09 14:37:33# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil fagna þeirri umræðu sem hér hefur orðið um frv. það sem hæstv. landbrh. hefur lagt fram. Það má í raun segja að við tölum öll sömu tungu, a.m.k. ákveðið stef með mismunandi áherslum. Hér hafa verið óvenju jákvæð skoðanaskipti vegna þess að hugmyndir flestra eru svipaðar og við viljum þessu málefni afar vel.

Það er auðvitað alveg lífsnauðsynlegt fyrir íslenskan landbúnað að halda áfram starfi Áforms. Við getum haft mjög mismunandi skoðanir á því hvort vel eða illa hafi verið staðið að verki. Hér er þó vissulega um ákveðið frumkvöðlastarf að ræða sem skipt hefur íslenskan landbúnað heilmiklu máli. Ég segi líka að við þurfum að vera þolinmóð í þessum verkefnum eins og öðrum. Hafi fulltrúar Áforms-verkefnisins ekki staðið sig sem skyldi eiga þeir þó sannarlega möguleika á að bæta sig með framlengingu á þessu verkefni.

Við höfum í dag rætt heilmikið um íslenskan landbúnað og í raun skipt framleiðslugreininni í fjóra meginflokka, þ.e. hinn hefðbundna landbúnað, vistvænan landbúnað, lífrænan landbúnað og síðan verksmiðjuframleidda landbúnaðarvöru. Það er ekkert óeðlilegt við það að við veltum þessum hugtökum fyrir okkur og reyndar hefur komið vel í ljós í þessari umræðu að á stundum verður ákveðin hugtakabrenglun þegar talað er um annars vegar vistvænan landbúnað og hins vegar lífrænan landbúnað. Við þurfum að passa mjög vel upp á að skilgreina þetta nákvæmlega með það fyrir augum að við getum flutt út vöruna sem við erum að framleiða. Við sjáum það þegar við ferðumst um heiminn hve framleiðslan í lífrænum landbúnaði er í raun og veru að verða fjölbreytileg. Þetta sjáum við t.d. afar vel í Danmörku þar sem á hverju ári bætast við nýjar og nýjar lífrænt framleiddar afurðir. Það hefur tekist að fá meira fyrir þessa vöru en fyrir framleiðslu í hefðbundnum landbúnaði og er það vel.

Í þessari umræðu er líka nauðsynlegt að velta fyrir sér hve miklar framfarir hafa orðið í íslenskum landbúnaði t.d. á síðustu 20 árum. Það sjáum við m.a. í mjólkurframleiðslu. Þar stöndum við okkur afar vel hvað markaðssetningu snertir og þar hefur orðið mjög jákvæð þróun. Við sjáum þetta líka í annarri framleiðslu en ég tel þó að við getum gert enn betur í markaðssetningu á íslensku lambakjöt. Okkur hefur hvorki á innanlandsmarkaði né erlendis tekist sem skyldi að markaðssetja þá heilnæmu og góðu vöru.

Það hafa einnig orðið miklar framfarir í ylrækt á Íslandi eftir að menn fóru að nota rafmagn til lýsingar við þá ræktun. Nú er svo komið að við getum nánast framleitt íslenskt grænmeti allt árið. Það er gríðarlega mikill mismunur á hinu íslenska grænmeti og því sem flutt er inn til landsins, gæðamunurinn er gríðarlegur og þar stöndum við afar vel að vígi. Hins vegar eru rætt um það á markaðnum hvort íslenskt grænmeti gæti ekki verið ódýrara og þar gæti ríkisvaldið komið betur að með tilliti til raforkuverðs o.fl. Þar eru því atriði sem við þurfum að skoða.

Á sama hátt getum við sagt að hvíta kjötið er mjög sambærileg vara og jafnvel betri en á erlendum markaði. Þar er hins vegar auðvitað um verksmiðjuframleidda vöru að ræða.

Hvað eftir annað hefur komið fyrir að heilu förmunum af innfluttu grænmeti og ávöxtum hefur verið hent. Þetta fer yfirleitt mjög hljótt vegna þess að þetta hefur ekki orðið fjölmiðlamatur. En í mörgum tilfellum er þessi vara úðuð rotvarnarefnum og þegar hún hefur verið rannsökuð hjá Hollustuvernd hefur komið í ljós að þar er í mörgum tilfellum um að ræða efni sem eru mjög óholl. Við þurfum að gæta mjög vel að þessu og gefa þeim málum betri gaum.

Eitt er það mál sem ég hef haft mjög mikinn áhuga á varðandi íslenskan landbúnað en það er einmitt að koma íslensku lambakjöti á markað erlendis. Í sjónmáli er stórt tækifæri í þeim efnum því að íslenskum matreiðslumeisturum hefur í annað skipti í röð verið boðið að taka þátt í svokallaðri Bocuse d'Or keppni sem haldin er í Lyon í Frakklandi. Þar keppa 22 af fremstu matreiðslumeisturum heims og ekki nóg með það heldur verður aðalréttur í þessari keppni lambakjöt. Þar erum við að keppa við þjóðir eins og Nýja-Sjáland, Frakkland sjálft og mörg fleiri ríki.

Í raun og veru mun dagurinn í dag skera úr um hvort íslenskt lambakjöt verði aðalréttur í þessari keppni. Landbrh. hæstv. hefur beitt sér fyrir því að svo megi verða. Hér er ekki um neinar stórkostlegar fjárhæðir að ræða, u.þ.b. 10 millj. kr., 800 lambsskrokkar. Ef ég veit rétt hefur það í raun verið ákveðið af ráðherrans hálfu að íslenskt lambakjöt verði í þessari keppni.

[14:45]

Þarna skapast ótrúlega miklir möguleikar og að þessu máli kemur einmitt Áform, sú stofnun sem við erum að ræða um í dag og þarna er verulega spennandi verkefni fyrir Áform. Þarna geta skapast nýir möguleikar og við vorum að tala um þessa gæðavöru og það að geta selt þá vöru sem við erum að framleiða hér á landi, jafnheilnæm og hún er á hærra verði en gerist og gengur. Markaðssetningin á íslensku lambakjöti hefur ekki gengið sem skyldi, því er verr og miður. Þó má sjá lambakjöt til sölu t.d. í Netto-mörkuðunum í Danmörku og um tíma var Belgía nokkuð góður markaður en þar hefur salan því miður dregist saman. En með því að íslenskt lambakjöt verði aðalrétturinn í þessari Bocuse d'Or keppni þá má segja að þarna séu hugsanlega að opnast nýir markaðir.

Við ræðum sjaldnast um forvarnastarf þegar talað er um matvörur en eftir því sem við neytum hollari matvöru því betri verður heilsa þjóðarinnar. Þegar rannsóknir hafa farið fram á t.d. lambakjöti hefur komið í ljós að í því eru Omega-3 sýrur sem geta t.d. komið í veg fyrir krabbamein. Núna, þegar við erum að velta fyrir okkur innflutningi á fósturvísum úr norskum kúm, er mjög gjarnan talað um heilnæmi íslenskrar mjólkur. Það er gaman að fylgjast með því að íslensk ungmenni, sem velta mjög fyrir sér hvernig þau eru í laginu, því menn vilja gjarnan helst vera háir, grannir og spengilegir, t.d. það unga fólk sem er í fyrirsætubransanum svo ég sletti því ljóta orði, neytir t.d. skyrs mjög mikið. Skyr er mjög heilnæm vara og það má segja að skyr sé að verða ákveðin tískuvara hjá þessu unga fólki og það er gott og gaman frá því að segja.

Ég velti líka mjög gjarnan fyrir mér merkingu á vörunni sem við erum að neyta. Þegar útlendingar koma til Íslands og horfa yfir vöruúrvalið --- ég var að tala um markaðssetningu á mjólk --- þá er afar erfitt fyrir þá að gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að kaupa. Auðvitað eiga umbúðirnar að vera merktar þannig að fólk geri sér grein fyrir því hvers konar vöru það er að kaupa.

Ég vil líka benda á að mér fyndist spennandi þegar ég er að kaupa mér kjöt úti í búð að ég vissi frá hvaða svæði kjötið kæmi, jafnvel frá hvaða búum. Við sjáum alltaf frá hvaða afurðastöðvum kjötvaran kemur en ég vildi gjarnan sjá t.d. frá hvaða búum þessar afurðir koma. Þetta sjáum við þegar lífrænt lambakjöt hefur verið sett á markað á Íslandi, þá höfum við séð að merkingin er þannig að við getum séð frá hvaða búum kjötið kemur.

Við búum því miður við fákeppni í dagvöruverslun á Íslandi og segja má að dagvöruverslun á Íslandi sé að verða nútíma einokunarfyrirtæki því það er sama hvert við förum á höfuðborgarsvæðinu, við erum væntanlega bara að kaupa af einum eða tveimur aðilum undir mismunandi nöfnum. Þess vegna finnst mér líka nauðsynlegt að taka upp verðmerkingar öðruvísi en gert er. Ég vildi t.d. gjarnan vita hvað framleiðandinn er að fá fyrir vöru sína. Ég vil gjarnan sjá hvað afurðastöðvarnar fá fyrir vöru sína. Ég vil gjarnan sjá líka í verðmerkingunni hvað ríkið er að taka til sín og svo loks söluaðilinn vegna þess að þegar fákeppni er með þessum hætti skapar það þó það umhverfi að við gerum okkur grein fyrir því fyrir hvað við erum að borga. Þetta er gert t.d. í Frakklandi og þetta held ég að þessar stóru keðjur á Íslandi ættu að taka upp, m.a. til þess að tryggja að neytandinn sjái hverjir eru vinir hans í raun og veru.

Möguleikar í matvælaframleiðslu á Íslandi eru mjög miklir. Ýmis mál hafa blossað upp úti í Evrópu varðandi framleiðslu á matvörum þar. Þess vegna held ég að möguleikar séu mjög miklir á þessum sviðum og við höfum eytt talsverðum tíma þegar við höfum verið að fjalla um þetta frv. m.a. í að velta fyrir okkur hvort Áforms-verkefni hafa verið að styrkja rétt verkefni eða ekki. Við getum endalaust deilt um það en mér finnst ekki óeðlilegt þó að Áforms-verkefnið styrki t.d. rannsóknir á íslenskum lækningajurtum.

Áðan var lúpínan til umræðu. Stundum er talað um það að lúpínuræturnar gætu orðið ginseng norðursins og því ekki að styrkja slíkar rannsóknir? Mikið er selt af ginsengi vítt og breitt um heiminn, þessum kínversku rótum sem menn trúa á og treysta, og ég efast ekkert um að sé hin besta vara, og menn eru fá ótrúlega mikið fyrir þessa vöru. Auðvitað eigum við að kappkosta að geta verið á þessum sviðum líka.

Ég nefni t.d. lýsið sem er mjög holl lúxusvara. Ef okkur tekst að markaðssetja þessa vöru úti í heimi sem lúxusvöru, þá er vel.

Ég endurtek það, herra forseti, að ég fagna því mjög að þessu verkefni skuli vera fram haldið. Ég get vel tekið undir að það er nauðsynlegt að upplýsa þingmenn og almenning um það hvað er að gerast á þessum sviðum en ég lýsi miklum stuðningi mínum við það að framlengja verkefnið og þakka hæstv. landbrh. fyrir það.