Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:52:23 (5135)

2000-03-09 14:52:23# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:52]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni um að okkur sé lífsnauðsyn að framlengja átaksverkefnið sem hér um ræðir, sérstaklega í ljósi þeirra orða hv. þm. að þeir sem hafa starfað að átakinu þurfi á framlengingunni að halda til þess að bæta sig í starfi. Þetta lýsir eingöngu þörfinni til að viðhalda sjálfu sér og það gagnrýni ég. Ég gagnrýni enn og aftur að átaksverkefnið skuli ekki hafa skilað okkur markvissri stefnu til næstu 5--10 ára sem ég les út úr ræðum upphafsmannanna að þetta átaksverkefni hafi átt að skila okkur. Þess vegna gagnrýni ég orð hv. þm., líka með tilliti til þess að við þurfum að velta hugtökunum vistvænt og lífrænt fyrir okkur.

Herra forseti. Við erum fallin á tíma með það og bara það eitt að átaksverkefnið í fimm ára starfi sínu skyldi ekki hafa getað kveðið svo óyggjandi sé upp úr með skilgreininguna á hugtökunum vistvænt og lífrænt segir mér að þar hafi menn ekki staðið nægilega vel að verki og ekki fylgt nægilega vel eftir markmiðum sínum.

Ég segi það enn og aftur að í dag vantar okkur inn á markaðinn eina tegund dilkakjöts. Það er lífrænt vottað dilkakjöt sem okkur vantar á markaðinn. Hvers vegna skilaði Áform -- átaksverkefni okkur ekki niðurstöðu eins og vænst var fyrir fimm árum um það hvernig við ættum að efla þessa framleiðslu okkar á meðan við getum ekki í dag skilað því sem beðið er um inn á markaðinn af lífrænt vottuðu dilkakjöti?