Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:59:17 (5140)

2000-03-09 14:59:17# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þau dæmi sem hann kom með. Mér leið eins og í gamla daga þegar ég var í barnaskólanum hjá Trúmanni Kristiansen í Hvolsskóla þegar bent var á mann og sagt: Hvort er þetta svona eða á hinn veginn? Í raun og veru var spurningunni svarað með því sem ég sagði. Ef ég get séð svart á hvítu að annar kaupmaðurinn hafi keypt vöruna á tvöhundruðkall og hinn hafi keypt hana á tíkall og það hlýtur að vera einhver gæðamunur á vörunni, er það ekki rétt, herra forseti? Ef þú kaupir bíl með ákveðnum merkjum ert þú alveg tilbúinn að borga fyrir það. Þú kaupir úr með ákveðnum merkjum og ert tilbúinn að borga fyrir það. En ég vil sjá þetta svart á hvítu. Hver er framleiðslukostnaðurinn? Hvar er þessa aðila að hafa og hv. þm. talar gjarnan um fé án hirðis. Nú virkar það svoleiðis að þegar við komum í dagvöruverslanir, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hefur hinn almenni borgari ekki hugmynd um að í einu tilfellinu heitir fyrirtækið 10--11, í öðru tilfellinu heitir það Bónus, í þriðja tilfellinu heitir það Hagkaup, í fjórða tilfellinu heitir það Nýkaup. Þetta er allt sama fyrirtækið. Síðan getum við tekið Nóatún og 11--11 sem dæmi. Hérna er um sömu fyrirtæki að ræða. En ég vil sjá það svart á hvítu hvernig verðmyndun verður til. Þannig get ég sjálfur fundið út hverjir séu vinir neytenda.

Hv. þm. spurði líka um fjárfesta og lúpínurætur. Ég var ekki að tala um einhverja sérstaka ríkisstyrki við framleiðsluna. Við erum að rannsaka þessa hluti og það er ekkert óeðlilegt að opinberir aðilar komi nærri því, langt í frá. Hver veit nema við getum með samstilltu átaki, hv. þm., fengið fjárfesta til að fjárfesta í lúpínurótum?