Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 15:03:40 (5143)

2000-03-09 15:03:40# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef fyrr í dag lýst yfir ánægju minni með frv. hæstv. landbrh. Ég tel að ekki óeðlilegt að verkefni eins og Áform fái tíu ára aðlögun. Það er mjög óeðlilegt að svona mikið verkefni hafi aðeins örfá ár, það tekur allt tíma.

Hvað varðar upprunavottun þá er í hvítbók ESB um matvælaöryggi gert ráð fyrir að hægt sé að fylgjast með matnum frá bónda í maga, eða eins og hæstv. landbrh. sagði á búnaðarþingi, frá haga í maga. Við eigum að sjálfsögðu að geta vottað okkar vöru þannig að við getum séð ef við erum að borða nautakjöt frá hvaða bæ það kom, í hvernig haga það var, hvernig hey það át, í hvernig húsum það var, hvort það hefur verið á lyfjum og hvernig því var slátrað. Ég held að íslenskum bændum væri mikill akkur í því ef við gætum það því að þá gætum við sýnt það og sannað að við erum að framleiða matvæli í heimsklassa því að við erum laus við, eins og ég kom að fyrr í máli mínu í dag, að nota hormóna og að sprauta alls konar óværu í afurðir okkar.