Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 15:11:51 (5146)

2000-03-09 15:11:51# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það sem hv. þm. sagði í aukasetningu að það yrði sjálfhætt í íslenskum landbúnaði ef farið yrði að tillögum mínum þykir mér lýsa ákaflega miklu vantrausti á íslenska bændur. Ég hef miklu meira traust og trú á íslenskum bændum en þetta.

Ég hef nefnilega þá trú að ef íslenskir bændur væru lausir við ok þeirrar landbúnaðarstefnu sem hefur verið fylgt hér í áratugi mundu þeir blómstra, þá mundu þeir rísa upp og þeir mundu framleiða bestu vöru sem til er því að þeir hafa getu til þess. En vegna þess að allt frumkvæði er tekið af þeim alls staðar og þeir mega jafnvel ekki gera vissa hluti er staðan eins og hún er í dag.

Það sem hv. þm. talaði um mismunun milli vistvænnar og lífrænt ræktaðrar vöru, það gerist bara þegar hið opinbera fer að stunda bisness. Það er bara þannig. Þegar hið opinbera stundar bisness mismunar það alltaf á þennan eða annan máta.