Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 15:21:45 (5148)

2000-03-09 15:21:45# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Mér þykir nauðsynlegt í lok 1. umr. að segja örfá orð og þakka þessa málefnalegu og ég vil segja miklu umræðu um þetta mál sem hefur nú staðið síðan um hádegi og fram að miðdegiskaffi, sem sýnir nú talsverðan áhuga fyrir málstaðnum, og flestar ræður verið prýðilegar og áreiðanlega gagnlegar hv. landbn. í þeirri umfjöllum sem hún fer í um málið. Ég vil því þakka það. Það er ekki ónýtt að þingmenn setji sig inn í málin og ræði þau út frá sinni þekkingu.

Hv. þm. Drífa Hjartardóttir minntist á að sóknarfæri okkar lægju í hreinum hágæðamatvörum. Ég tek undir það sjónarmið og það hefur komið fram í ræðum margra þingmanna. Ég held að við áttum okkur á því. Það er eitt sem mér finnst liggja fyrir í veröldinni, það er mikil hugarfarsbreyting að ríða yfir heiminn, hann er að vakna af dvala. Hvort sem það er nú í lok þessarar aldar eða upphafi hinnar nýju veit ég ekkert um. Allt í einu rís maðurinn upp og áttar sig á því að markaðsbúskapurinn, hin blinda sýn gróðans og stærðarinnar er ekki akkúrat lausnarorðið. Við höfum sums staðar farið mjög gáleysislega að í veröldinni og sannarlega er það nú svo að við Íslendingar höfum á margan hátt verið gæfumenn þó að það liggi fyrir að við sjálfir höfum líka verið á rangri leið sums staðar.

Ég vil nefna t.d. nokkuð sem enginn talar um. Í Reykjavík hafa átt sér stað stórkostleg mistök, náttúruleg mistök, kannski þau stærstu um langa hríð, ef menn færu að láta byggðina hér eyðileggja paradís eins og t.d. Elliðaárnar. (Gripið fram í: Því ekki að tala um Eyjabakkana?) Enginn talar um Elliðaárnar --- frekar hvarflar hugur hv. þm. til Eyjabakkanna sem hafa fóstrað gæsir vorar um langa hríð. En Elliðaárnar eru náttúrlega ein dýrasta perlan hér í borginni og það er sorglegt ef menn eru að eyðileggja vistkerfi árinnar, ég nefni þetta sem dæmi.

Það sem gerir það að verkum að heimurinn er að vakna til vitundar er að menn hafa verið að fara illa með móður jörð. Menn hafa víða verið að gera stórkostleg mistök, jörð í Evrópu og víðar er mjög menguð og það hefur alvarleg áhrif og er auðvitað grafalvarlegt mál. Síðan hitt að víða um veröld hafa menn verið að fara illa með dýr og misnota dýr. Nú er þessi hugsun öll sem betur fer að snúast við. Ég man eftir því þegar ég var drengur voru menn þegar farnir að tala um að plata blessaðar hænurnar, þeir ætluðu að ná ekki bara sjö vinnudögum á hænurnar á viku, ég held þeir hafi átt að verða níu eða tíu, þeir blekktu hænurnar með lýsingu. Og enginn gerði athugasemdir við þetta með hænurnar, það eru bara 20--25 ár síðan þetta var. (Gripið fram í: Er búið að banna þetta?) Ég held að allir menn sjái það núna að þetta var röng stefna.

Hæstv. forseti. Landbúnaður heimsins hefur verið á þessari ferð og nú sjá menn um víða um veröld að þetta var stefna sem ekki gengur upp og þess vegna er þessi vakning að eiga sér stað. Vissulega er það rétt sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að við eigum í öllum atriðum að segja satt. Lífrænt og vistvænt er ekki það sama og verður aldrei það sama. En það er ekkert sem segir að þessi kerfi geti ekki bæði orðið gagnleg í þeim viðsnúningi sem þarf að eiga sér stað í landbúnaði heimsins og meðferðinni á móður jörð. Það liggur alveg fyrir að lífrænt er, eins og hv. þm. sagði, stefna samkvæmt fjölþjóðlegum stöðlum og menn vinna eftir mjög fastmótuðu kerfi. Ég er sannfærður um að hinn lífræni söfnuður sem kannski aldrei verður stærri en fylgi vinstri grænna, í síðustu kosningum á ég við, getur haft og er að hafa mjög mikil áhrif með málflutningi sínum. Hann hefur áhrif á hvernig menn fara með móður jörð, hann hefur áhrif á hvernig menn fara með skepnurnar og hann er ákveðnum neytendum mikilvægur, því að þeir trúa á þessa leið í landbúnaði og auðvitað eigum við að þjóna skýrt eftir þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið.

Hvað vistvænt varðar þá liggur fyrir að lífrænn landbúnaður selur afurðir sínar dýrari, það geta aldrei allir orðið lífrænir, það er ekki einu sinni æskilegt að það verði allir lífrænir. En þá kemur hin vistvæna stefna sem líka á rétt á sér og ég hygg að það sé nú að gerast í Evrópu að hvítbók Evrópusambandsins boði gæðastýrðan landbúnað í Evrópu eins og bændurnir okkar íslensku eru nú að tala um vestur á Hótel Sögu á þingi sínu, þeir vilja gæðastýrðan landbúnað og vottaðan frá haga til maga eða bónda að borði, þ.e. að menn búi við mikið öryggi. Þannig á hinn vistvæni landbúnaður mikla möguleika á Íslandi. Og það er glæsilegt að hugsa til þess að þó að við greinum ekki alltaf hver árangurinn er hafa Íslendingar með breyttu hugarfari --- maður veit aldrei hvaða sáðkorn það var sem olli því að menn breyttu um stefnu og fóru að hugsa öðruvísi, kannski var það sáðkornið og peningarnir um Áform, ný hugsun, áróður, ný þekking sem gerir það að verkum að menn eru að hugsa öðruvísi, starfa öðruvísi að framleiðslu sinni og ná nýjum árangri og eru nær neytandanum en þeir voru áður. Því að það er mjög mikilvægt og ég er sannfærður um að þessi Áforms-sjóður hefur haft þar gríðarleg áhrif.

[15:30]

Nú ætla ég ekkert að efast um að einhver mistök hafi átt sér stað í úthlutun, eitthvað sem kannski orkaði tvímælis. En á heildina litið þá hygg ég að þessi sjóður hafi verið skila okkur miklum árangri. Ég nefni sem dæmi, af því hér var minnst á lambakjötið, að ef við förum tíu ár aftur í tímann þá vorum við að selja lambakjötið á erlendan markað með þeim hætti að bóndinn hafði ekkert í sína buddu af verðinu. Nú er það þó að gerast að við erum að ná verði í upp undir 200 kr. á kíló erlendis frá. Það er mikil breyting. Við hugsum þetta allt öðruvísi og vinnum þetta allt öðruvísi en áður og hinar góðu afurðastöðvar okkar hafa auðvitað lagt mikla peninga og mikla vinnu í að þróa þetta starf.

Ég er því sannfærður um að þessir peningar hafa nýst. Þeir hafa haft andleg áhrif ekki bara á bændurna heldur þjóðina og þess vegna er það mikilvægt. Auðvitað getum við tekið einhver stílbrot sem átt hafa sér stað, eins og hér hefur verið minnst á, t.d. Græna herinn, dansleiki og fjör. Þetta er stílbrot finnst mér í úthlutuninni. Ég varð var við Græna herinn og þeir sköpuðu gleði í einhverjum byggðarlögum og spiluðu músík. Þeir voru að þekja land, vöktu athygli á hreinleika náttúrunnar og ýmsu í sínum störfum þannig að þeir unnu auðvitað gott starf. En kannski falla þeir ekki akkúrat undir lagaskilgreininguna um sjóðinn. Þannig má auðvitað telja upp. En þetta er afgreitt.

Ég vil segja við þessa umræðu, ekki síst vegna orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að ég hef auðvitað rætt það í mínu ráðuneyti og tel mjög mikilvægt núna að setjast yfir það verkefni um leið og lögin verða framlengd, hver stefnan skuli vera, þ.e. fara yfir þetta sem við höfum verið að ræða hér í dag og auðvitað marka þessu nýja sýn í samráði við stjórn sjóðsins þannig að ég heiti því og við auðvitað eiga gott samstarf við landbn. Alþingis um málið. Það þarf sjálfsagt að setja þarna einhver skýrari markmið og gera þá kröfu að við sjáum sem fyrst og getum með tölfræði sýnt fram á að þessir peningar nýtast, sem ég reyndar er sannfærður um.

Hv. þm. minntist á sérstaka nefnd sem er minnst á í fjárlögunum út af fyrirspurninni. Þarna mun vera einhver misskilningur á ferðinni því það er verið að rugla saman allt annarri nefnd sem ég skipaði til þess að fjalla um útflutning á lambakjöti undir vistvænum merkjum, sem Einar Oddur Kristjánsson stýrði eða var formaður fyrir og hefur þegar skilað af sér áliti. En það snerist í rauninni um allt annað verkefni þannig að þarna er misskilningur á ferðinni.

Hv. þm. spyr eftir niðurstöðunni, hver sé skoðun ráðherra og hvaða niðurstöðu hann vilji sjá. Ég vil sjá bara verulegan árangur og gera kröfur til þess að þeir sem stýra þessum sjóði fylgi auðvitað stefnumiðum laganna og þeim anda sem kemur fram á Alþingi, og mun fara yfir það.

Margt fleira hefur komið hér fram í þessari umræðu. Hér var minnst á lúpínupeninga og rannsóknir á lúpínu. Ég tek undir með hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að við eigum áreiðanlega gríðarlega möguleika með íslenskar jurtir sem lækningalyf. Ég þekki menn sem eru að ná verulegum árangri í að markaðssetja íslenskar jurtir og gera þær að heimsvöru þannig að þar liggja gríðarlegir möguleikar. Hvað þetta varðar var niðurstaðan sú að láta peninga frá Áforms-sjóðnum í lúpínurannsóknir. Þar komu einnig að aðrir sjóðir við sögu, þ.e. Framleiðnisjóður landbúnaðarins og til viðbótar kom Rannís. Þetta var samstarfsverkefni sem þessir þrír aðilar fóru saman í. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga því að ég álít að við höfum líka í gegnum þennan sjóð viljað skapa ný tækifæri í sveitum og ef við náum árangri þarna þá eru gríðarleg verkefni fyrir íslenska bændur í kringum það.

Ég tek undir með hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að endurmenntun er mjög mikilvæg í öllum greinum atvinnulífsins. Ekki er það síst í landbúnaði miðað við þá breyttu sýn sem ég rakti hér í upphafi máls míns.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kom inn á lambakjöt. Ég segi fyrir mig að ég vona að það gerist í dag að íslenskt lambakjöt verði valið til þessarar keppni í Frakklandi. Þarna verða eins og hv. þm. sagði 22 mestu snillingar í matreiðslu sem fá það verkefni að vinna rétti og fást við íslenska lambakjötið og kynnast því hvað hráefnið er gott, þannig að það er mjög mikilvægt.

Hv. þm. Hjálmar Árnason kom hér inn á hreinleika og heilbrigði. Ég hygg að það sé rétt hjá honum að menn eigi að skoða það með sölukerfi sjávarútvegsins í huga. Landbúnaðurinn á að gera það. Ég kom á dögunum í fiskbúð í Reykjavík þar sem er mikil úrvinnsla úr fiski en þeir nota mikið af mjólkurvörum og ostum til þess að búa til rétti þannig að þessar greinar tvær eiga samleið og auðvitað á að skoða þetta með sölukerfið.

Ég sé nú mér til mikilla vonbrigða, hæstv. forseti, að tími minn er á þrotum. Ég vil þó segja við hv. þm. Pétur Blöndal, sem er alltaf mikilvægur hér í hverri umræðu, hann er svona áttaviti fyrir mann, hann hefur sérstakar skoðanir og þær eru ágætar, en maður má nú ekki kaupa allt sem ódýrt er: Það fór illa fyrir henni Mjallhvít litlu þegar hún fékk ókeypis eplið og beit í það.