Veitinga- og gististaðir

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 15:48:08 (5151)

2000-03-09 15:48:08# 125. lþ. 76.5 fundur 406. mál: #A veitinga- og gististaðir# (nektardansstaðir o.fl.) frv. 66/2000, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[15:48]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með stallsystur minni, hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, og fagna framkomnu frv. frá hæstv. samgrh. um breytingar á lögum um veitinga- og gististaði frá árinu 1985. Ég held að nefndin hafi komið niður á nothæfa lausn því það skiptir mjög miklu máli, herra forseti, að lögin dugi til að skapa þann ramma sem vera þarf í kringum starfsemi sem þessa og allan veitingarekstur að sjálfsögðu. Það er mikilvægt að löggjafinn lendi ekki í því að setja nýjar greinar inn í þessi lög sem síðan verði kannski til lítils gagns innan fimm eða tíu ára. Þó engan hafi kannski órað fyrir því árið 1985 að þróunin yrði sú sem hún varð þá verð ég að viðurkenna, herra forseti, að mér hafa þótt stjórnvöld býsna ráðalaus á undanförnum missirum í viðbrögðum sínum við klámbúlluuppganginum, sérstaklega hér í höfuðborginni.

Við höfum mátt bíða nokkuð eftir niðurstöðu þessarar nefndar. Ég tek þó fram, herra forseti, að ég fagna þessari niðurstöðu. Einnig mátti hið háa Alþingi bíða nokkuð eftir tillögum frá hæstv. félmrh. vegna breytinga á atvinnuleyfum. Nú eru þær tillögur til umfjöllunar í hv. félmn. og ég vænti þess að hvort tveggja verði afgreitt innan skamms hér á hinu háa Alþingi, þetta frv. og svo tillögurnar sem nú eru til umfjöllunar í félmn.

Það skiptir miklu máli, herra forseti, að það sé rammi um þessa starfsemi. Ég er ein þeirra sem hafa miklar skoðanir á þessari starfsemi. Ég tel að í skjóli svokallaðra erótískra skemmtistaða þrífist ýmislegt sem við eigum ekki að leggja rækt við í samfélagi okkar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við notum þetta tækifæri til þess að reyna að stemma stigu við þessari þróun. Um leið og geri ég mér fulla grein fyrir því að það er til einskis að banna slíka staði. Ég hygg að með því að banna slíka starfsemi þá væri löggjafinn einfaldlega að senda hana neðan jarðar, ef svo má að orði komast, herra forseti. Það gæti haft enn hrikalegri afleiðingar í för með sér, sérstaklega fyrir þær konur sem á þessum stöðum starfa.

Ég hygg að það sé mjög brýnt að löggjafinn hafi í huga að réttinda þeirra sem starfa á þessum stöðum sé gætt á allan hátt. Við vitum það og höfum rætt um það áður hér á hinu háa Alþingi að fjöldi erlendra kvenna kemur til landsins til þess að starfa á þessum skemmtistöðum. Það hefur verið greint frá því í fjölmiðlum að reynsla þeirra af verunni hér og störfum á Íslandi er misjöfn og stundum hefur hún verið þjóðinni til mjög lítils sóma. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við mætum því með skilningi en samt sem áður staðfestu, að bæði löggjafi og framkvæmdarvald sýni í verki hvað við viljum að þrífist, hvort heldur er í veitingarekstri eða öðru sem þessu tengist. Yfirvöld þurfa að hafa þau tæki í höndunum sem nauðsynleg eru til þess að segja af eða á um hvers konar starfsemi skuli rekin innan ákveðinnar skipulagsheildar, hvort heldur er hér í borginni eða öðrum sveitarfélögum á landinu.

Að lokum, herra forseti, vil ég enn og aftur þakka fyrir þetta frv. og vænti þess að hv. samgn. afgreiði það fljótt og vel svo að úti í þjóðfélaginu geti fólk farið að starfa eftir þessum lögum nú á vori komanda.