Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 15:57:56 (5153)

2000-03-09 15:57:56# 125. lþ. 76.6 fundur 287. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# (fyrirsvar eignarhluta ríkisins) frv., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Meðflutningsmaður minn að þessu frv. er hv. þm. Lúðvík Bergvinsson.

Frv. er stutt. 1. gr. þess hljóðar svo:

,,Í stað orðsins ,,Samgönguráðherra`` í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: Fjármálaráðherra.``

Í stuttu máli er efnisinnihald frv. það að í stað þess að samgrh. fari með eignarhlut ríkisins í Landssímanum þá fari fjmrh. með þann eignarhlut.

Í reglugerð nr. 96/1969 um Stjórnarráð Íslands segir að fjmrn. fari með eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar vegna þeirra, m.a. að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru, nema lagt sé til annars ráðuneytis.

Þetta frv. er fram komið vegna þess að það orkar tvímælis að sami aðili fari með æðsta vald í fyrirtæki á samkeppnismarkaði og setji jafnframt almennar leikreglur fyrir öll fyrirtæki sem starfa í viðkomandi grein. Þannig háttar nú með samgrh. sem fer með hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. og Íslandspósti hf. en hefur jafnframt reglugerðarvald á þessu sviði og setur leikreglur fyrir markaðinn og fyrirtæki sem á honum starfa.

Þó að umsvif hins opinbera í samkeppnisrekstri hafi minnkað eru þau enn umtalsverð. Því er full ástæða fyrir löggjafann að huga að því hvaða breytingar er eðlilegt að gera í ljósi breyttra aðstæðna.

Ég vil, herra forseti, í þessu samhengi nefna það að við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson höfum einnig flutt frv. til laga um breytingu á lögunum um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands þar sem lagt er til að eignarhlutur ríkisins í þessum bönkum verði færður frá viðskrh. til fjmrh.

[16:00]

Í einhverjum tilfellum hafa menn farið þá leið að aðskilja fjárhagslega í rekstri einstakra fyrirtækja en það nær ekki að jafna þann mun sem er á aðstöðu opinbers fyrirtækis og einkafyrirtækis á markaði, einkum ef sami ráðherra hefur með höndum yfirstjórn fyrirtækis og setur jafnframt almennar reglur fyrir fyrirtæki á markaði.

Brýnt er, herra forseti, að þeirri meginreglu sem mörkuð er í reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands sé fylgt og fjmrn. fari með eignarhlut ríkisins í samkeppnisfyrirtækjum. Fagráðherra á hverju sviði verður þá fagráðherra allra fyrirtækja á viðkomandi sviði en ekki sérstakur ráðherra einstakra fyrirtækja. Slíkt hefur vakið tortryggni og hafa fyrirtæki á markaðinum haldið því fram að það leiddi til samkeppnisforskots að hafa undir höndum upplýsingar um að stjórnvaldsreglur af tilteknu tagi séu í undirbúningi.

Undanfarið hefur þeirrar tilhneigingar gætt að þegar opinberum fyrirtækjum er breytt í hlutafélög fari viðkomandi fagráðherra áfram með hlut ríkisins í fyrirtækinu. Ef til stendur að selja hlut ríkisins --- eins og við þekkjum þá hefur það að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag gjarnan verið ávísun á sölu hlutanna --- getur komið upp afar erfið staða fyrir viðkomandi ráðherra sem getur bitnað á fyrirtækinu sjálfu og starfsumhverfi fyrirtækja í viðkomandi grein. Samkvæmt lögum er samgrh. yfirmaður fjarskiptamála í landinu. Hann fer jafnframt með eignarhlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. og á samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að vinna að sölu fyrirtækisins. Hann verður því að gæta þess að viðhalda virði fyrirtækisins hvað sem líður tæknibreytingum eða breytingum á markaðnum. Slíkt hlýtur að leiða til tortryggni og í einhverjum tilfellum til kæra á grundvelli samkeppnislaga.

Betra er fyrir opinberu fyrirtækin og markaðinn að leikreglur séu skýrar og að opinber fyrirtæki í samkeppnisgreinum séu ekki gagnrýnd fyrir að njóta þess sérstaklega að æðsti yfirmaður þeirra fari með stjórn og eignarráð í þeim og setji jafnframt leikreglur fyrir markaðinn.

Herra forseti. Máli mínu til stuðnings vísa ég í álit Samkeppnisstofnunar, nr. 11/1999, en Samkeppnisstofnun barst erindi frá Verslunarráði Íslands 12. nóv. 1997 þar sem óskað var álits stofnunarinnar á því hvort sú tilhögun að ráðherra fari bæði með eignarráð í samkeppnisfyrirtækjum og framkvæmdar- eða reglugerðarvald á viðkomandi sviði geti torveldað samkeppni og gert aðgang nýrra aðila inn á markaðinn erfiðari en ella. Verslunarráð telur að framangreint fyrirkomulag bjóði þeirri hættu heim að stjórnvaldsreglur taki fyrst og fremst mið af hagsmunum eins aðila, ríkisfyrirtækisins, umfram aðra. Það er einnig nefnt að það geti veitt gífurlegt samkeppnisforskot að hafa undir höndum upplýsingar um að tilteknar stjórnvaldsreglur séu í undirbúningi.

Í niðurstöðu samkeppnisráðs kemur fram að almennt séð verði að telja óheppilegt í samkeppnislegu tilliti að eitt fyrirtæki sem keppir á markaði lúti yfirstjórn sama aðila og setur þær stjórnvaldsreglur sem öll fyrirtæki á markaðnum verða að hlíta. Að mati samkeppnisráðs er ljóst að hugsanlegir hagsmunaárekstrar geti leitt til tortryggni keppinauta í garð hins opinbera fyrirtækis og efasemda um að afstaða fyrirtækjanna gagnvart valdhöfum sé jöfn. Í því sambandi skiptir ekki máli hvort unnt er að sýna fram á einhver sérstök tilvik þar sem trúnaðar gagnvart keppinautum hins opinbera fyrirtækis hafi ekki verið gætt, aðstaðan sem slík skapar vanda. Eins og menn þekkja hefur gætt viðkvæmni, ekki hvað síst á fjarskiptamarkaði þar sem breytingar hafa verið miklar á undanförnum árum. Það hefur þurft að setja fjölmargar reglur og leysa úr margvíslegum ágreiningi, m.a. á milli Landssíma Íslands hf. og annarra fyrirtækja sem keppa á þeim markaði.

Samkeppnisráð telur að tengsl milli ráðherra og ráðuneytis hans annars vegar og fyrirtækis í umsjá hans hins vegar geti almennt skapað tortryggni keppinauta um jafna stöðu þeirra. Og á það er bent að slík tortryggni ein og sér sé til þess fallin að hamla virkri samkeppni. Í tengslum við fjarskiptamarkaðinn telur samkeppnisráð ástæðu til að benda á að í raun sé álitamál hvort sú staða að sami ráðherra fari annars vegar með eignarhald ríkisins í fjarskiptafyrirtæki þess og hins vegar með almennt reglugerðar- og stjórnsýsluvald á markaðnum, sé samrýmanleg þeim kröfum sem gerðar eru til stjórnvalda á grundvelli EES-samningsins og afleidds réttar af honum.

Ég vil endurtaka, herra forseti, að það er ástæða til þess að menn íhugi hvort þetta samrýmist EES-rétti, þ.e. að sama ráðuneyti fari með eignarráð í fjarskiptafyrirtæki og almennt stjórnsýsluvald á því sviði. Í Noregi var gerð ákveðin athugun á þessu sem benti til þess að um álitamál gæti verið að ræða.

Þegar Samkeppnisstofnun var að skoða þetta mál var leitað til allra ráðuneyta um álit þeirra enda ekki talið unnt að afla þeirra gagna sem nauðsynleg þóttu með öðrum hætti. Niðurstaða samkeppnisráðs var að beina því áliti til ríkisstjórnarinnar að hún léti kanna möguleika þess að taka fyrirkomulag á eignarhaldi ríkisins á fyrirtækjum í samkeppnisrekstri til endurskoðunar þar sem höfð væri hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin.

Herra forseti. Ég vil þá beina þeirri spurningu til hæstv. samgrh. hvort farið hafi verið að þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hún láti kanna möguleika þess að taka fyrirkomulag á eignarhaldi ríkisins á fyrirtækjum ríkisins í samkeppnisrekstri til endurskoðunar. Er slíkt e.t.v. í endurskoðun eða hvernig hefur verið fjallað um þetta álit Samkeppnisstofnunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar eða ráðuneytisins eftir atvikum?

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.