Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 16:19:52 (5156)

2000-03-09 16:19:52# 125. lþ. 76.6 fundur 287. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# (fyrirsvar eignarhluta ríkisins) frv., Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[16:19]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Mér þykir miður ef hæstv. núv. samgrh. telur að sá málatilbúnaður sem hér er á ferðinni sé fyrst og fremst til þess að gera samgrh. tortryggilegan. Þetta er svo fráleitt að það er vart svaravert en verður eigi að síður að gera örlítil skil.

Nú er alveg ljóst að tilefni þess að þetta mál er flutt er ekkert tengt hæstv. samgrh. sérstaklega heldur þeirri stöðu sem er á markaði þar sem um er að ræða fyrirtæki, Landssíma Íslands sem er með yfirburða markaðsráðandi stöðu, langt yfir 90%, og býr við þá aðstöðu að hæstv. samgrh. fer ekki aðeins með eignarhlut í þessu stóra markaðsráðandi fyrirtæki heldur setur jafnframt leikreglur fyrir ungan og lítt þroskaðan markað þar sem fyrirtæki eru, eins og ráðherra benti réttilega á, að koma sér fyrir í ýmsum greinum fjarskipta.

Hann nefndi það svo að hér risi upp hvert fyrirtækið á fætur öðru og samkeppnin væri ekki torvelduð. En það er samt athyglisvert, herra forseti, að þegar maður les yfirlit yfir fréttatilkynningar Landssímans eða fylgist með fréttum af þessu fyrirtæki í dagblöðum og fjölmiðlum þá koma reglulega fréttir þess efnis að síminn sé að kaupa hlut í þessu eða hinu fjarskiptafyrirtækinu eða internetsfyrirtækinu. Þegar horft er á þessa þróun virðist svo vera að Landssíminn sé að verða eignaraðili í mjög mörgum af hinum litlu fyrirtækjum sem hafa verið að fóta sig á þessum markaði og í einhverjum tilfellum hefur síminn fært hluta af starfsemi sinni yfir í þessi fyrirtæki.

Ég er ekki að leggja mat á þessa þróun, ég ætla a.m.k. ekki að gera það að þessu sinni en mér finnst ástæða til að vekja athygli á henni því hún er athyglisverð. Það er athyglisvert þegar þetta langstærsta fyrirtæki á markaðnum sér hag sinn vænstan í því að eiga hlut eða hluti í svo mörgum litlum samkeppnisaðilum sem hafa verið að verða til á þessum markaði á undanförnum árum.

Nei, herra forseti, það er ekki tilgangurinn að gera samgrh. tortryggilegan. Ég vísaði í álit samkeppnisráðs og það er eðlilegt. Mér finnst alltaf dálítið merkilegt, herra forseti, hversu viðkvæmur hæstv. samgrh. er fyrir áliti samkeppnisráðs, og er ég þá ekki að tala bara um núv. hæstv. samgrh. heldur einnig fyrrv. hæstv. samgrh. En ég sé ástæðu til þess vegna orða hæstv. ráðherra hér fyrr að endurtaka það sem fram kemur í niðurstöðu samkeppnisráðs en það telur að tengsl milli ráðherra og ráðuneytis hans annars vegar og fyrirtækis í umsjá hans hins vegar geti almennt skapað tortryggni keppinauta um jafna stöðu þeirra. Á það er bent að slík tortryggni ein og sér er til þess fallin að hamla virkri samkeppni.

Herra forseti. Hér er það samkeppnisráð sem telur að þessi tengsl skapi ákveðna tortryggni og það þarf ekki þingmenn Samfylkingarinnar til þess.

Áfram segir í niðurstöðu samkeppnisráðs að í tengslum við fjarskiptamarkaðinn sérstaklega telji samkeppnisráð ástæðu til að benda á að í raun sé álitamál hvort sú staða að sami ráðherra fari annars vegar með eignarhald ríkisins í fjarskiptafyrirtæki þess og hins vegar með almennt reglugerðar- og stjórnsýsluvald á markaðnum sé samrýmanleg þeim kröfum sem gerðar eru til stjórnvalda á grundvelli EES-samnings og afleidds réttar af honum.

Ég sé ástæðu til að endurtaka þetta, herra forseti, vegna orða hæstv. ráðherra.

Það vakti líka athygli mína að hæstv. ráðherra telur sér það sérstaklega til tekna að hafa staðið fyrir breytingu á fjarskiptalögum á þá lund að samkeppni geti átt sér stað. Nú er það svo að við erum komin inn í alþjóðlegt umhverfi sem gerir það að verkum að hæstv. ráðherra þarf að mæta ákveðnum kröfum. Mér þykir það svo sjálfsagt að hann mæti þessum kröfum að ég veit ekki hvort ástæða er fyrir mig að þakka honum það sérstaklega eða fyrir hann sjálfan að þakka sér það, einfaldlega vegna þess að ef við ætlum að nýta þá nýju tækni og þá nýju möguleika sem í henni felast fyrir Ísland þá verður að mæta því með breyttri löggjöf. Menn voru sumir á því hér þegar verið var að fjalla um frv. til nýrra fjarskiptalaga að ekki væri nógu langt gengið í þá veru að sköpuð væri aðstaða til virkrar samkeppni á markaðnum. Þetta veit ég að hæstv. ráðherra man úr þeim umræðum.

Ég endurtek það, herra forseti, það er svo sjálfsagður hlutur að samgrh. hverju sinni breyti löggjöf til þess að umhverfi okkar, til þess að markaðurinn, til þess að fyrirtækin geti tekist eðlilega á við þær breytingar sem eru að verða að mér finnst a.m.k. í þessu samhengi ekki ástæða til að geta þess sérstaklega.

Að lokum vil ég fara yfir það sem hæstv. ráðherra vildi meina að væri lausn í þessu máli, og ef hann telur að þurfi að vera á því lausn kemur hann væntanlega auga á þennan vanda þó hann vilji ekki gera mikið úr honum, þann vanda sem fylgir því að sami aðili fari með eignarráð og framkvæmdarvald á þessum markaði en hann telur að lausnin sé sú að uppi séu áform um að selja Landssímann. Ég er engan veginn sammála þessu. Ég tala ekki um þegar ráðherra bætir því við að hann telji það þá skyldu sína að sjá til þess að fyrirtækið vaxi á meðan á þeim tíma stendur að verið er að selja fyrirtækið. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að fyrirtæki á stærð við Landssímann verður trauðla selt í einu lagi og allra síst alveg á næstunni. Sú nefnd sem hæstv. fyrrv. samgrh. skipaði til að fara yfir þessi mál mælti með því að fyrirtækið yrði selt í þremur hlutum, ef ég man rétt, og mér sýndist að það mundi taka a.m.k. þrjú ár. Við vitum það sem höfum aðeins innsýn í hvernig þessir hlutir gerast að Landssíminn verður ekki auglýstur til sölu á morgun. Ég gef mér því, herra forseti, að það verði a.m.k. fimm ár í það að búið sé að selja Landssímann.

Nákvæmlega eins og það veldur tortryggni að sami aðili fari með eignarráðin og reglugerðarvald á markaðnum gagnvart öðrum fyrirtækjum hlýtur það að setja hæstv. ráðherra í svolítið sérkennilega stöðu gagnvart öðrum fyrirtækjum í samkeppni ef hann þarf á hverjum tíma að keppast við og vera þá í virkri samkeppni við þau fyrirtæki sem eru á markaðnum að halda þessu fyrirtæki sem sölulegustu og í sem hæstu verði. Nú er ég ekki að segja að það eigi ekki að gera en af því að hlutir eru með þeim hætti sem raun ber vitni hlýtur það að skapa viðbótartortryggni, tortryggni sem er óþarft að ríki á þessum markaði og er áreiðanlega fyrirtækinu Landssíma Íslands hf. fremur til trafala en hitt á meðan á þessum breytingum stendur sem eru augljóslega fram undan hjá fyrirtækinu.