Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 16:29:36 (5157)

2000-03-09 16:29:36# 125. lþ. 76.6 fundur 287. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# (fyrirsvar eignarhluta ríkisins) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[16:29]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umræðum en út af því sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan og vék sérstaklega að mér og embættisfærslu minni sem samgrh. í því sambandi þá þykir mér rétt að segja nokkur orð.

[16:30]

Það er nú í fyrsta lagi svo að það kemur ekki á óvart að þingmenn Samfylkingarinnar standi hér upp og finni að því hvernig staðið sé að rekstri og yfirstjórn Landssímans. Það má segja að allan síðasta áratug hafi þingmenn Samfylkingarinnar sérstaklega skorið sig þannig úr að þeir hafa sýnt þessu fyrirtæki lítið umburðarlyndi. Skil ég satt að segja ekki hvernig á því stendur vegna þess að í nútímaþjóðfélagi er það grundvallaratriði til þess að vel megi fara að fjarskiptin séu rekin á traustum grundvelli, að við séum þar fyllilega jafnokar annarra þjóða í tæknivæðingu, í því að taka upp nýjungar, í því að reka fjarskiptakerfi ódýrt þannig að það megi koma mönnum að fullu gagni og standa þó svo að því að það sé frjálst og að nýir aðilar geti komið inn í það og nýtt sér þá möguleika sem fyrir hendi eru.

Þetta hefur allt tekist hér á landi. Það má segja að það eina sem er til trafala sé að við Íslendingar stöndum verr að vígi en aðrar þjóðir hvað snertir útbreiðslu sjónvarpsefnis. Auðvitað er það vegna þess að Samkeppnisstofnun hefur staðið gegn því með margvíslegum hætti að Landssíminn hafi not af ljósleiðaranum sem í jörðu liggur þannig að ekki hafa verið efnahagslegar forsendur fyrir því að leggja áherslu á að koma honum í hús. Þarna stöndum við aftar öðrum þjóðum. Þetta er gott dæmi um það þegar samkeppnisyfirvöld með skammsýni sinni koma í veg fyrir að þróunin geti liðið fram eins og lækur án þess að sérstakar stíflur séu settar fyrir tilteknar greinar, eins og stundum er reynt að setja flóðgarða fyrir ákveðna leggi af ám til þess að beina þeim öllum í einn farveg.

Þessi afskipti Samkeppnisstofnunar hafa að sjálfsögðu tafið fyrir þróuninni hér á landi þó svo að við Íslendingar séum það nýjungagjarnir og fljótir að tileinka okkur nýja tækni að t.d. í notkun á internetinu stöndum við öllum öðrum þjóðum framar, en svo leit að vísu ekki út á vissu tímabili.

Nú tók ég svo eftir og hef ekki lesið það álit Samkeppnisstofnunar að hún telji óeðlilegt að sami ráðherra fari með stjórn Póst- og fjarskiptastofnunar, eins og ég skildi, og hafi með höndum stjórn Landssímans. Ef rétt er þá þykir mér þetta mjög undarlegt, sérstaklega með hliðsjón af því að Samkeppnisstofnun heyrir undir viðskrh. og ég veit ekki betur en að t.d. stjórn bankanna sé í höndum viðskrh., hins sama ráðherra. Það er því öldungis ljóst að Samkeppnisstofnun hlýtur að telja óeðlilegt að hún skuli heyra undir viðskrh. ef óeðlilegt er að Póst- og fjarskipastofnun heyri undir samgrh., ellegar þá að óeðlilegt sé að bankarnir heyri undir viðskrh., ef það á að vera óeðlilegt að Póst- og fjarskiptastofnun heyri undir samgrh. ef hið sama á ekki að gilda um Landssímann. Þarna er mótsögn, bæði í málflutningi í þinginu og eins í álitsgerðum Samkeppnisstofnunar og ekki í fyrsta skipti.

Það er auðvitað algjör misskilningur að Landssíminn sé einhver undantekning í íslenskri stjórnskipan í þeim skilningi að fyrirtæki geti ekki heyrt undir fagráðherra í sérstökum tilvikum. Þegar áburðarverksmiðjan var seld, var ég landbrh. og flutti það frv. Sementsverksmiðjan heyrir undir iðnrh. Bankarnir heyra undir viðskrh. Það eru ugglaust fleiri dæmi um að fagráðherrar aðrir en þessir þrír fari með umboð ríkisvaldsins og séu handhafar þeirra hlutabréfa sem út eru gefin. Þarna er því alls ekki um einsdæmi að ræða.

En kjarni málsins er auðvitað sá að þetta frv. er flutt til þess enn einu sinni að láta það koma fram að Samfylkingin af einhverjum ástæðum telur það pólitíska hagsmuni sína að gera Landssímann tortryggilegan. Þetta er í samræmi við fyrri umræður hér í þinginu og satt að segja er það undarlegt ef maður horfir til þess fylgis sem Samfylkingin á innan Landsímans, innan þess stóra vinnustaðar, að hún skuli eftir sem áður þrásinnis á Alþingi koma fram með þeim hætti sem ég heyrði á fulltrúum hennar í ræðustól í dag.