Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 16:36:36 (5158)

2000-03-09 16:36:36# 125. lþ. 76.6 fundur 287. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# (fyrirsvar eignarhluta ríkisins) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[16:36]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. sem er fyrri flm. þess frv. sem hér er til meðferðar. Ég vil segja að það er auðvitað algjör misskilningur að ég sé eitthvað sérstaklega viðkvæmur fyrir athugasemdum eða álitum Samkeppnisstofnunar. Ég lít nú svo til að það sé hins vegar sjálfsagður hlutur að samgrh. bregðist við eins og aðrir og veigri sér ekki við að gera athugasemdir við þær umsagnir eða álit sem sú stofnun kemur fram með. Hún er ekki hafin yfir gagnrýni. Því fer fjarri, og ég held að hún þurfi á því að halda eins og allar opinberar stofnanir að aðilar séu óhræddir við að gera athugasemdir við það sem frá þeim kemur.

Um umrætt álit frá Samkeppnisstofnun sem flm. þessa frv. byggja mjög á þarf nú ekki fastar að orði að kveða en svo að þar segir að það geti almennt skapað tortryggni, svo ég vitni til þeirra orða hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur sem hún las upp úr þessu áliti, að samgrh. fari með eignarhaldið á Landssímanum. Þetta eru nú ekki alvarlegri athugasemdir en svo. En ég tel mig hafa fært fyrir því rök að ekki sé ástæða til þess ótta sem fram kemur í málflutningi flm. þessa frv.

Ég hlýt að gera athugasemdir við það sem hv.þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði hér, að breytingar á fjarskiptalöggjöfinni sem voru gerðar fyrir áramótin --- lögin tóku gildi um áramót --- hafi verið til þess eins að mæta kröfum utan úr heimi, kröfum frá Brussel vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Því fer fjarri. Auðvitað fylgjum við þeim kröfum sem þaðan koma en frv. var sjálfstæð afurð okkar Íslendinga að miklu leyti, en tekið var tillit til þeirrar þróunar sem er að verða og hefur orðið á fjarskiptamarkaði og löggjöfinni sem tengist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ég get því ekki fallist á að við höfum einungis verið að fylgja straumnum utan úr Evrópu. Því fer fjarri.

Enda er það nú svo að það er mat margra, og ég hef heyrt það erlendis, að framvindan hér á Íslandi á fjarskiptamarkaðnum er svo ör að við erum að ýmsu leyti framar en nágrannaþjóðir okkar í notkun fjarskiptanna og það er m.a. vegna þess að við höfum verið í fremstu röð hvað varðar breytingar á löggjöfinni sem lúta að því að auka samkeppnina, auka frelsið og skapa símafyrirtækjunum möguleika á að fóta sig og nýta þessa tækni sem ryður sér til rúms á sviði fjarskiptanna. Þetta er alveg nauðsynlegt að komi hér fram vegna þess að þingmenn Samfylkingarinnar reyna að koma því inn hjá þjóðinni að við fáum þessi skilaboð að utan. Þau hljóta að fagna því hins vegar ef þau trúa því sjálf, hv. þingmenn Samfylkingarinnar, svo áköf sem þau eru nú um það að ganga algerlega í það lið sem fylgir aðild að Evrópusambandinu og ég veit ekki betur en að Samfylkingin ætli sér það, komist hún til valda.

En hvað um það. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu frv. Það er væntanlega enginn vilji fyrir því í þinginu að gera þá breytingu sem frv. gerir ráð fyrir. Lögin eru alveg klár hvað þetta varðar og eins og hér hefur komið fram þá verður þróunin vonandi sú að ríkisfyrirtækjunum fækkar og þá minnkar sú ógn sem af þessu stafar.

Ég vil aðeins segja vegna þess sem kom fram hér hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að síminn væri að kaupa upp lítil fjarskiptafyrirtæki þá held ég hins vegar að raunin sé sú að það sé meira sótt á um það að síminn kaupi fyrirtæki eða verði aðili að en fallist er á. Ég tel því að þarna sé fullkomlega eðlilega staðið að verki. Síminn þarf auðvitað að standa þannig að málum að fyrirtækið styrki sig. Fjarskiptastofnun fylgist og á að fylgjast með því lögum samkvæmt að síminn misnoti ekki aðstöðu sína á markaði og það tel ég ekki að sé gert. En það er hvergi svo, að ég tel, að síminn sé að kaupa upp samkeppnisaðila og koma þannig í veg fyrir samkeppni. Það er nú ekki svo. Það hefði miklu fremur verið nær að vekja sérstaka athygli á því að fyrirtæki í eigu borgarinnar kemur nú mjög sterkt inn á þennan markað, þ.e. Lína.Net og er að kaupa upp fyrirtæki og ekkert er við því að segja. Fram undan er því mikil samkeppni. Hún er þegar fyrir hendi og ég tel að löggjöfin eigi að geta tryggt og hún tryggi í framkvæmd að á þessum markaði sé samkeppnin eins eðlileg og nokkur kostur er og það er auðvitað fyrst og fremst í þágu neytendanna að þannig er að málum staðið.

Ég held að ekki sé ástæða að hafa fleiri orð um þetta. Ég bjóst við að þetta frv. kæmi hér fram og vænti þess að það fái umfjöllun í nefnd og að aðilar verði kallaðir til umsagnar og ýmsir aðilar sem hér hafa verið nefndir fái þá tækifæri til þess að skýra betur út fyrir þingnefnd þá afstöðu sem m.a. kom fram hjá hv. þm. sem mælti hér fyrir frv. og varðar athugasemdir samkeppnisyfirvalda.