Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 16:44:49 (5159)

2000-03-09 16:44:49# 125. lþ. 76.6 fundur 287. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# (fyrirsvar eignarhluta ríkisins) frv., Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[16:44]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Hún er merkileg þessi umræða sem lýtur að því að þingmenn Samfylkingarinnar séu að gera ýmsa tortryggilega. Áðan var það hæstv. samgrh. sem þingmenn Samfylkingarinnar voru að gera tortryggilegan og nú er það Landssími Íslands sem þingmenn Samfylkingarinnar eru að gera tortyggilegan.

[16:45]

Herra forseti. Mér hefur sýnst á undanförnum árum að Landssími Íslands væri því miður fullfær um að gera sig tortryggilegan sjálfur með ýmsu því sem verið hefur að gerast og það sést auðvitað best á því að fyrirtækið hefur verið reglubundið inni á borði hjá Samkeppnisstofnun og verið að fá ýmsa úrskurði sem benda til þess að ekki sé gengið nógu varlega um dyr samkeppninnar á þeim bæ. Nei, herra forseti, Landssíminn hefur séð um þetta sjálfur og e.t.v. stjórnvöld vegna þess að þau hafa jú haldið eignarráðum í fyrirtækinu með þeim hætti sem við viljum nú breyta, eignarráðum sem eins og hæstv. ráðherra fór yfir áðan geta gert fyrirtækið tortryggilegt.

Hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á það áðan hvað væri tortryggilegt í þessu efni og ég vil endurtaka, herra forseti, að það er það atriði þegar fyrirtæki á samkeppnismarkaði, ríkisfyrirtæki á samkeppnismarkaði er í þeirri stöðu að einn og sami ráðherra fer með eignarhlutinn og reglugerðarvald á þessum markaði þar sem fleiri fyrirtæki starfa. Ég vil líka vegna orða hv. þm. Halldórs Blöndals nefna að það er sambærilegt frv. varðandi bankana til umfjöllunar í þinginu með sömu flm. Menn eru hér því samkvæmir sjálfum sér.

Ég nefndi ekki Brussel áðan, herra forseti, það gerði hæstv. ráðherra. Ég nefndi hins vegar að við hrærðumst í alþjóðlegu umhverfi og það gerum við sannarlega og við getum ekki vikist undan því hvort sem við fáum til þess beinar kröfur eða óbein skilaboð, að vera þátttakendur í þeirri þróun sem er að eiga sér stað. Blessunarlega eru Íslendingar bæði djarfir og nýjungagjarnir, og það er rétt sem hæstv. ráðherra nefnir að notkun internetsins er mjög mikil á Íslandi og sömuleiðis háttar þannig til hjá okkur að við erum með fleiri GSM-númer en númer á fastasímum, það er svo komið. Þetta er að ég held einsdæmi og sýnir auðvitað hve mikilvæg þessi tækni er okkur því að þó að nýjungagleðin sé einhver þá undirstrikar þetta líka mikilvægi þeirrar nýju tækni í samskiptum þjóðar sem býr í stóru landi.

Það sem við erum að leggja hér til, herra forseti, er fyrst og fremst það að farið verði eftir meginreglu reglugerðar um Stjórnarráð Íslands. Sú meginregla var ekki fundin upp til að gera einstaka ráðherra eða einstök fyrirtæki tortryggileg. Hún var einfaldlega fundin upp eða sett inn vegna þess að menn töldu stjórnsýslulega rétt að halda aðskildum eignarráðum í fyrirtæki annars vegar og faglegri yfirstjórn á markaði eða reglugerðarvaldi á markaði hins vegar. Þetta er skýr regla sem við þingmenn Samfylkingarinnar teljum að eigi jafnvel betur við núna en þegar þessi reglugerð var sett, ekki síst vegna þess að ýmsum stofnunum ríkisins, sem stærstar og fyrirferðarmestar hafa verið í umræðunni á undanförnum árum, hefur nú verið breytt í hlutafélög og starfa á samkeppnismarkaði og þess vegna enn þá ríkari rök fyrir því að lögum verði breytt í þá veru sem við höfum lagt hér til.