2000-03-13 15:02:41# 125. lþ. 77.92 fundur 370#B ummæli forsætisráðherra í umræðu um starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[15:02]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fyrir röskum þremur vikum fékk sá sem hér stendur leyfi til að hverfa frá þingstörfum vegna læknisaðgerðar. Í þessar þrjár vikur hefur varaþingmaður setið á Alþingi í staðinn fyrir mig þangað til nú. Síðastliðinn mánudag voru til umræðu á hinu háa Alþingi fjármál stjórnmálaflokka í tilefni af frv. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Síðan hefur hæstv. forsrh. tvívegis, fyrst í viðtali við Morgunblaðið sl. föstudag og síðan í viðtali við sjónvarpið í gærkvöldi, látið þess sérstaklega getið að sá sem hér stendur, formaður Alþfl., hafi kosið að vera fjarverandi við þá umræðu. Þetta segir hæstv. forsrh. þó að honum sé það vel ljóst, eins og öllum öðrum þingmönnum, hvað olli fjarvistum mínum. Varaþingamaður sat í staðinn fyrir mig á Alþingi og ég hvorki gat né mátti vera viðstaddur þær umræður.

Ég skil ekki hvað fyrir hæstv. forsrh. vakti, hvort hann var að reyna að gera lítið úr þeim sem hér stendur og flokki hans eða því máli sem flutt var. Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að svona framkoma gagnvart þingmanni í löglegum forföllum sakir veikinda eru ekki vanaleg vinnubrögð á Alþingi Íslendinga. Ég vona að þetta hafi eingöngu verið yfirsjón hjá hæstv. forsrh.