Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 15:30:23 (5170)

2000-03-13 15:30:23# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því frv. sem hér er fram komið og hæstv. félmrh. mælti fyrir. Ég vil líka að hluta til taka undir það að við eigum ekki að flýta okkur í þessu máli. Það sem þarf kannski mest að tryggja þegar verið er að steypa saman tveimur svona stórum lagabálkum er að fjármál fylgi með. Við þekkjum afstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga. Hún kemur líka fram í séráliti. Að mjög mörgu þarf að hyggja þegar við erum að skoða svona gríðarlega stóra málaflokka sem eru að renna saman.

Mig langar aðeins að fara yfir einstakar greinar og það sem ég tel að við gætum kannski skoðað betur í félmn. Ég varð þeirrar gleði aðnjótandi að koma að hluta til að vinnu þessarar nefndar og það var bæði mjög gagnlegt og skemmtilegt og sérstaklega þar sem ég kem úr sveitarstjórn þá bý ég að sjálfsögðu yfir þekkingu sem nýttist líka vel.

Ef við skoðum III. kafla frv. þá hefst hann á 4. gr. Mig langar að leggja áherslu á e-liðinn. Þar segir, með leyfi forseta, og verið er að tala um verkefni félmrn.:

,,leggja mat á hvort markmiðum félagsþjónustu hafi verið náð í einstökum sveitarfélög um, sbr. 4. mgr. 7. gr.``

Ég held að það sé mjög mikilvægt að eftirlitsþáttur ráðuneytisins sé gerður í rauninni mjög sterkur til að tryggja að þau sveitarfélög sem eiga að setja reglur um einstaka þætti eins og fjárhagsaðstoð og annað, geri það. Á sumum stöðum vil ég gjarnan ganga lengra og skylda sveitarféögin til slíkra þátta.

Í 5. gr. um félagsmálanefndirnar er talað um að félagsmálanefndir fari með hlutverk barnaverndarnefnda. Mér finnst að þarna eigi að vera inni ákvæði um að stærri sveitarfélögin geti hreinlega skipað sérnefndir. Það er auðvitað ákveðinn galli þegar alltaf er verið að tala um landið allt. Við erum með mjög stóra kjarna eins og Reykjavík, Hafnarfjörð og Kópavog þar sem er gríðarlegur fjöldi fólks og oft fleiri mál en í minni sveitarfélögum og því er mjög mikilvægt að þeim málum sé algerlega haldið til haga í sérnefndum. Ég tel að þannig tryggjum við líka faglegri vinnubrögð. Það er því spurning hvort ekki ætti að opna fyrir slíkt þarna því ef við skoðum 6. gr. þá gætum við alveg eins verið að tala um að barnaverndarnefnd sé undirnefnd félagsmálanefndar, en samkvæmt skipuriti t.d. Reykjavíkurborgar þá eru þær algerlega jafnstæðar með sitt hvorn lagabálkinn á bak við sig. En að sjálfsögðu vinna þessir þættir allir saman. Mér þætti því mjög gaman ef skoðuðum þetta aðeins nánar og fengjum kannski til okkar sérfræðinga til að skoða þetta með nefndinni.

Þetta með undirnefndirnar er líka mjög mikilvægt. Mér dettur í hug það sem hefur verið í Reykjavík. Þar höfum við verið með sér undirnefnd sem nefur fjallað um einstaklingsmál og fjármál, um fjárhagsaðstoðina, því það er ekki eðlilegt að fimm manns séu með alla þá trúnaðarpappíra og gögn sem varða einstaklinga. Og með því að vera með þriggja manna undirnefnd sem er úr ráðinu þá tryggjum við mjög góða faglega niðurstöðu og tryggjum að fólkið veit að farið er ofan í málin. Við þekkjum líka að þessar undirnefndir hafa orðið til með reynslusveitarfélagaverkefnum.

Skoðum næst 7. gr. um samvinnu sveitarfélaganna. Meðan við höfum ekki sameinað sveitarfélög meira en orðið er, þó ég sé að komast á þá skoðun að stundum eigi að gera það með handafli, þá er mjög áríðandi að sveitarstjórnir geti ákveðið að vinna sameiginlega að félagsþjónustu eða einstökum verkefnum hennar með sérstöku samkomulagi. Þetta er auðvitað gert. En við sjáum hinum megin við að við erum að tala í mörgum tilfellum um sameiningu sveitarfélaganna. Það kemur nú vonandi.

Í 9. gr. er um mikilvægi stuðnings, ráðgjafar og fræðslu frá fagfólki. Það er gríðarlega mikilvægt þegar við erum búin að fá inn málaflokk eins og málefni fatlaðra þar sem verið er að vinna með mjög viðkvæma einstaklinga, börn og fjölskyldur þeirra, að þessi stuðningur sé tryggður í löggjöfinni. Það er gríðarlega mikilvægt. Við erum að tala um að handleiðsla starfsfólks sé eitt grundvallaratriði þess að starfsemin sem við erum að bjóða upp á í sveitarfélögunum gangi upp.

Grundvallarreglur við framkvæmd félagsþjónustunnar eru taldar upp í 10. gr. Það sem ég vil auðvitað sjá þar á eftir e-liðnum þar sem segir að gæta eigi þess að fyrirkomulag félagsþjónustu sé auðskiljanlegt og aðgengilegt, þá erum við að tala um að það sé auðskiljanlegt og aðgengilegt einstakingunum og að á því þurfi að hnykkja að til þurfi að vera aðgengileg efni með fræðslu og öðru þannig að fólk hafi líka sinn rétt í höndunum og geti þá líka jafnvel kynnt sér hann áður en það mætir í þau viðtöl sem það þarf að mæta í. Ég mundi gjarnan vilja sjá þessa viðbót þarna inni.

Hvað varðar einstök verkefni félagsmálanefndanna þá er nýmælið um gerð þjónustusamninganna alveg nauðsynlegt og við sjáum þetta vera að gerast víðast hvar. Það er margt mjög gott í forvarnakaflanum. Ég hefði talið eðlilegt að það þyrfti ekki endilega að taka hann upp sérstaklega heldur væri hann eðlileg flétta í þessum lögum. En ég mun svo sem ekki gera það að stóru máli.

Það er mjög gaman að sjá í 12. gr. að um er að ræða dálitla útvíkkun því talað er þar um atvinnumál, æskulýðsmál og skipulagsmál. Skipulagsmál hafa mjög mikið að segja til um það hvernig skiptingin er í borginni, hvar fólk býr, hvort við erum með blöndun eða aðskilnaðarstefnu. Við sjáum auðvitað ýmis slys eiga sér stað í skipulagsmálum eins og þegar ákveðið var hér í eina tíð að byggja eintómar miklar og stórar blokkir þar sem var eingöngu félagslegt húsnæði eða leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaganna. Við sáum þetta líka í stærri stofnunum og öðru. Núna hefur þetta auðvitað breyst. Það er spurning um blöndun en ekki aðskilnað. Það er því mjög mikilvægt að félagsþjónustan og sveitarfélögin, á þeim enda, komi að þessum málum. Ég vil bara benda á þetta.

Ég sakna þess líka þarna þar sem við erum að tala um ýmis konar forvarnastarf sem beinist að börnum og við erum að tala um áhættuhópa og að þá sé mjög mikilvægt að hafa félags- og tómstundastarf inni í myndinni, að nefna það að það er ekki bara ungt fólk sem býr í sveitarfélögunum, þar býr líka eldra fólk. Á það þarf að leggja áherslu og það er sérstaklega mikilvægt núna þar sem verið er að steypa þessum lögum saman þannig að félags- og tómstundastarf þeirra hópa sem áður voru undir sérlögum geti á engan hátt einangrast og þeir fái líka fullar upplýsingar um sín réttindi, þ.e. að félags- og tómstundastarfið miði að því að leggja áherslu á fræðslu og réttindi og það eigi bæði við um fatlaða, aldraða og aðra sem í sveitarfélögunum búa. Þetta finnst mér vanta þrátt fyrir ákvæði, hef ég skrifað hér, 35. gr. þar sem talað er almennt um tómstundastarf við hæfi. Þar finnst mér að mætti fjalla ítarlega um þetta.

Ég sakna líka örlítið úr 14. gr. af því að við erum að tala um forvarnastarf sem beinist að áhættuhópum, að mjög mikilvægt er að hafa þarna inni leitarstarf og þar af leiðandi að það leitarstarf sé til staðar í sveitarfélögunum. Í því er ákveðin forvörn og það er mjög mikilvægt að þá geti komið einhver úrræði þar fram þannig að þetta er kannski spurning um örlitla viðbót við 14. gr.

Það er mjög mikilvægt að réttur til dvalarsveitarfélags sé alveg skýr þótt lögheimili sé annars staðar eins og talað er um í 17. og 18. gr.

Í 19. gr. er fjallað um rétt fólks án lögheimilis í landinu. Þá spyr ég: Hvað um rétt erlendra ríkiborgara? Í reglugerðarheimild aftast segir að það eigi að setja reglugerð um erlenda ríkisborgara án lögheimilis. Þetta hefur verið í lögunum áður og mér finnst mjög mikilvægt að það sé í sjálfum lögum hvernig unnið er að því þó svo að sett verði reglugerð þannig að sveitarfélögin viti nákvæmlega hvernig þau eigi að haga sér. Það á að hafa það skýrt núna. Mér finnst að það eigi að skoða núgildandi lagaákvæði. Sveitarfélögin hafa alltaf unnið mjög í nánu samneyti við félmrn. í þessu málum en þetta verður að vera í lögunum og einhverra hluta vegna hefur þetta dottið hér út. Ég lít svo á að þetta hafi dottið hér út.

Síðan er það 20. gr. um leiguíbúðir. Það er alltaf spurning hvort við eigum að segja ,,að leitast við`` eða hvort við eigum að tryggja framboð. Þetta eru hlutir sem þarf að skoða og verður mjög fróðlegt að ræða við fulltrúa sveitarfélaganna um þessa grein.

Hvað 21. gr. varðar um húsnæði sem sérstaklega er ætlað til að mæta sérþörfum þá er spurning hvort það þurfi ekki líka að vera sérstakt ákvæði um þjónustustofnanir og dagvistarstofnanir á vegum sveitarfélaga. Það er ekki hér en er í eldri lögum. Það væri líka mjög gott ef við mundum skoða hvort það sé eitthvað sem við mundum setja inn þarna.

Ég er mjög ánægð með kaflann um ráðgjöf, þ.e. 22. gr. En ég tel að þar vanti inn þegar við teljum upp í síðustu klásúlunni þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Ráðgjöf skal vera víðtæk og taka m.a. til fjármála, húsnæðismála, fjölskyldumála, svo sem skilnaðarmála, þar með talinna forsjár- og umgengnismála, ættleiðingarmála, uppeldismála o.fl., auk sérhæfðrar ráðgjafar, svo sem vegna öldrunar, fötlunar eða annarra ástæðna.``

Vegna þess að við erum að stíga það skref að blanda saman þessum tveimur stóru lagabálkum og við vissum af nefndinni sem vann að málum langveikra barna þá held ég að við ættum að hafa þarna líka langvarandi veikindi með þannig að engin áhöld séu um að það sé þarna inni og það róar líka okkar umhverfi.

Varðandi 24. gr. um fjárhagsaðstoðina þá vil ég vil ganga svo langt þar sem verið er að tala um að sveitarstjórn setji reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar, að sveitarstjórninni sé skylt að setja þessar reglur þannig að fólk viti alltaf hvar það standi, þetta sé ekki spurning um eitthvert rassvasabókhald eða að: ,,Af því að þetta er nú hann Jón þá fær hann fimmtíuþúsundkall``. Það á ekkert að gefa svigrúm til slíkrar vinnu. Það á að liggja faglegt mat að baki ástæðu þess fólk fær aðstoð og af hverju ekki og það á að vera rökstuðningur líka fyrir því ef því er synjað. Sá rökstuðningur er auðvitað ekki til staðar ef engar reglur eru til að styðjast við. Fólk verður að vita hvaða reglur gilda í hverju sveitarfélagi. Ég veit að þarna er umboðsmaður Alþingis mér mjög sammála.

Í 26. gr. er talað um að fjárhagsaðstoð til sambúðarfólks skuli ákvörðuð með sama hætti og til hjóna. Þetta er auðvitað mál sem við höfum rætt í allshn. og þetta tengist líka mörgum öðrum lögum, þ.e. þegar við erum alltaf að gera sambúðina að löggjörningi. Sambúð er og verður aldrei löggjörningur. Við verðum að fara að taka ákvörðun um það hvað við ætlum að gera í þeim málum. Þar sem þetta snýst um peninga, þá hentar það. Ef það snýst ekki um peninga, þá hentar það ekki. Við höfum einmitt rætt þetta svolítið í allshn. út frá ýmsum öðrum forsendum. En þarna kemur þetta upp aftur. Ég held að við verðum að fara að skoða þessi mál. Sambúð er ekki löggjörningur. Löggjörningur er það eina sem gefur lagalega stöðu og þannig að fólk viti hvar það stendur gagnvart sínum maka. Ég gerði það í kvennaráðgjöfinni að ég sagði bara: ,,Í guðanna bænum, giftið þið ykkur. Það er eina leiðin til að vita hvar þið standið.`` Ég held að fólk átti sig ekki á því að bæði erfðaréttur og annað er bundið giftingu og með þessu framhaldi förum við að fá einhverja klásúlu um að þeir sem eru í sambúð geti erft einhvern. En það gengur bara ekki. Annaðhvort erum við með þennan löggjörning eða ekki. Þetta er nú efni í aðra umræðu sem mér finnst afskaplega spennandi.

Ég vildi gjarnan sjá í 28. gr. að sveitarfélögum væri gefinn valkostur um að hafa önnur búsetuform þannig að við séum bara í rauninni með liði a, b, c, og d sem yrði þá önnur búsetuform sem sveitarstjórn ákveður. Það geta verið ýmis tilraunaverkefni þannig að lögin loki ekki fyrir neitt slíkt sem þau í sjálfu sér gera ekki. En það er líka allt í lagi að hafa það hér inni. Það gefur kannski líka sveitarfélögum hugmyndir um að leysa ýmis þjónustuvandamál, t.d. þjónustu við fatlaða, langveikra eða aldraðra þannig að það er líka mjög mikilvægt að fyrir því sé lagastoð.

[15:45]

Varðandi 29. gr. um heimaþjónustu og liðveislu þar sem rætt er um fötlun og félagslegar aðstæður er mikilvægt að fram komi að við erum auðvitað að tala um að gera fötluðum börnum kleift --- börnum, ekki fullorðnum --- að búa sem lengst heima hjá sér, þ.e. að aðstaða fjölskyldunnar sé þannig að slíkt sé hægt. Ég vil að við ræðum um hvort ekki eigi að setja slíkt inn. Það er auðvitað mjög mikilvægt að börn geti verið heima hjá sér sem lengst og fjölskyldan fái þann stuðning sem til þarf.

Í 29. gr. er enn fremur rætt um að félagsmálanefnd meti þörf á þjónustu og geri samkomulag við þann sem hennar nýtur um fyrirkomulag þjónustunnar og hvað í henni felst. Ég vil benda á að þetta getur auðvitað líka átt við þjónustusamninga. Ég minni á þjónustusamning um heimaþjónustu og liðveislu sem gerður var við Geðhjálp og er endurskoðaður á tveggja eða þriggja ára fresti. Hann hefur nýst sérstaklega vel vegna þess að ef einhverjir þekkja sinn skjólstæðingahóp þá eru það þeir. Það hefur því nýst öllum mjög vel. Sveitarfélög verða auðvitað að treysta þeim hagsmunasamtökum sem eru að vinna að þessum málum til að gera tilraunir í starfsemi sinni þannig að þau búi við ákveðinn sveigjanleika.

Varðandi 30. gr. um ferðaþjónustu þá þekkjum við vel á höfuðborgarsvæðinu að ferðaþjónusta sem lýtur að börnum snýst líka um hve mikið og lengi þau geta ferðast í bíl. Þar kemur spurningin um hámark ferða. Mögulegt er að inn komi einhverjir viðbótarbílar, samningar við leigubílastöðvar eins og við höfum gert og gert er erlendis. Þannig væri hægt að koma til móts við slíkt verkefni.

Það er líka mjög mikilvægt að þessi nefnd geti falið einhverjum öðrum verkefnið. Í Reykjavík eða á öllu höfuðborgarsvæðinu er spurning hvort nefnd sem sér um almenningsþjónustu felli þetta bara ekki inn í aðrar samgöngur eins og við vildum gjarnan sjá, þessa blöndun á fötluðum og ófötluðum. Hvert svo sem þau þurfa að ferðast væri hægt að fela þetta verkefni öðrum, t.d. nefnd í umsjá sveitarfélagsins. Mér finnst að við eigum að vera alveg ófeimin við það.

Ef við skoðum bæði skammtímadvölina og eins 33. gr. um dagvistina rifjast upp að ég hef oft sagt, bæði í faghópum mínum og annars staðar, að í raun þyrftum við að skoða önnur lög með hliðsjón af þessum, þ.e. lög um málefni aldraðra. Það væri mikið skref fram á við því það hamlar vissulega að lög um málefni aldraðra skuli heyra undir heilbrrn. en þessi lög undir félmrn. Við sjáum þetta líka varðandi þjónustu við börn með geðræn vandamál og í ýmsu þegar þessi mál skarast milli ráðuneyta. Það væri mjög gaman ef við gætum víkkað sjóndeildarhringinn og farið að hugsa um þessi mál í heild. Það væri gott ef fram færi endurskoðun á málefnum aldraðra þannig að þau blönduðust meira inn í þessi lög. Við sjáum þetta sérstaklega varðandi skammtímadvölina. Mér dettur það í hug vegna þess að það er atriði þegar aldraðir búa heima að meira sé um hvíldarinnlagnir, líka fyrir þann hóp. Maður sér það mjög vel í 31. gr. og einmitt líka í 33. gr. Aldraðir eru auðvitað með sína dagvist, þar gilda sérlög en maður sér að þar geta oft verið sömu þarfir þó um misjafna hópa sé að ræða.

Í 34. gr. kemur fram að Greiningar- og ráðgjafarstöð veiti umsögn um vistun barna samkvæmt ákvæðinu. Við bíðum eftir að það frv. verði lagt fram. Félmrh. nefndi það hér áðan því þarna hanga saman þrenn lög. Annars vegar er þar þessi pakki og síðan réttindagæslan um málefni fatlaðra, sem átti í raun að fella hér inni en er í sérlögum áfram, og lögin um Greiningar- og ráðgjafarastöðina.

Í X. kafla er fjallað um þjónustusamninga og vil ég enn minna á þá samninga sem gerðir hafa verið við Geðhjálp og fleiri slík samtök. Við þurfum að skoða það opið og vera ekki hrædd við það.

Ég vil benda á 41. gr. Þar vantar mikilvægt atriði, líklega fyrir handvömm. Þar á auðvitað líka að vera aðstoð við blinda, ekki bara túlkar og táknmálstúlkar heldur líka aðstoð við blinda. Slíkt hefur verið praktíserað í Reykjavík að hluta.

Varðandi 43. gr., um að kynna skal aðila sérstaklega rétt hans til málskots þá er það nokkuð sem við megum aldrei gleyma. Það atriði vantar í 43. gr.

En nú er tími minn búinn, herra forseti.