Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 15:52:31 (5173)

2000-03-13 15:52:31# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég á sæti í hv. félmn. og kem þar til með að hafa aðstöðu til að vinna að þessu máli. Í ljósi þess sem hæstv. félmrh. sagði hér um meðferð málsins á yfirstandandi þingi þarf ég í sjálfu sér ekki að hafa ýkja mörg orð um frv. við 1. umr. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að mikilvægt og tímabært sé að framkvæma heildarendurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þó að þau séu ekki nema tíu ára gömul eða innan við það. Sömuleiðis er augljóst að yfirfærsla málefna fatlaðra til sveitarfélaganna kallar á heilmikið samræmingarstarf í lögum. Þannig er auðvitað mjög mikilvægt að vel takist til um þessa lagasetningu.

Um þann þátt málsins vil ég segja, herra forseti, að auðvitað er mjög margt sem mælir með því að málefni fatlaðra séu heppilegar vistuð hjá sveitarfélögum, að svo miklu leyti sem menn vilja halda sig við það hreinlífi að verkaskipting þessara stjórnsýslustiga þurfi alfarið að vera þannig að annar hvor aðilinn fari með málaflokkinn 100% hvað framkvæmdina varðar. Ég efast um að þegar fram líða stundir eigi menn eftir að líta á það sem jafnmikið úrslitaatriði og í tísku hefur verið nú um stundir á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar og hef styrkst í þeirri sannfæringu á síðustu árum að í raun sé það ákveðinn misskilningur að líta svo á að eitthvað sé að því að stjórnsýslustigin tvö, ríki og sveitarfélög, eigi með sér samstarf um framkvæmd ákveðinna málaflokka þegar svo ber undir og þegar það er heppilegra. Ég held að slíkt samstarf geti verið með ýmsum hætti, t.d. gæti framkvæmdin í aðalatriðum verið á hendi annars aðilans, t.d. sveitarfélaganna, en ríkið hafi ákveðna aðkomu að málinu og tryggi tiltekna grundvallarþætti, t.d. með því að jafna aðstöðumun sveitarfélaganna, koma að yfirstjórn faglegra þátta og annað því um líkt.

Það er sérkennilegt ef við í þessu litla landi ætlum að gerast kaþólskari en páfinn í þessum efnum. Í miklu stærri samfélögum þar sem stjórnsýslustigin eru jafnvel þrjú eða fjögur er alls ekkert óvenjulegt að þau eigi öll samstarf um framkvæmd tiltekinna, mikilvægra málaflokka. Þar má nefna ýmislegt í félagslegri þjónustu sveitarfélaganna á hinum Norðurlöndunum, t.d. heilbrigðismál sem ekki er óalgengt að bæði sveitarfélög, fylki og ríki komi sameiginlega að með tilteknum hætti.

En varðandi málefni fatlaðra sem almennt virðist stuðningur við hjá ríkinu, hjá hagsmunasamtökum og sveitarfélögunum að færa til sveitarfélaganna, þá sé ég vissulega í því marga kosti en líka ákveðna galla eða hættur. Meðal kostanna má nefna að þjónustan yrði ákaflega nærri íbúunum, þeim sem í hlut eiga og að því leyti er eðlilegt út frá sjónarmiði nálægðar og nærþjónustu að sveitarfélögin annist þessi mál. Í öðru lagi er enginn vafi á því að ákveðin samþætting og yfirsýn yfir málaflokkinn getur fengist með því að fela sveitarfélögunum þetta alfarið. Þau eru með mjög skyld verkefni á sinni könnu nú þegar þannig að t.d. hjá stærri sveitarfélögum sem reka öfluga félagsmálaþjónustu, eru með félagsmáladeildir eða félagsmálastofnanir innan sinna vébanda, liggur að mörgu leyti mjög vel við að færa þetta verkefni þangað. Í þriðja lagi má vænta þess að ákveðin hagkvæmni eða hagræðing geti náðst út úr slíku, aftur einkum og sér í lagi hjá stórum sveitarfélögum sem hafa innviði til þess að taka við verkefninu, hafa þá uppbyggingu á sínum snærum nú þegar að þau geti tekið við yfirumsjón málaflokksins án þess að bæta þar miklu við. Það á hins vegar alls ekki við þegar komið er niður í meðalstór svo ég tali nú ekki um smærri sveitarfélög. Fyrir þau getur viðbótarverkefni af þessu tagi beinlínis kallað á ákveðnar breytingar og uppbyggingu sem ekki er til staðar.

Meðal gallanna vil ég nefna að þá og því aðeins verður þetta til bóta fyrir þá sem málið skiptir, þ.e. fatlaða, að fjármögnun verði fyrir hendi til þess að standa helst myndarlegar að þessum málaflokki en gert hefur verið undanfarin ár. Það er að sjálfsögðu ekki í hendi. Í raun eru menn kannski að byrja á öfugum enda eins og menn hafa því miður iðulega gert í sambandi við þessi verkaskipti á undanförnum árum, að ganga ekki fyrst frá þeim undirstöðuþætti málsins að fyrir fjármögnuninni sé tryggilega séð og staða sveitarfélaganna þannig völduð í þeim efnum að þau geti síðan í kjölfarið samið um yfirtöku málaflokksins og gengið frá öllum lausum endum.

Annan ókost eða áhyggjuefni, herra forseti, nefni ég en það er spurningin um stefnumótun, faglega framþróun og yfirsýn í þessum málaflokki. Það er ekki sagt með vantrausti í garð sveitarfélaganna heldur er auðvitað augljóst mál að það verkefni liggur öðruvísi þegar það er orðið viðfangsefni mörg hundruð sveitarfélaga að sjá um svona málaflokk. Betri yfirsýn hlýtur að nást þegar hann er á einum stað á vegum ráðuneytis og hins opinbera. Það þarf auðvitað að ganga mjög vendilega frá því að metnaðarfull og framsækin stefnumótun sem taki til landsins alls nái fram að ganga. Þá má ekki vera sambandsleysi á milli annars vegar löggjafans og ráðuneytanna og hins vegar þess sem sér um framkvæmdina og á að bera af henni kostnað, þ.e. sveitarfélaganna. Sú hætta blasir auðvitað við ef illa tekst til. Ég held að við sjáum nú þegar ákveðna tilhneigingu í þá átt í grunnskólamálum þar sem ríkið er búið að koma framkvæmdinni yfir á herðar sveitarfélaganna og kostnaðinum. Ríkið getur þar af leiðandi slegið um sig með metnaðarfullri stefnumótun og sent öðrum reikninginn, svo maður einfaldi þetta nú svolítið.

Það verður að gæta þess mjög vandlega að ekki slitni á milli annars vegar stefnumótunar, lagasetningar og faglegrar vinnu að málaflokknum og hins vegar framkvæmdarinnar og möguleikum þeirra sem hana eiga að annast til þess að greiða þann kostnað sem fylgir.

[16:00]

Í þriðja lagi, herra forseti, nefni ég hlut sem þarf að skoða mjög vandlega og velta fyrir sér og það er spurningin um mjög sérhæfða þjónustu á þessu sviði þegar í hlut eiga mjög sérstök úrlausnarefni sem koma alltaf upp. Þá er maður einkum og sér í lagi með stöðu minni sveitarfélaganna í huga. Það liggur þannig eins og menn þekkja dæmi um að jafnvel einn mjög fatlaður einstaklingur getur gerbreytt stöðu lítils sveitarfélags hvað varðar afkomu og möguleika til að sinna lögbundum skyldum sínum ef svo ber undir.

Þetta eru að sjálfsögðu síður vandamál hjá stóru sveitarfélögunum en að þessu þarf að hyggja mjög vel og þetta er líka spurningin um það hvort í því geti ekki verið fólgin ákveðin hætta, ákveðið óhagræði að leysa úr slíkum málum á mörgum stöðum í landinu í staðinn fyrir að ríkið hafði það allt á einni hendi áður. Ég gæti nefnt sem dæmi stöðu barna sem fæðast með verulegar heyrnarskemmdir eða heyrnarlaus. Í meðalstórum sveitarfélögum í landinu er kannski annað eða þriðja hvert ár líkur á því að slíkur einstaklingur fæðist. Það er augljóslega ekki grundvöllur fyrir því að byggja upp mikla starfsemi sérstaklega eða stofnanir eða þjónustu í kringum slík tilfallandi tilvik. Það má setja mjög mikil spurningarmerki við það hvort yfir höfuð sé nokkurt vit í því að vera með slík úrræði nema á einum stað á landinu og þá sameiginlega og á sameiginlegum grunni.

Vandinn sem kemur upp ef sveitarfélögin eru komin með slík verkefni snýr ekki bara að sveitarfélaginu heldur snýr hann líka að t.d. foreldrum slíkra barna. Þau eru stundum sett í þá aðstöðu að þurfa að svara þeirri erfiðu samviskuspurningu að flytja sig yfir í stærra sveitarfélag eða jafnvel stærsta sveitarfélag landsins þar sem kannski er í boði meiri sérhæfð þjónusta eða sætta sig og sitt barn við skerta þjónustu vegna þess að möguleikar sveitarfélagsins sem þau búa í eru svo takmarkaðir. Þetta er því ekki vegferð án vanda, herra forseti, sem hér er verið að leggja upp í. Það sýnir reynslan úr öðrum málaflokkum á öðrum sviðum og þarna geta komið upp erfið álitamál sem mér finnst að menn þurfi sameiginlega að taka á. Ég hefði talið að vel hefði mátt skoða að þessi yfirfærsla yrði með svolítið öðrum hætti en kannski sumt annað sem menn hafa verið að gera og byggir á þessari sérstöku 100% hreinu verkaskiptingu, t.d. þannig að ríkið ætti áfram aðild að málaflokknum með tilteknum hætti þegar í hlut ætti sérhæfðustu þjónustuþættirnir og úrlausn mála sem félli undir sérstök tilvik samkvæmt nánari skilgreiningu. Þá kæmi til greina að ríkið leysti það sameiginlega með sveitarfélögunum en vísaði þeim vanda ekki alfarið frá sér.

Herra forseti. Auðvitað er til lítils að ræða þetta nema skýrar línur komist í fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og það verður þeim mun brýnna sem fleiri verkefni eru flutt yfir til sveitarfélaganna. Ég vil nefna eitt atriði sérstaklega í þessu sambandi og það er að til stendur að leggja niður Framkvæmdasjóð fatlaðra í tengslum við þessa breytingu. Jú, menn geta sagt að það sé sjálfgefinn hlutur af því að verkefnið sé komið yfir til sveitarfélaganna og þá sé ekki starfræktur á grundvelli laga einn sameiginlegur sjóður sem eigi að kosta uppbyggingu í málaflokknum.

Gott og vel. En er þá fyrir því séð að menn geti ráðist í verkefni af því tagi sem Framkvæmdasjóður fatlaðra gerði mögulegt að ráðast í, einkum á fyrstu árunum eftir að hann kom til sögunnar? Það er borðleggjandi að á grundvelli Framkvæmdasjóðs fatlaðra var unnt að lyfta miklu grettistaki hvað varðar uppbyggingu á þessu sviði. Því miður hafa menn hneigst til þess óyndisúrræðis, á síðustu árum einkum og sér í lagi, að ganga æ ríkar í skrokk á þeim sjóði og skerða hann, fyrst með því að velta yfir á sjóðinn talsverðum rekstrarkostnaði í málaflokknum og á seinni árum einnig með því beinlínis að taka hluta tekna hans til ríkissjóðs. Það er sorgarsaga og verður ekki frekar um það fjallað hér en ég hef fyrir mitt leyti fyrirvara á um þennan frágang málsins nema tryggt verði með einhverjum mjög handföstum hætti að fyrir hendi séu möguleikar hjá sveitarfélögunum, helst í formi einhverrar sjálfstæðra eyrnamerktra tekjustofna til að halda áfram uppbyggingu á þessu sviði. Það er úti í hafsauga að þar sé öllu lokið sem ráðast þarf í. Það er þvert á móti þannig að við höfum dregist aftur úr á nýjan leik á sviði málefna fatlaðra á vissum sviðum. Ég nefni sérstaklega aðgengismálin. Enginn vafi er á því að því miður miðar okkur Íslendingum allt of hægt í þeim efnum. Það er sorglegt að fara um bæinn og sjá hversu margar opinberar stofnanir jafnvel ráðuneyti eru alls óaðgengileg fyrir fatlað fólk og hefur lítið miðað í þeim efnum ef menn hafa talið sig hafa pólitíska stöðu til að skerða þann framkvæmdasjóð sem átti einmitt að beita sér fyrir úrbótum á því sviði eins og mörgum öðrum.

Herra forseti. Í frv. eru að sjálfsögðu fjölmörg mikilvæg ákvæði sem væri ástæða til að fjalla um. Ég ætla tímans vegna ekki að gera það. Bara til að nefna nokkur ákvæði um félagsmálanefndir og mikilvægt starf þeirra nefni ég forvarnastarf í VI. kafla sem ég tel að mætti ef eitthvað er skerpa enn betur á hlutverki sveitarfélaganna á því sviði. Það er ekki síður mikilvægt nú en áður, líka þegar sveitarfélögin eru komin með grunnskólann til sín alfarið því að mikið af því starfi þarf að vinna á fræðslustiginu eða í gegnum skólana. Komið hefur verið inn á réttindi langveikra barna og ég fagna því að sjálfsögðu að þau eru þar með á nótunum.

Um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna er sömuleiðis komið inn á svið sem er til lítils í raun og veru að ræða nema í beinu samhengi við fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna. Þar eru samskipti ríkis og sveitarfélaganna ákaflega viðkvæm ef svo má að orði komast því að ríkisvaldið með ákvörðunum sínum, t.d. með ýmiss konar skerðingum og ákvörðunum bótaupphæða í almannatryggingakerfinu, skattalegum aðstæðum einstæðra foreldra og slíkum þáttum, því sem lagt er til húsnæðismála, upphæðir húsnæðisbóta eða húsaleigubóta eða annað slíkt, hefur aftur bein áhrif á það hversu mikil þörf fyrir framfærslu og fjárstuðning kemur fram í sveitarfélögunum. Skoði menn sögu síðustu ára, ef þeir trúa þessu ekki, og sjái t.d. hvernig ákveðnir hópar hafa í æ ríkari mæli neyðst til að leita til sveitarfélaganna um stuðning, jafnvel fólk sem ætti samkvæmt öllu venjulegu að geta séð sér og sínum farborða.

Um húsnæðismálin, herra forseti, vil ég segja það að mér sýnist því miður ef eitthvað er heldur breyting í þá átt að draga úr skyldum sveitarfélaganna í því efni. Í raun og veru er það þannig að þó að mestu leyti sé til haga haldið ákvæðum 45.--47. gr. gildandi laga, þó að það sé sett fram með nokkuð öðrum hætti, þ.e. í 20. gr. og svo aftur í 28. gr. í kaflanum um félagsþjónustu við einstaklinga og fjölskyldur, þá er þar nokkur munur á eftir sem áður. Það er t.d. ljóst að í staðinn fyrir að skylda sveitarfélaganna eða félagsmálanefndanna til að veita fjölskyldum og einstaklingum bráðabirgðaúrlausn í húsnæðismálum, sem áður var í sérstakri lagagrein, er það talið upp sem 3. tölul. 28. gr. Meiri breyting er þó væntanlega fólgin í því að nú kemur inn í lögin afleiðing af þeim breytingum á lögum um húsnæðismál sem þegar hafa verið gerðar og leysa sveitarfélögin í raun undan öllum skyldum í þessum efnum fyrir utan sérhæfðu þjónustuna sem þau yfirtaka með málefnum fatlaðra, að sjá fyrir einhverju tilteknu framboði á leiguhúsnæði. Sveitarfélögin hætta með öðrum orðum að hafa neinar skyldur hvað það varðar að aðstoða fólk t.d. við að komast í eigið húsnæði. Það er alveg ljóst að það sem hverfur út úr núgildandi 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, XII. kafla um húsnæðismál, er allt sem snýr að öðru húsnæði en leiguhúsnæði. Með öðrum orðum, þær skyldur sem sveitarfélögin höfðu áður í lögum til þess að aðstoða fólk t.d. í sambandi við félagslegt kaupleiguhúsnæði og félagslegar eignaríbúðir hverfa. Ég óttast það að a.m.k. í sumum sveitarfélögum munu menn fría sig ábyrgð í húsnæðismálum í mjög ríkum mæli umfram það að sjá fyrir því að eitthvað framboð leiguíbúða sé í boði í þessu sambandi.

Ég vil að lokum, herra forseti, aðeins nefna ákvæði 36. gr. um þjónustusamninga. Mér finnst heldur dapurlegt að hæstv. félmrh. Páll Pétursson skuli á sínum háa og virðulega aldri í pólitík þurfa að vera að flytja svona einkavæðingarákvæði. Mér er ljóst að þetta er tíðarandinn sem alls staðar veður uppi. Það á að leysa öll vandamál með því að fela reksturinn einkaaðilum en þarna eru á ferðinni tiltölulega opin og nánast algjörlega galopin ákvæði, heimild til þess að færa yfir í einkarekstur þá þjónustu sem sveitarfélögin hafa haft með höndum, jafnvel viðkvæmustu þætti hennar ef svo ber undir. Þarna er engin nánari skilgreining. Ég verð að segja alveg eins og er, að mér finnst leggjast lítið fyrir kappann, hæstv. félmrh., sem taldi sig einu sinni til félagshyggjuarmsins heitins í Framsfl. sem hlýtur nú að þurfa að nefnast sem slíkur, því að hann er greinilega andaður sá armur sem einu sinni var til í Framsfl. og kenndi sig til félagshyggju. Til marks um það er að fyrrum oddviti hans, Páll Pétursson, hæstv. félmrh., flytur svona galopið einkavæðingarákvæði í félagsþjónustu sveitarfélaga og heldur er það dapurlegt.

Að lokum, herra forseti, vil ég þakka hæstv. félmrh. fyrir það sem hann boðaði okkur hvað varðar áform hans um afgreiðslu málsins. Ég tel það vera til fyrirmyndar að það liggi fyrir með þessum hætti að menn ætli ekki að fara að þjösna málinu í gegn og vera ekki með einhvern heimskulegan metnað í þeim efnum að valta yfir Alþingi og rúlla málinu í gegn fyrir vorið heldur viðurkenna að um mjög viðamikið mál er að ræða sem þarfnast góðrar skoðunar. Ég er alveg hjartanlega sammála því að mér finnst að í fyrsta lagi ætti að horfa á afgreiðslu málsins um jólaleytið að ári og það sé mjög mikilvægt að félmn. og þingið allt fái góðan tíma til að fjalla um það og fylgifrv. sem er næst á dagskrá. Í raun og veru held ég að félmn. þurfi að skapa sér aðstæður til að vinna að þessu máli í sumar. Maður saknar þess í svona tilvikum að mál af þessu tagi skuli ekki geta lifað í þinginu. Það þyrfti að vera fyrir hendi a.m.k. möguleiki á því að flytja svona mál og láta það vera í nefnd yfir sumarið og vakna til lífsina að hausti á sama stað í stað þess að þetta kallar að sjálfsögðu á að félmrh. verður að endurflytja málið næsta haust, en gott og vel. Þannig eru þingsköpin og kannski er ekki stór skaði skeður þó að hitt væru eðlilegri vinnubrögð að hægt væri að láta málið vera ósköp einfaldlega lengur í samfelldri vinnslu.