Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 16:12:51 (5174)

2000-03-13 16:12:51# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Að vísu væri ástæða til að nefna margt í andsvari við ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, m.a. það sem hann nefndi um vinnuferlið við það að flytja þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna. Ég held að það sé algerlega augljóst mál að það varð að smíða einhvern lagaramma áður en farið var að ákveða peningastreymið til sveitarfélaganna vegna þessara laga. Menn urðu að hafa einhver markmið til þess að vinna að og vita hvert verkefnið væri og hvert við værum að stefna og reikna síðan út hvað það kostaði. Ég held að það sé faglegri metnaður varðandi þennan málaflokk að líta á málið þannig en segja: ,,Hér eruð peningarnir og svo skuluð þið gera allt þetta fyrir þessa peninga.`` Ég held að það sé ekki vinnuaðferðir sem við eigum að temja okkur á Alþingi.

Síðan vildi ég nefna það, ég held að það hafi farið fram hjá hv. þm., að í 50. gr. er fjallað um rannsóknar- og þróunarstarf innan félagsþjónustu. Þar er gert ráð fyrir því að Alþingi veiti árlega fé á fjárlögum í rannsóknar- og þróunarsjóð í félagsþjónustu. Ég tel ástæðu til að nefna þetta af því að það kom fram í ræðu þingmannsins að hann treysti sveitarfélögunum ekki til það vinna að þróunarstarfi félagsþjónustu. En þarna er gert ráð fyrir því að veitt sé fé til að stunda slíka rannsóknarstarfsemi.