Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 16:17:08 (5176)

2000-03-13 16:17:08# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að heyra að leyfi skuli veitast til að koma á hreint ýmsum atriðum sem hafa kannski farið fram hjá hv. þm. og að hann taki það ekki mjög óstinnt upp.

Varðandi það að sveitarfélögin stefni út og suður í þróun sinni á félagsþjónustu þá er í frv. gert ráð fyrir að sveitarfélögin geti þróað félagsþjónustu sína eftir þeim aðstæðum sem gefast hverju sinni. Hvort það er að fara út og suður í félagsþjónustunni er auðvitað matsatriði. Þetta er samt sem áður þáttur í því að sveitarfélögin hafa ákveðið sjálfstæði til þess að þróa félagsþjónustu sína.

Varðandi fjárhagsþáttinn voru fleiri nefndir starfandi en laganefndin sem samdi þennan lagaramma hér. Þar á meðal er nefnd sem fjallaði um fjármálin sem væntanlega er enn að störfum. Þar er verið að fara yfir það hvernig fjármálin breytast og þar fyrir utan er síðan tekjustofnanefnd sveitarfélaganna að störfum. Þar koma þessi mál líka fyrir. Því er alveg augljóst varðandi fjármál málaflokks fatlaðra að það er ekkert einfalt að reikna út hvað slíkt kostar. Það tekur ákveðinn tíma og nefndin sem starfar að því þurfti þess vegna að hafa einhvern lagaramma fyrir framan sig fyrir.