Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 16:19:21 (5177)

2000-03-13 16:19:21# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[16:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilega mjög vandasamt að velja orð sín hér þannig að ekki sé hægt að lesa út úr þeim eitthvað allt annað en maður ætlaðist til. Ég sagði að fyrir hendi væri hætta á því að málin gætu farið út og suður. Þar með var ekki sagt að ég teldi að það mundi sjálfkrafa gerast hjá sveitarfélögunum af því að þau stefndu endilega þannig.

Ég vona samt að hv. þingmaður og aðrir sem mál mitt heyra taki það eins og það er. Ég er hér auðvitað að tala um þörfina á því að tryggja ákveðna samræmingu og stefnumótun á þessu sviði. Ég held að það hljóti nú einhvern veginn að vera hægt að koma því í orð án þess að í því felist eitthvert óskaplegt vantraust á sveitarfélögin eða meiri háttar árás á þau. Ég verð þá bara að taka það á mig ef svo er, að það sé ekki nokkur leið að lýsa áhyggjum af þeim toga nema í því felist fjandskapur eða lítið álit á þeim sem í hlut eiga.

Ég held að dæmin sýni hins vegar að það getur verið mjög mikilvægt að koma við slíkri samræmdri stefnumótun, að hægt sé að breyta lögum og hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd. Ég get tekið dæmi úr þessum málaflokki. Áherslur breyttust í þá veru að menn hurfu frá eldri hugmyndum um að fatlaðir væru fyrst og fremst vistaðir á risastórum stofnunum, lokaðir þar inni og einangraðir frá samfélaginu. Sem betur fer nam sú hugsun land hér á Íslandi eins og annars staðar, að vísu nokkuð á eftir öðrum löndum. Hvað var gert? Jú, það var sett í lög og mótuð sú stefna að reynt skyldi að auðvelda fötluðum að komast út í samfélagið, lifa eins og annað fólk á sambýlum eða í eigin húsnæði og það var gengið í það verk að tæma þessar stóru stofnanir. Það er akkúrat dæmi um þörfina fyrir að hægt sé að hrinda slíkum hugmyndum í framkvæmd, þ.e. að einhvers konar samræming og einhver trygging sé fyrir því að slíkar áherslur nái fram að ganga. Það má ekki vera háð geðþótta hvers og eins hvernig það er. Löggjafarvaldið verður væntanlega áfram hér og ég geri ráð fyrir því að öllum hv. þm. sé ljóst að Alþingi fer einnig með lagasetningarvaldið fyrir sveitarfélögin. Þar af leiðandi verður þessi vandi áfram á okkar herðum.