Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 18:03:38 (5187)

2000-03-13 18:03:38# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[18:03]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi gjaldskrárákvæðin þá er ekki heimild í núgildandi lögum að taka gjald fyrir frekari liðveislu. Það er heldur ekki heimild til þess að taka gjald fyrir sértæka ferðaþjónustu fyrir fatlaða. Það er hins vegar heimilt samkvæmt frv. sem við ræðum hér.

Eins er heimilt að taka leigu af húsnæði sem er í eigu Framkvæmdasjóðs fatlaðra samkvæmt frv. sem ekki er heimilt eins og er. Ég sé ekki annað en að þarna sé heimilt að taka leigu af öllu húsnæði sjóðsins með breytingunni sem nú er verið að gera. Ég er að benda á að heimildirnar verða miklu víðtækari með þessu frv. en í lögum um málefni fatlaðra og það þarf að skoða sérstaklega.

Hæstv. ráðherra talaði ekki um og hafði kannski ekki tíma til að koma inn á það sem ég ræddi um langveik börn. Ég tel að það þurfi að vera algjörlega tryggt að þau fái sömu þjónustu og fötluð börn. Mér finnst það þurfa að liggja skýrt fyrir frá ráðherra því frv. er óljóst í því efni. Eins hefur ekki komið fram, sem ég spurði um, hvort skilgreina ætti til hverra lögin um málefni fatlaðra ná. Verður það yfirfært að lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga? Í því sambandi nefndi ég geðfatlaða, sjónskerta og blinda sem eiga þann rétt samkvæmt lögunum um málefni fatlaðra. Mér fannst að það þyrfti að liggja hér klárt fyrir.

Nokkrum atriðum náði hæstv. ráðherra ekki að svara í ræðu sinni áðan. Ég vænti þess að hann komi hér aftur inn í umræðuna á síðari stigum. Ég talaði t.d. um samráð sem mér finnst dregið úr við hagsmunasamtök fatlaðra. Mun Umhyggja, samtök langveikra barna, fá aðild að því samráði sem þó er fyrirhugað í þessu frv.?