Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 18:07:04 (5189)

2000-03-13 18:07:04# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[18:07]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Mig langar til að koma að nokkrum atriðum við 1. umr. um þennan mikilvæga málaflokk. Þetta frv. boðar mjög jákvæðan anda og ég vil nefna þar nokkur atriði.

Frv. gerir skyldu sveitarfélaganna varðandi félagsþjónustuna skýrari en er í núgildandi lögum og það er vel. En það er mjög flókið að flétta saman rammalöggjöf um félagsþjónustu og lög um ákveðinn málaflokk, í þessu tilviki málaflokk fatlaðra. Krafa eða beiðni um að málaflokkur fatlaðra fari yfir til sveitarfélaganna er mjög sterk og hefur verið studd af mörgum sem koma að þessum málaflokki svo sem heildarsamtökum fatlaðra, Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp. Öryrkjabandalag Íslands og Samband ísl. sveitarfélaga hafa óskað eftir þessum flutningi yfir til sveitarfélaganna nú um þó nokkurn tíma. Sú ákvörðun var tekin að flytja tvo málaflokka, grunnskólann og félagsþjónustuna, og byrja á grunnskólanum.

Í þessum lögum er mjög jákvætt að gengið skuli út frá einstaklingnum og einstaklingsbundinni þjónustu. Það er ný hugsun, er mjög til bóta og örugglega það sem viðtekið verður í framtíðinni. Það að miða þjónustuna við einstaklinginn á eftir að gera þjónustuna dýrari en hún er í dag. Þó að markmiðið með því að færa þetta yfir til sveitarfélaganna sé ekki að gera þjónustuna dýrari þá eru lögin sem betur fer þannig að þau eiga að gera félagsþjónustuna markvissari. Félagsþjónustan á að vera undir eftirliti. Það á að gera rannsóknir og fylgjast með því hvaða þörf er á félagsþjónustu. Það á að gera úttektir. Allt þetta, sem er mjög jákvætt, á eftir að skilgreina þörfina meira en gert er í dag. Það eru ákvæði um að sveitarfélögunum sé uppálagt að uppfylla ákveðna þörf sem er meira en gert er í dag og þörfin er fyrir hendi. Þess vegna verður mjög erfitt fyrir nefndina, sem á að meta kostnaðinn við yfirfærsluna, að meta kostnaðinn af því að þetta verður dýrara en er í dag. Sem betur fer, getum við kannski sagt. Þörfin er fyrir hendi.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, að skilgreina þurfi hugtakið ,,langveik börn``. Það er mjög ánægjulegt að heyra að nú á næstunni á eftir að koma fram af hendi ríkisstjórnarinnar markmið um þjónustu við langveik börn.

Staða sveitarfélaganna er mjög misjöfn og varðandi þjónustuna þá hefur hún styrkst í stærri sveitarfélögum og þeim sem tekist hefur að sameinast um rekstur félagsþjónustunnar með samvinnu eða því að mynda byggðasamlög um félagsþjónustu, ég tala nú ekki um staði þar sem minni sveitarfélög hafa sameinast. Eftir sem áður eru mörg sveitarfélög ekki svo félagslega sterk og þeim á eftir að verða erfitt að taka við þessum pakka. Í frv. er gert ráð fyrir því að sveitarfélög geti sameinast um þjónustuna. Þannig er það hjá sumum í dag en eftir sem áður hefur það ekki gerst alls staðar. Það má líta á þetta sem enn frekari hvatningu til minni sveitarfélaga, annaðhvort til sameiningar eða þess að sameinast um þessa mikilvægu þjónustu. Segja að það sé jákvætt en þó má ekki líta fram hjá því að sveitarfélögin eru sjálfstæð og mörg þeirra eru allt of veik til þess að yfirtaka þennan málaflokk eins og er. Þeim hefur mörgum verið erfitt að uppfylla skyldur sem fylgja yfirtöku á grunnskólanum, t.d. við að einsetja skóla. Ég tel að við eigum að læra af þeirri reynslu sem við gengum í gegnum þá og taka mið af því þegar við færum nýja málaflokka yfir til sveitarfélaganna.

Það hefur líka komið fram að í minni sveitarfélögum þarf ekki nema einn einstakling, svo mikið sem eitt mikið fatlað barn til þess að setja allt á annan endann. Þó að viðkomandi sveitarfélag vilji leggja sig fram og stuðla að því að þessi fjölskylda geti verið í sveitarfélaginu þá er sú þjónusta e.t.v. ekki fyrir hendi, þ.e. sú sérfræðiþjónusta innan sveitarfélagsins sem þarf að vera til að geta stutt við þessar fjölskyldur. Þetta verður svona áfram. Það verður ekki sjálfgefið að hægt verði að fá sérhæft starfsfólk og vel menntað til starfa til að uppfylla þjónustuþörf foreldra með mikið fötluð börn, því miður.

Þetta hefur orðið til þess að margir hafa hreinlega orðið að flytja á höfuðborgarsvæðið þar sem sérhæfð þjónusta er til staðar og þannig verður auðvitað áfram. Við eigum hins vegar að vinna að því, og það er andi þessara laga, að mikið fötluð börn og langveik geti verið sem mest heima hjá sér en það kostar aukið fjármagn.

Í því sambandi vil ég nefna að það kemur hvergi fram með skýrum hætti að koma eigi á formlegu sambandi á milli heilbrigðisstofnana, þ.e. heilsugæslustöðva og félagsþjónustunnar. Þá er ég aðallega að hugsa til landsbyggðarinnar. Þessu samstarfi hefur verið komið á en það er einstaklingsbundið hvort því hefur verið komið á þar sem ekki eru reynslusveitarfélög. Þá er ég að tala um samstarf um málefni fatlaðra og heilsugæslustöðvanna og félagsþjónustunnar. Þegar málefni fatlaðra og félagsþjónustu koma saman í eina löggjöf er eftir sem áður ekkert sem segir að eitthvað ákveðið form skuli vera á samvinnu heilbrigðisstarfsmanna og félagsþjónustunnar. Nú er ég ekki að leggja til að heilsugæslan fari yfir til sveitarfélaganna en það væri til bóta ef í lögunum væri ekki bara ákvæði um að leita megi samstarfs heldur að samvinnunni væri komið formlega á því að það sparar svo mikið. Það sparar tvíverknað, það sparar vinnu hjá foreldrum að leita sér upplýsinga og það er faglegur stuðningur fyrir alla. Ég beini því til félmn. að hún skoði hvort með einhverju móti væri hægt að koma á formlegri samvinnu á milli heilsugæslustöðva og félagsþjónustunnar.

Vísað er til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna um mjög dýra þjónustu, þ.e. ef fötlun er mikil eða um langveik börn að ræða. Ég held að skilgreina þurfi mikla fötlun varðandi framlag úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna, eða notuð verði sama skilgreining og þjónustan verði hjá ríkinu. Það er öryggi fyrir alla að vita hver mörkin eru til að fá aukalega framlag inn í sveitarfélagið því að það eru svo miklar sveiflur í þessari þjónustu, bæði tímabundið og sem erfitt er að sjá fyrir. Í skólanum er fjárþörf jafnari en þarna þurfa að vera einhvers konar mörk sem ábyrgjast að aukafjármagn komi annaðhvort úr jöfnunarsjóði eða þá að þjónustan verði alfarið ríkisrekin.

Ég fagna því að þetta frv. eigi að fá góðan tíma í vinnslu í þinginu og góðan tíma úti í þjóðfélaginu hjá sveitarfélögunum því að þetta er mjög viðkvæmur málaflokkur. Ég er alveg viss um að þó svo að hv. félmn. hafi unnið vel og búið sé að leggja mikla vinnu í frv. séu þarna ýmis atriði sem þarf að skoða betur og við eigum að gefa okkur tíma til að sinna þessu frv. með mjög vönduðum vinnubrögðum.

Ég vil svo að lokum leggja til að lögin taki ekki gildi fyrr en grunnskólinn er alfarið einsetinn. Stærri sveitarfélögin og þau sem treysta sér til að yfirtaka málaflokkinn gætu gert það fyrr en dagsetninguna ætti að miða við að sveitarfélögin séu búin að einsetja skólana. Einsetningin þyrfti að vera kominn á lygnan sjó svo að sveitarfélögin séu ekki að basla þann málaflokk og yfirtaka svo stóran málaflokk og mikilvægan sem þessi er.

En í frv. er mjög jákvæður andi og því fagna ég að það skuli vera komið fram og að við skulum hafa tíma til þess að vanda okkur við áframhald vinnunnar.