Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 18:40:05 (5191)

2000-03-13 18:40:05# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[18:40]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég nefndi það áðan að það væru ýmsir þættir þessa frv. sem ég vildi ræða frekar og ég ætla að byrja á að ítreka það sem snýr að byggðamálunum. Við vitum að í mjög mörgum sveitarfélögum vítt og breitt um landið hefur þróunin verið sú að þar sem um fólksfækkun er að ræða þýðir það tekjumissi viðkomandi sveitarfélags. Þau hafa því ekki getað staðið við löngbundin verkefni. Hér er verið að leggja til að til þeirra fari verkefni sem kosta töluverðar fjárhæðir og enn er ekki búið að ganga frá fjárhagsþætti frv.

Mér finnst það skipta miklu og reyndar öllu máli að þarna sé vandað til verka sérstaklega að þessu leyti vegna þess að ég er út af fyrir sig sammála þeirri stefnu að þessi verkefni séu færð yfir til sveitarfélaganna en þau verði þá að geta ráðið við þau.

Eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir kom inn á áðan er líka um þá breytingu að ræða að það á að einstaklingsmiða meira mat á þjónustunni, taka meira mið af þörfum einstaklingsins en að vera með miðstýrðar ákvarðanir sem þýða það að ef hægt er flokka einstaklinginn innan ákveðins hóps sé um ákveðna fjárhæð eða stuðning að ræða, félagslegan eða fjárhagslegan. Ég tel að það sé til bóta að fara þessa leið og það skipti miklu máli fyrir minni sveitarfélögin og geri þeim auðveldara að fást við þetta verkefni.

Engu að síður finnst mér skorta á að þarna sé um nánari útfærslu að ræða, t.d. nánari skilgreiningu á því hvað er fötlun. Ég heyrði ekki hæstv. ráðherra svara því áðan hvort ekki væri þörf á því að taka þessar skilgreiningar upp á ný líka hvað varðar langveik börn vegna þess að við erum auðvitað með langveik börn sem falla undir þá skilgreiningu að vera undir læknishendi a.m.k. þrjá mánuði. Þá á ég við, eins og ég sagði áðan, unga fíkniefnaneytendur og síðan börn sem hafa orðið fyrir hvers konar ofbeldi og einelti. Þarna er um að ræða einstaklinga sem þurfa miklu lengri meðferð en hægt er að afgreiða á þremur mánuðum. Þeir eru kannski ekki undir læknishendi en hjá öðrum heilbrigðisstéttum eins og sálfræðingum, sem voru skilgreindir sem heilbrigðisstétt fyrir tveimur árum, og síðan félagsráðgjöfum. Og sveitarfélögin hafa oft á tíðum átt erfitt með að mæta þeim kostnaði eða standa undir þeirri þjónustu sem þessir einstaklingar þurfa nauðsynlega að fá.

Ég held að það hafi lengi verið þannig að aðeins eitt sveitarfélag á landinu hafi veitt aðstoð sálfræðings eða félagsráðgjafa til barna sem áttu við erfiðleika að stríða og það var sveitarfélag í kjördæmi hæstv. félmrh. á Sauðarárkróki eða bæjarfélagið þar. Þar var um að ræða fyrirmyndarþjónustu á þessu sviði sem vissulega hefur kostað sveitarfélagið sitt en jafnframt var tekið þar á vandamálum sem upp komu af miklum myndarskap. Þetta er hlutur sem ég held að nefndin þurfi að taka til nánari athugunar í umfjöllun sinni.

Á bls. 29 í grg. með frv. er talað um, með leyfi forseta, að: ,,Afdráttarlaus skylda sveitarfélaga til að veita félagsþjónustu gerir það að verkum að félagsþjónustan verður jafnsett annarri velferðarþjónustu sveitarfélagsins þar sem skyldur eru ótvíræðar, svo sem í málefnum grunnskóla og heilsugæslu. Í þessu ljósi má líta svo á að yfirfærsla málefna fatlaðra til sveitarfélaga sé lyftistöng fyrir félagsþjónustuna í heild sinni.``

En við megum ekki gleyma því að skyldurnar eru miklu þyngri og það er ekki víst að þetta verði lyftistöng, sérstaklega þegar horft er til þeirra sveitarfélaga sem búa við afar bágar fjárhagsaðstæður vegna fámennis og hafa hingað til ekki getað veitt eða staðið að fullu við lögbundin verkefni. Sveitarfélögin hafa m.a. þess vegna verið að taka sig saman og sameinast í stærri sveitarfélög.

Á bls. 32 í grg. þar sem fjallað er um 9. gr. er komið inn á einmitt þá þætti sem ég tel að þurfi að skilgreina betur og mun skýrar en gert er. Þar er talað um fagþjónustu félagsþjónustunnar. Sem dæmi um fagfólk innan félagsþjónustunnar má nefna félagsráðgjafa, sálfræðinga, þroskaþjálfa og iðjuþjálfa.

[18:45]

Hve mörg sveitarfélög á landinu ætli hafi starfskrafta sem falla undir þessa skilgreiningu, þ.e. félagsráðgjafa, sálfræðinga, þroskaþjálfa og iðjuþjálfa? Það eru stærstu sveitarfélögin en ekki hin, stöndugri sveitarfélögin en ekki hin. Þarna verður að skilgreina mjög skýrt hver sú þjónusta er sem ætlast er til að sveitarfélögin veiti. Hvað má gera í samstarfi við önnur sveitarfélög og hvað ekki? Þetta frv. er reyndar eins og mörg önnur að því leyti að mér finnst það taka meira mið af getu og möguleikum stærri sveitarfélaganna en þeirra minni. Ég hef orðið vör við ótta sveitarfélaganna við að þau nái ekki að framfylgja þeim markmiðum sem þarna eru sett, sérstaklega þau minni. Jafnvel þó þau sameinuðust stærri sveitarfélögum þá væri um að ræða svo stór svæði að útilokað yrði að sinna þjónustunni á öllu svæðinu án þess að til kæmi gífurlegur kostnaður.

Einnig er fjallað um gjaldtöku á bls. 46 og 47 í frv. í grg. og veittar víðtækari heimildir en nú þegar eru til gjaldtöku. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á hér áðan er með þessu frv. verið að rýmka mjög heimildir til þjónustugjalda en þó segir:

,,Við beitingu á gjaldtökuheimild samkvæmt frv. er á hinn bóginn gert ráð fyrir að sveitarstjórnir taki mið af því hvernig málum þessum er nú háttað í lögum, enda hefur ávallt verið gengið út frá því að hagur fatlaðra skerðist ekki við yfirfærsluna frá ríki til sveitarfélaga.``

Þetta á einnig við í 30. gr. Þar er sagt hið nákvæmlega sama og hún endar á sama hátt:

,,... enda hefur ávallt verið gengið út frá því að hagur fatlaðra skerðist í engu við yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.``

Samt eru þarna að koma til aukin verkefni og auknar heimildir til gjaldtöku. Annaðhvort er verið að setja gjaldtöku á notendur eða á sveitarfélögin umfram það sem er í dag. Það er reyndar mjög skýrt ef flett upp á bls. 55 og 56 þar sem fjallað er um þessar víðtæku heimildir til gjaldtöku, þ.e. að auka hana frá því sem er í dag. Þarna er hægt að sjá hvaða kostnaður mundi falla á sveitarfélögin og hvernig þau koma til með að mæta honum.

Þar á meðal er ferðaþjónusta fatlaðra sem nú á að skylda sveitarfélögin til að bjóða. Í dag er fötluðum einstaklingum eða þeim sem á þurfa að halda í mjög fáum sveitarfélögum boðið upp á ferðaþjónustu. Það er þó gert hér í Reykjavík. Þeim sem hafa heimild til að nota Ferðaþjónustu fatlaðra hefur fjölgað á síðustu árum hjá Reykjavíkurborg án þess að farartækjum til að sinna þessari ferðaþjónustu væri fjölgað að sama skapi. Þeir fötluðu einstaklingar sem áður notuðu Ferðaþjónustu fatlaðra hafa því haft minni möguleika til þess að nýta sér þessa þjónustu og leita í auknum mæli í leigubílaþjónustuna, í sérútbúna bíla. Kostnaðurinn hefur aukist gífurlega fyrir fjölmarga einstaklinga vegna þessa. Síðan er það náttúrlega þannig að ferðaþjónustan er skilgreind á tvo vegu, hvar taka má gjald og hvar ekki. Það er skilgreint eftir því hvað telst nauðsynleg þjónusta og hvað er ekki en það þarf að skilgreina betur en gert er í dag.

Ég vildi líka, virðulegi forseti, koma aðeins hér inn á það að menn vilja færa þjónustu eins og verið hefur á Sólheimum yfir til sveitarfélaganna og draga úr því að hverfi eða þorp fyrir fatlaða séu til. Ég er á móti þeim viðhorfum sem þar koma fram.

Ég hef nú ekki meiri tíma til að ræða þetta viðamikla frv. þar sem ekki má taka oftar til máls en tvisvar við 1. umr. Frv. er á margan hátt mjög gott og ég veit að því fylgir góður vilji hæstv. ráðherra sem hefur tekið myndarlega á þessum málaflokki í ráðherratíð sinni og einnig þjónustu fyrir börn. Þar vil ég sérstaklega nefna Barnahúsið.