Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 18:52:27 (5193)

2000-03-13 18:52:27# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[18:52]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dreg það ekki í efa að til eru smærri sveitarfélög sem geta í samstarfi við önnur ráðið við þetta verkefni. Hins vegar fer það mjög eftir því, eins og hér hefur komið fram, hver fjöldi fatlaðra einstaklinga er. Fjöldi þeirra sem þurfa á aðstoðinni að halda hefur mjög mikið að segja. Ég hef fundið að þótt mjög öflugt samstarf sé t.d. í uppsveitum Árnessýslu milli sveitarfélaganna um ýmsa þætti að þá hafa forsvarsmenn þeirra sveitarfélaga ítrekað komið að máli við þingmenn og dregið í efa möguleika sveitarfélaganna til að fást við verkefnið. Það sama má í raun segja um sveitarfélög eins og Vík og Klaustur. Þó að um samstarf væri að ræða þá yrði sveitarfélagið svo stórt og miklar vegalengdir auk þess sem íbúar þarna, jafnvel við sameiningu sveitarfélaganna, eru svo fáir að ég efast um að verkefnið sé viðráðanlegt.

En ég fagna því hins vegar sem fram kom hér hjá hæstv. ráðherra og þeim hv. þm., nefndarmönnum sem stóðu að því að gera drög að þessu frv. fyrir hæstv. ráðherra. Ég fagna því að ekki á að hraða frv. í gegn heldur gefa sveitarfélögunum möguleika á því að skoða innihaldið, segja álit sitt en um leið laga sig að hugsanlegum breytingum. Það á ekki að skella þessu á með tiltölulega litlum fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég má þó til með að nefna það hér að ég hef oft dregið í efa að skynsamlegt sé að þingmenn eigi aðkomu að undirbúningi að frv. og stýri síðan umræðunni í gegnum þingið eins og inn í félmn. Ég efast ekki um hæfni þessara þingmanna en ég dreg í efa að það séu rétt vinnubrögð að Alþingi eða þingmenn sitji í undirbúningsnefndum og eigi síðan að fylgja frv. eftir í gegnum vinnuna í þinginu, frv. sem þeir eiga kannski stærstan hlut að því að semja.